sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðigjald hefur lækkað hratt

10. febrúar 2021 kl. 10:00

Þorskveiðar í net. MYND/Einar Ásgeirsson

Álagningin árið 2020 nam tæpum 4,8 milljörðum króna, en var 11,3 milljarðar árið 2018 og 6,6 milljarðar árið 2019.

Fiskistofa greinir frá því að veiðigjald ársins 2020 hafi numið tæpum 4,8 milljörðum króna. Þar af greiddu 16 stærstu gjaldendur samanlagt nærri 3,0 milljarða en alls voru greiðendur veiðigjalds 934. 

Gjaldendur voru flestir yfir sumartímann vegna strandveiðanna, eða á milli sjö og átta hundruð talsins. Fámennastur var gjaldendahópurinn í janúar 2020 eða um 150. 

Álagt veiðigjald á togaraflotann nemur tæpum 2,3 milljörðum króna og álagning á aflamarksskip nemur 1,8 milljarði. Krókabátar og aðrir smábátar greiða um 700 milljónir króna.

Stærstur hluti veiðigjaldsins er lagður á þorsk og ýsu, eða samtals um 75% af heildarálagningunni. Veiðigjald vegna þorskafla nemur 2,8 milljörðum króna og ýsan með um 780 milljónir. 

Veiðigjald af makríl nam tæplega 260 milljónum, af síld 210 milljónum af síld og af kolmunna tæpum 15 milljónum.