föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verja ævikvöldinu sem sýningarþorskar

Svavar Hávarðsson
31. desember 2020 kl. 09:00

Þorskurinn er eftirsótt skepna - helst til matar en nú einnig til sýningarhalds. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Rannsóknastöð Hafrannsóknastofnunar á Stað í Grindavík hefur undanfarin ár sent frá sér lifandi fisk til sýningarhalds um allan heim.

Fyrir um áratug hóf Rannsóknastöð Hafrannsóknastofnunar á Stað í Grindavík að senda frá sér lifandi fisk. Áfangastaður þeirra eru sjóminja – og sædýrasöfn víða um heim en milligöngu hefur fyrirtæki sem sérhæfir sig í að útvega söfnunum eintök. Þrátt fyrir að þær tegundir sem lifa við Ísland séu kannski ekki mikið fyrir augað miðað við litskrúðuga fiska úr hlýrri sjó, þá eru þeir engu að síður eftirsóttir hjá safnafólki.

„Þetta byrjaði fyrir u.þ.b. 10 árum síðan. Þá vorum við beðnir að útvega eldisþorska í safn í Ílhavo í Portúgal og höfum síðan sent þeim fisk nokkrum sinnum, bæði villta þorska og eldisþorska. Þetta hefur síðan farið vaxandi á undanförnum fjórum árum,“ segir Agnar Steinarsson, sjávarlíffræðingur á fiskeldissviði hjá Rannsóknastöðinni á Stað. Hann segir jafnframt að ástæða þess að fiskur fer frá þeim lifandi til fyrirsætustarfa sé að fyrirtækið Flying Sharks í Portúgal, sem er að sérhæfa sig í því að útvega fisk í sædýrasöfn, hafi leitað talsvert til þeirra.

„Við erum með margar tegundir í eldi og staðsettir nálægt flugvelli svo það er vinsælt að panta frá okkur.“

  • Agnar Steinarsson, sjávarlíffræðingur á fiskeldissviði hjá Rannsóknastöðinni á Stað. Aðsend mynd

Steinbítur í Frakklandsferð

Þegar gluggað er í gögn má finna því stað að árið 2019 var fluttur frá landinu 21 steinbítur sem voru um eitt kíló að þyngd. Þeir fóru til þriggja sædýrasafna í Frakklandi. Eins fóru tíu þorskar sem voru um tvö kíló að þyngd til sædýrasafns í Kanada og aðrir 24 þorskar nokkru minni til sædýrasafns í Portúgal.

Ekki er haldin nákvæm skrá yfir þá fiska sem hafa farið héðan til þessa, en oft fara fáir fiskar í hverri sendingu. Þó er ljóst að þeir skipta einhverjum hundruðum því strax árin 2013 og 2014 voru sendir 66 og 70 lifandi þorskar til sædýrasafns í Portúgal þar sem upphafs þessara flutninga er að leita.

Spurður um hversu víða fiskur frá þeim fer segir Agnar að söfnin séu glettilega mörg sem þegar státa af íslenskum fiskum í tönkum sínum. Nefnir hann tíu sædýrasöfn á nafn sem hafa falast eftir þorski, steinbít, hrognkelsi og bleikju. Þessi söfn eru staðsett í Japan, á Spáni, Kanada, Frakklandi, Portúgal og í Bandaríkjunum, eða í Kaliforníu nánar tiltekið.

Í plasti á fyrsta farrými

Sendingar á fiski frá Stað í Grindavík snúast ekki um tekjuöflun. Að sjálfsögðu kemur greiðsla fyrir fiskinn sem frá Íslandi fer og getur numið nokkur hundruð þúsunda króna fyrir hverja sendingu. Ágætis aukageta í ríkiskassann, segir Agnar.

En eru þessir fiskar aldir sérstaklega eða eru þeir hluti af verkefnum sem tengjast rannsóknum og eldi, og ganga einfaldlega af?

„Við erum ekki að ala fisk sérstaklega í þetta, heldur notum í þetta fisk úr rannsóknaverkefnum sem er lokið,“ segir Agnar. „Við höfum þróað flutningstækni með plastpoka í fiskikössum. Notum 15-20 lítra af sjó eða vatni í hvern kassa; súrefni og fleira. Setjum síðan allt frá einum stórum fiski, sem gæti verið um tvö kíló, upp í marga smáa fiska í hvern kassa.“

Fiskarnir lifa ótrúlega lengi í svona flutningi, t.d. var 100% lifun í bleikjusendingu til Osaka á þessu ári, sem þó tók fjóra sólarhringa, að sögn Agnars.

  • Joao Correia við störf en samstarfið hófst þegar þorskur var fluttur til sædýrasafnsins í borginni Ílhavo í Portúgal. Mynd/Joao

 

Hákarlar á flugi

Stofnandi fyrirtækisins Flying Sharks er Joao Correia, sjávarlíffræðingur sem hefur sérhæft sig í flestu sem viðkemur hákörlum, meðal annars. Hann hefur komið víða við og má nefna að hann hefur gefið út bókaröðina „Sex, Sharks and Rock n´roll“, þar sem þessum flutningum sem hér eru til umfjöllunar er lýst. Flying Sharks var stofnað árið 2006 og starfa þar sex sérfræðingar.

Í spjalli við Fiskifréttir segir Joao að sambandið við rannsóknastöðina á Stað í Grindavík hafi komið til þegar sædýrasafn í Portúgal leitaði sér sýningarþorska.

„Safnið er helgað þorskfiskum, af því að borgin Ílhavo hafði eitt sinn yfir álitlegum flota fiskiskipa að ráða sem stunduðu veiðar á þorski. Í fyrstu voru þorskar sóttir til Noregs, en það reyndist erfiðleikum bundið að fá fleiri þegar fram í sótti. Þá stakk fyrrverandi nemandi minn upp á því að hafa samband við Agnar, þar sem hann hafði lengi unnið hjá rannsóknastöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík,“ segir Joao.

Hann segir mjög mikinn áhuga á því að fá fisk frá Íslandi, eins og dæmin sanni. Kemur jafnframt fram í máli hans að lifun fiskanna í sendingunum sé mun meiri en ætla mætti í fyrstu.

„Enginn fiskur hefur drepist hjá okkur í sendingu með einni undantekningu árið 2014,“ segir Joao.

Þetta má segja afburðagóða niðurstöðu í ljósi umfangs starfseminnar hjá Flying Sharks.

„Við útvegum um 250 sædýrasöfnum fiska, en þau er að finna um alla Evrópu, í Bandaríkjunum, Kanada, Brasilíu, Japan, í Kína og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.“