miðvikudagur, 28. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vertíðin einkennist af hörkuveiði

30. september 2020 kl. 08:37

Norðfjarðarhöfn í gærmorgun. Verið að landa úr Berki NK. Margrét EA að koma til hafnar með 1.100 tonn af síld. Mynd/Smári Geirsson

Landburður er af síld til Neskaupstaðar. Systurskipin Bergey og Vestmannaey landa auk þess fullfermi aftur og enn.

Síldarvertíðin hefur gengið afar vel til þessa og skipin stoppa stutt á miðunum, segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Landað var úr Beiti NK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um helgina og aðfaranótt mánudags kom Börkur NK með 1.050 tonn sem fengust í tveimur holum. Verið var að landa úr Berki í gær og mun vinnslu úr afla hans hafa lokið í gærkvöldi, ef allt hefur gengið að óskum.

Fyrir hádegið í gær kom svo Margrét EA til Neskaupstaðar með 1.100 tonn. 

Heimasíðan heyrði hljóðið í Guðmundi Þ. Jónssyni, skipstjóra á Margréti. 

„Þessi vertíð hefur einkennst af hörkuveiði. Það er ekki hægt að biðja um það betra. Við fengum þessi 1.100 tonn í tveimur holum í Seyðisfjarðardýpinu. Síldin sem nú veiðist er heldur smærri en sú síld sem veiddist fyrr á vertíðinni. Hún er að meðaltali 360-370 grömm, en hún hentar vel til vinnslunnar. Nú fer að síga á seinni hluta vertíðarinnar hjá okkur. Við eigum einungis eftir að veiða rúm 2.000 tonn af kvótanum okkar,“ segir Guðmundur.

Eyjarnar með fullfermi

En það eru ekki bara uppsjávarskipin sem bera mikil verðmæti að landi þessa dagana. Heimasíða Síldarvinnslunnar segir jafnframt frá því að Bergey VE landaði fullfermi eða um 75 tonnum á Seyðisfirði á mánudag. Systurskipið, Vestmannaey VE, landaði fullfermi í Neskaupstað í gær. 

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að aflinn hefði að mestu verið þorskur en örlítið af ýsu hefði slæðst með. 

„Við byrjuðum túrinn á Tangaflakinu. Þar tókum við tvö hol og færðum okkur síðan yfir á Glettinganesflak. Þar veiddum við síðan það sem eftir var túrsins. Þarna fékkst fínasti fiskur en undir lokin bar svolítið á smærri fiski. Nú erum við komnir út á ný og erum að veiða góðan þorsk og ýsu á Tangaflakinu. Það er heldur rólegt yfir veiðinni akkúrat núna,“ segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veiðiferðin hafi gengið ágætlega. „Við byrjuðum á Tangaflakinu, færðum okkur yfir á Glettinganesflak og síðan í Seyðisfjarðardýpið. Aflinn er nánast eingöngu þorskur. Það bar svolítið á smáfiski á miðunum og við reyndum að forðast hann og það gekk ágætlega. Nú erum við búnir að vera í góðri törn að fiska fyrir austan land, en ráðgert er að halda til heimahafnar í Eyjum næstkomandi mánudag“, segir Birgir Þór.