laugardagur, 16. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vertíðin gengið vonum framar

Guðsteinn Bjarnason
23. september 2021 kl. 13:00

Uppsjávarskipið Bjarni Ólafsson AK í bláum lit Síldarvinnslunnar. Mynd/Þorgeir Baldursson

Makrílvertíð ársins gott sem lokið.

Skipstjórinn á Bjarna Ólafssyni AK sigldi einu sinni með makríl til Noregs og einu sinni til Færeyja, en landaði aflanum annars í Neskaupstað.

Bjarni Ólafsson AK 70 kom með 260 tonn af makríl til hafnar í Neskaupstað síðasta laugardag. Að öllum líkindum er það síðasti makrílafli vertíðarinnar. Aðfaranótt þriðjudags kom Bjarni Ólafsson síðan með 600 tonn af síld.

„Þetta var frekar rólegt,“ sagði Runólfur Runólfsson skipstjóri um síðasta makríltúrinn þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn á þriðjudag. Veiðarnar á vertíðinni hafi hins vegar gengið vonum framar.

„Það er víða makríll í íslenskri lögsögu, fiskurinn er bara mun dreifðari en áður.“

Mest hafi makríllinn þó verið veiddur í Smugunni þetta árið.

„Hann er í veiðanlegustu formi þar. En við tókum þennan síðasta túr hér heima.“

Bjarni Ólafsson hefur síðan landað makrílnum nánast eingöngu í Neskaupstað, en einu sinni var þó siglt með hann til Noregs og einu sinni til Færeyja.

„Þegar barst of mikið að landi þá varð að dreifa þessu.“

Mest veiddist af makríl í ágústmánuði. Heildarafli íslensku makrílskipanna varð 63 þúsund tonn í ágúst og 47 þúsund tonn í júlí. Í ágúst var siglt með nærri 3.400 tonn til Færeyja og rúm 1.000 tonn til Noregs.

Samstarfið mikilvægt

Þetta sumarið höfðu skipin með sér samstarf rétt eins og á síðasta ári. Makrílnum var dælt um borð í eitt skip sem sigldi með hann til Íslands, og þannig var skipst á um að sigla með hann heim.

„Við erum fimm skip hjá Síldarvinnslunni og þetta hefur gengið með því fyrirkomulagi að gera þetta svona, þá nýtist veiðigetan meira. Við byrjuðum á þessu í fyrra til þess að halda frystihúsinu gangandi, og að fiskurinn sé sem ferskastur.“

Eftir makrílinn hélt Bjarni Ólafsson á síldveiðar og skrapp í stuttan túr út á Glettinganesgrunn á mánudag.

  • Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK. Mynd/Þorgeir Baldursson

„Við skruppum út á hádegi og komum aftur inn í nótt með 600 tonn,“ sagði Runólfur á þriðjudag. Eftir það var óvíst með framhaldið.

„Það hefur allt sinn gang.“

Ekki stendur þó til að ná í meiri makríl þetta árið, og Runólfur taldi að aðrir makrílbátar séu að mestu búnir að klára sitt líka. Á vertíðinni hafa skipin nú veitt nærri 132.000 tonn, sem er litlu meira en úthlutun ársins.

Vertíðaraflinn

Í ágústlok höfðu íslensku makrílskipin veitt nærri 116 þúsund tonn á þessari vertíð, og þar af hafði 33 þúsund tonnum verið landað í Neskaupstað, 20 þúsund tonnum í Vestmannaeyjum og 19 þúsund tonnum á Eskifirði.

Að auki hafa skipin veitt nærri 16.000 tonn það sem af er september, að því er fram kemur á nýopnuðu mælaborði Fiskistofu.

Makrílúthlutun nýliðins fiskveiðiárs nam 127.000 tonnum, en við bættust 11.453 tonn í sérstökum úthlutunum og 22.324 tonn voru flutt á milli ára þannig að heildarveiðiheimildir ársins urðu nærri 161 þúsund tonn.

Næst liggur fyrir uppsjávarskipunum að halda á síldveiðar. Alls hafa skipin heimildir til að veiða 114.000 tonn úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu, og þar af er þegar búið að veiða 22.000 tonn.

Í lok september mun Hafrannsóknastofnun birta ráðgjöf um aflamark næsta árs í makríl, norsk-íslenskri síld og kolmunna. Ráðgjöfin verður að hluta byggð á niðurstöðum sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslands, Færeyja, Noregs og Danmerkur.

Í lok ágúst var greint frá því að í sumar hafi vísitala lífmassa makríls mælst 5,15 milljónir tonna, en það er minnsti lífmassi makríls sem mælst hefur síðan 2012. Magn norsk-íslensku síldarinnar var hins vegar svipað og á síðasta ári, eða um 5,9 milljónir tonna, og lífmassi kolmunna mældist 2,2 milljónir tonna sem er 22% hækkun frá síðasta ári.