miðvikudagur, 21. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Við erum millivegurinn

Guðjón Guðmundsson
6. apríl 2021 kl. 09:00

Páll Mar Magnússon sem nú stýrir þjónustu- og tæknifyrirtækinu Martak í Grindavík. Aðsend mynd

Páll Mar Magnússon stýrir þjónustu- og tæknifyrirtækinu Martak í Grindavík. Martak miðlar lausnum fyrir lítil og stór sjávarútvegsfyrirtæki á öllum sviðum sem miða að því að auka framleiðni og framleiðslugæði.

„Þegar ég var gutti á Grundarfirði gengum við í öll störf í sjávarútvegi. Við gelluðum, unnum í saltfiski, flökuðum og vorum í löndunargenginu. Við fengum innsýn í ólík störf innan vinnslunnar og til sjós líka. Stundum fiskaðist mikið af einni tegund og svo minna af annarri og vinnubrögðin tóku auðvitað mið af því,“ segir Páll Mar Magnússon sem nú stýrir þjónustu- og tæknifyrirtækinu Martak í Grindavík.

Páll Mar segir uppbyggingu fyrirtækisins svipa dálítið til reynslu sinnar kynslóðar innan sjávarútvegs. Það byggi á langri reynslu í hönnun og smíði fiskvinnslubúnaðar. Martak miðlar lausnum fyrir lítil og stór sjávarútvegsfyrirtæki á öllum sviðum sem miða að því að auka framleiðni og framleiðslugæði.

„Grundarfjörður var besti vinnuskóli sem hægt er að hugsa sér. Samfélagið var þannig að það kenndi krökkum að vinna. Vinnslurnar voru jafnvel að þjálfa börnin upp í að koma síðar og vinna hjá þeim. Fyrir vikið fengum við ótrúleg tækifæri og innsýn í greinina. Ég menntaði mig síðar á sviði raf- og vélvirkjunar og hef unnið í tækjum og græjum og er núna kominn til Martak. En ég bý alltaf að þessari reynslu frá Grundarfirði. Ólíkt mörgum jafnöldrum átti ég alltaf pening því við vorum alltaf að flokka hrogn, salta fisk, gella og við fengum að fara á togara og togbáta. Þetta var auðvitað ævintýri. Svo kom páskafrí og þá keypti Mói í Sæfangi fisk fyrir okkur krakkana til að slægja og skapa okkur tekjur. Þannig gekk lífið fyrir sig þá og samfélagið leyfði okkur að vinna. Svo breyttist þetta. Ég man þegar ég var ofan í lest að landa fjórtán ára gamall og hafnarvörðurinn kom og spurði hvort ég væri ekki of ungur til að vera þarna, svona út frá Evrópureglum. Löndunargengið svaraði því með því að grýta í hann karfanum upp úr lúgunni,“ segir Páll Mar og hlær að minningunni.

Í þessum bransa í 35 ár

Hann segir að reynsla þessarar kynslóðar og þekking komi sér vel seinna meir. Nú liggi leiðin oft í erindagjörðum fyrir Martak innanlands og víða um heim. Heimsótt eru lítil og stór sjávarútvegsfyrirtæki.  Erlendis kemur oft fyrir að vinnslur eru með fullt af fiski sem þau jafnvel vita ekki hvernig eigi að vinna. Þá kemur upp þjóðarstoltið „Íslenskt hugvit“ og við fáum að taka þátt í að leysa vandann og þá oft með hjálp annarra fyrirtækja á Íslandi. Aðstæður eru oft þannig að  minni vinnslur hafi ekki tök á því að fjárfesta í dýrum og flóknum fiskvinnslulínum.

  • Martak miðlar lausnum fyrir lítil og stór sjávarútvegsfyrirtæki á öllum sviðum. Aðsend mynd

„Það vantar oft milliveginn og við hjá Martak erum millivegurinn. Við erum búnir að vera í þessum bransa í 35 ár og það sem hefur verið hannað hjá fyrirtækinu eftir allan þennan tíma er allt saman til. Í gegnum árin hafa allar okkar lausnir verið sniðnar að þörfum hvers og eins kúnna. Þessi sveigjanleiki hefur skapað okkur sérstöðu en eftir öll þessi ár erum við enn þá með á stefnuskránni að framleiða staðlaðar lausnir. Það sem við vorum að gera fyrir tuttugu árum, jafnvel þrjátíu árum getur hentað fullkomlega í fiskvinnslu annars staðar í heiminum og stuðlað að aukinni verðmætasköpun.

Þetta er það skemmtilega við starfið, að finna lausnir sem henta ólíkum viðskiptavinum. Það eru ekki sömu starfsaðstæður eða skilyrði fyrir sjávarútveg alls staðar í heiminum. Fiskistofnarnir færa sig til og veiði hrynur en kemur svo upp í öðrum tegundum,“ segir Páll Mar og nefnir sem dæmi hrun í þorskveiðum Kanadamanna og í rækjuveiðum við Ísland.

Aukin spurn eftir matvælum

„Við gleymum því oft hversu langt við erum komin í fiskvinnslu og veiðum miðað við aðrar þjóðir.  Það er ekki langt síðan að togarinn kom að landi í þorpinu og öllu var landað í frystihúsið og það svo allt unnið undir sama þaki.  Nú er flotanum stjórnað af vinnslunni sem er sérhæfð í vinnslu á ákveðnum tegundum eða jafnvel stærðum. Fiskmarkaðir eru svo notaðir sem „buffer“ -  bæði til að losna við eða fylla upp í vinnsludaga.  Okkur íslendingum hefur tekist að iðnvæða fiskvinnslu og erum með þekkingarfyrirtæki í búnaði sem eru leiðandi á heimsmælikvarða. Valka og Skaginn 3X hafa fetað í fótspor Marels og komið með einstæðar lausnir sem marka leiðina á heimsvísu. Ekki er síður merkilegt er að við erum að vinna úr villtum stofnum og í mjög krefjandi tíðarfari. Það má segja margt um kvótakerfið en þetta klárlega ein af jákvæðum afleiðingum þess.

Við erum nú þegar í miðri fjórðu iðnbyltingunni sem er og mun breyta nánast öllu í okkar daglega lífi. Þessar breytingar eiga sér nú stað hraðar en nokkurn tíma áður í sögunni. Við í Martak erum alltaf undir pressu að gera betur, bæði frá okkur sjálfum og kúnnum okkar. Það eru alltaf ný markmið sem byggjast á síbreytilegum raunveruleika.

Næstu áratugina verður aukin pressa á fæðuöflun í heiminum og villtur fiskur mun sífellt verða verðmætari.  Talið er að það heimurinn þurfi 50% meiri fæðu fram að árinu 2050. Við þurfum því alltaf að gera meiri og betri afurð úr því hráefni sem í boði er.“

Bætt við tveimur hönnuðum

„Ég var í paradís í fjögur ár í Maine í Bandaríkjunum á flottasta humarveiðisvæði heims frá 2000-2004. Þar höfðu þeir hreinsað upp þorskstofninn en fyrir vikið jókst útbreiðsla humars gífurlega. Humarveiðarnar eru mjög sjálfbærar gildruveiðar og beitt er fyrir humarinn. Lítill humar sleppur úr gildrunum en svo þarf ekki annað en að sjórinn hlýni og humarinn færir sig norðar. Núna þurfa menn að huga að öðrum veiðum og hugsanlega skipta yfir í net svo dæmi sé tekið. Og við erum á svona stöðum og eltum þessa þróun með okkar tæknilausnum,“ segir Páll Mar.

Hann segir að í portum fiskvinnsluhúsa hringinn í kringum landið megi sjá atvinnusögulegar minjar í fiskvinnslubúnaði sem hefur verið skipt út fyrir nýrri. Martak á þessar teikningar allar ofan í skúffum og þetta er fullgildur búnaður fyrir vinnslur af öllum stærðum og gerðum víða um heim. Það er ekki þar með sagt að nýsköpun sitji á hakanum í Grindavík því frá því Páll Mar kom inn sem framkvæmdastjóri síðastliðið haust hefur hönnuðum verið fjölgað úr einum í þrjá. Yfirbygging fyrirtækisins er þó með minnsta móti og sjálfur var Páll Mar nýkominn úr vinnuferð í rækjuverksmiðjuna Kampa á Ísafirði þar sem hann skipti um keflin í  vélunum. Ferðina notaði hann til að heimsækja fyrirtæki í lifrarvinnslu sem stendur frammi fyrir stórauknu framboði af hráefni. Hver veit nema lausnir Martaks á því sviði henti þar. Heimkominn sest hann svo við skrifborðið í höfuðstöðvunum í Grindavík og vinnur að tilboðum fyrir fiskvinnslur út um allan heim.

Nýlega komst til dæmis að mynda á samningur við fyrirtæki í Kanada hönnun og smíði á fullkominni saltfiskversmiðju. Martak þjónustar einnig rækju- og fiskvinnslur í Kanada. Fjölmörg önnur verkefni eru í pípunum.

„Ég er núna að undirbúa að fara hringinn í kringum landið til að bjóða fyrirtækjum lausnir Martaks til að auka nýtni og framlegð í sínum rekstri. Þetta eru fyrirtæki af öllum stærðum. Stórt fiskvinnslufyrirtæki getur verið að glíma við minniháttar vandamál sem við getum leyst og aukið framlegðina. Svo getum við komið inn í smærri fyrirtæki með lausnir sem snerta grunnrekstur þeirra. Stærri tæknifyrirtækin eru kannski ekki á þessum markaði en eru frekar í því að bjóða heildarlausnir sem henta ekki öllum. Við erum að nördast í þessu alla daga og segjum við stjórnendur fyrirtækja –   „Lausnir byggðar á þekkingu og samtali skapa hámarks framlegð,“ segir Páll Mar.