þriðjudagur, 26. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Víðtækar rannsóknir á hvölum

24. nóvember 2020 kl. 15:36

Hnúfubakur hefur verið rannsakaður sérstaklega af Hafrannsóknastofnun. Mynd/Charla

Á tímabilinu 2006–2020 hafa birst a.m.k. 94 ritrýndar greinar um hvali í alþjóðlegum vísindaritum eftir sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun hefur stundað víðtækar rannsóknir á hvölum undanfarna áratugi. Undanfarin 15 ár (2006–2020) hafa rúmlega 1.400 milljónir króna runnið til þessara rannsókna, eða að jafnaði um 100 milljónir ár hvert.

Þetta kemur fram í svari Hafrannsóknastofnunar við fyrirspurn þingkonunnar Ingu Sæland sem beint var til sjávarútvegsráðherra.

Rannsóknirnar skiptast í fjölmörg misstór verkefni, en langtímamarkmið flestra þeirra er að tryggja verndun og eftir atvikum sjálfbæra nýtingu þeirra fjölmörgu hvalastofna sem halda til hér við land, segir í svarinu. Einnig eru rannsóknir á hvölum taldar mikilvægar til að fylgjast með hugsanlegum áhrifum loftslagshlýnunar á lífríki hafsins.

Fjölbreyttar rannsóknir

Rannsóknirnar eru fjölbreyttar. Alþjóðleg hvalatalning er þar fyrst á ítarlegum lista stofnunarinnar en síðan 1987 hefur stofnunin tekið þátt í fjölþjóðlegum hvalatalningum í samvinnu við helstu rannsóknastofnanir nágrannaþjóða við Norður-Atlantshaf. Rannsóknir á líf- og vist- og erfðafræði nytjastofna hvala eru umfangsmiklar. Eins rannsóknir á einstökum stofnum hvala eins og hrefnu, hnúfubaks og háhyrnings. Meðafli sjávarspendýra eru hluti af þessum rannsóknum sem og ljósmyndagreining og rannsóknir á hvalreka. Umtalsverðum hluta af vinnu sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar er varið í úttektir á ástandi hvalastofna en þær eru megingrundvöllur ráðgjafar um verndun og nýtingu stofnanna.

Afrakstur þessara rannsókna er athygliverður en á tímabilinu 2006–2020 hafa birst a.m.k. 94 ritrýndar greinar um hvali í alþjóðlegum vísindaritum eftir sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar.

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 5. nóvember sl.