mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vill geyma þorsk í kvíum á meðan mest veiðist

Guðjón Guðmundsson
15. febrúar 2021 kl. 07:00

Norðmenn veiða um 80% alls þorsks á vetrarvertíð. Mynd/HG

Norðmenn uggandi yfir markaðsaðstæðum með þorsk

Norðmenn búa við það fyrirkomulag að veiða um 80% af öllum sínum þorski á tímabilinu frá janúar og út apríl. Þetta setur mikið álag á markaði og landvinnsluna sem býr nú við mannaaflaskort vegna hertra sóttvarnaaðgerða í Noregi.

Útgerðarmaðurinn Håkon Gullvik frá Sortland í Norðvestur-Noregi vill að þorski verði í auknum mæli landað lifandi í kvíar til að draga úr þessu tímabundna álagi og honum verði slátrað á sumarmánuðum þegar framboð minnkar.

Hríðlækkandi þorskverð

Veiðar eru að aukast stórlega nú þegar þorskur er farinn að ganga úr Barentshafi til hrygningar meðfram norðvesturströnd Noregs. Í byrjun þessa árs fengust 21 NOK fyrir kílóið af þorski, 316 ÍSK, en í síðustu viku var það komið niður í 18 NOK, 270 ÍSK. Norðmenn glíma auk þess við breyttan kaupendamarkað í kjölfar heimsfaraldursins eins og aðrar fiskveiðiþjóðir og mikið af þorski hefur farið til landvinnslna í Kína en þar eru verulegar hömlur á innflutningi vegna Covid-19.

„Því meira sem sett verður af þorski í kvíar því minni þrýstingur verður á markaðinn og á landvinnsluna sem skortir starfsmenn um þessar mundir,“ er haft eftir Gullvik í Fiskeribladet. Hann hefur farið þess á leit við Odd Emil Ingebrigtsen sjávarútvegsráðherra að taka strax til endurskoðunar fyrirkomulag á kvótauppbótum vegna veiða á villtum þorski sem haldið er lifandi í kvíum.

Hærri kvótauppbót yrði hvati

Gullvik segir mikið óöryggi framundan. Búast megi við að stöðugt fleiri bátar hefji þorskveiðar og athyglisvert verði að fylgjast með því hvernig markaðirnir bregðist við því gríðarlega magni af þorski sem eigi eftir að berast á land. Gullvik gerir út bátinn Olagutt og hefur um langt árabil geymt lifandi þork í sjókví til slátrunar þegar markaðsaðstæður eru hvað hagkvæmastar.

Í umfjöllun Fiskeribladet segir að heimilt sé að halda villtum þorski á lífi í kvíum í allt að 12 vikur þar til honum er slátrað. Með sérstökum ráðstöfunum og tækni má lengja þennan tíma í 20 vikur. Allt umfram það kallar á fiskeldisleyfi frá hinu opinbera. Frá árinu 2008 hefur fiskiskipum sem hafa veitt þorsk og haldið honum lifandi í kvíum fengið kvótauppbót. Tilgangurinn með henni hafi einmitt verið að hvetja útvegsmenn til að halda þorski lifandi í kvíum til þess að auka framboð á ferskum fiski utan vetrarvertíðar. Í upphafi var uppbótin samtals 4.000 tonn en lækkaði í 3.000 tonn árið 2019. Frá og með 1. mars lækkar kvótauppbótin enn frekar og fer niður í 2.500 tonn. Gullvik hefur lagt til að kvótauppbótin haldist í 3.500 tonnum sem deilist milli þeirra útgerða sem landa lifandi þorski í kvíar.