miðvikudagur, 26. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vindorkuver sífellt plássfrekari

Guðsteinn Bjarnason
11. janúar 2022 kl. 08:00

Vindmyllur verða fyrirferðarmeiri á hafi úti. MYND/EPA

DNV um nýtingu í heimshöfunum.

Olíu- og gasiðnaðurinn er fyrirferðarmikill í heimshöfunum, nær nú yfir um 7.000 ferkílómetra svæði og útgefin leyfi til slíkrar starfsemi ná yfir 50 sinnum stærra svæði en það. DNV reiknar þó með að úr þessari fyrirferð muni draga töluvert á næstu áratugum. Árið 2050 verði heildarsvæðið aftur orðið álíka stórt og það var árið 1990.

Engin iðnstarfsemi nær nú yfir jafn stórt hafsvæði og olíu- og gasiðnaðurinn, en á næstu áratugum spáir DNV því að vindorkuver taki forystuna í þessu. Og það svo um munar því árið 2050 telja höfundar spárinnar að vindorkuver á hafi úti nái samtals yfir um 300.000 ferkílómetra svæði, en það er álíka stórt svæði og flatarmál Ítalíu eða þrefalt flatarmál Íslands.

Standist þessi spá þyrftu vindorkuver sex sinnum stærra svæði en sjávareldisstöðvar, en um 85% af þessu svæði yrði tekið undir staðbundin vindorkuver og afgangurinn færi undir fljótandi vindorkuver sem færast milli staða.

Hvað eldisstöðvar á hafi varðar telur DNV að árið 2050 nái þær yfir 40% stærra svæði en nú, eða alls um 56.000 ferkílómetra.

Allt þetta kemur fram í umfangsmikilli skýrslu sem DNV sendi frá sér undir lok síðasta árs þar sem spáð er í þróun haftengdrar starfsemi til ársins 2050. DNV er alþjóðlegt fyrirtæki, með höfuðstöðvar í Noregi, sem sér um flokkun, ráðgjöf, vottanir, skoðanir og rannsóknir af ýmsu tagi.

Í skýrslunni er meðal annars vakin athygli á því að aukin umsvif vindorkuvera á hafi úti geti óbeint leitt til þess að draga úr þeim skaða sem loftslagbreytingar geta valdið á hafinu, enda muni þau almennt draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.