sunnudagur, 24. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinna verðmæti úr aukaafurðum

Guðjón Guðmundsson
9. október 2021 kl. 09:00

Feðgar og eigendur Svalþúfu. F.v.: Magnús Gylfason framkvæmdastjóri, Gylfi Magnússon stjórnarformaður og Arnar Gylfason verkstjóri. Aðsend mynd

Svalþúfa í Hafnarfirði í 25 ár.

Fiskvinnslan Svalþúfa í Hafnarfirði er fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í fullnýtingu aukaafurða í fiski. Fyrirtækið framleiðir úr 8-9 þúsund tonnum af hráefni á ári. Þetta eru saltaðar afurðir til Spánar, Portúgals og Frakklands, og þurrkaðir fiskafurðir til Nígeríu  og einnig fer lítið eitt af afurðunum á innanlandsmarkað. Meðal saltaðra afurða eru gellur, kinnar, fés, klumbur og þunnildi sem fara á vel borgandi markaði í Suður-Evrópu og innanlands. Að jafnaði fara svo frá Svalþúfu þrír  gámar á mánuði með skreið til Nígeríu.

Framkvæmdastjóri Svalþúfu er Magnús Gylfason sem er líka þekktur sem einn atkvæðamesti knattspyrnuþjálfari landsins í efstu deild um margra ára skeið. Bræðurnir Magnús og Arnar stofnuðu Svalþúfu með föður sínum, Gylfa Magnússyni stjórnarformanni, árið 1995. Auk þeirra starfa á milli 35-40 manns að jafnaði hjá fyrirtækinu, þar á meðal systir þeirra bræðra, Arnbjörg sem heldur utan um bókhaldið. Fjölskyldan er frá Ólafsvík og áratuga reynsla Gylfa af störfum fyrir Bakka hf. kom að góðum notum en Bakki var lengi vel ein stærsta saltfiskverkun landsins,  stofnuð árið 1965.

Allt sem kemur í hús er nýtt

„Við erum aukaafurðafyrirtæki eingöngu. Við kaupum ekki fisk á markaði, einungis ferskt hráefni af öðrum vinnslum, hráefni sem við flokkum og vinnum áfram. Við seilum hausana og hengjum upp í hjalla, fésum þá, gellum, kinnum og vinnum í salt. Markaðir okkar fyrir söltuðu afurðirnar eru Frakkland, Spánn og Portúgal og Nígería fyrir þurrkaða fiskinn,” segir Magnús um kjarnastarfsemi Svalþúfu. Auk þess rekur fyrirtækið slægingarþjónustu fyrir aðra fiskverkendur.

  • Hausarnir seilaðir fyrir trönurnar við Krísuvíkurveg.

Aukaafurðir sem aðrar fiskvinnslur nýta ekki, t.d. þær sem sérhæfa sig í flökun eða hnakkastykkjaframleiðslu, fara til Svalþúfu. Þetta eru þó ekki einungis fiskvinnslur sem Svalþúfa fær hráefnið frá heldur líka smásöluaðilar. Svo tekið sé dæmi, sem þó er kannski ekki alveg dæmigert, þá kemur fyrir að Svalþúfa fái hráefni frá fiskvinnslu sem sérhæfir sig í hnakkastykkjaframleiðslu, þá kemur stór hluti fisksins til Svalþúfu.

Úti- og inniþurrkun

Beinin og hausarnir skipta máli í þeirri fullnýtingu sem fer fram hjá fyrirtækinu. Stóru hausarnir fara í sérstaka fésavél sem fletur þá út og úr verður söltuð afurð sem er eftirsótt á Spáni og Portúgal. Magnús segir að matreiðslan á þessari afurð þar syðra minni dálítið á skötuveislurnar íslensku. Fésin og klumban eru oft soðin í stórum potti og borin fram á stórum fötum og sett fram eins og skötuveisla. Úr minni hausunum er unnar gellur og kinnar sem fara í pækil og eru seldar á erlenda markaði en þær eru líka seldar ferskar innanlands. Hausarnir eru svo seilaðir og hengdir upp á trönur fyrirtækisins við Krísuvíkurveg. Þar hanga þeir í 5-8 vikur eftir veðri og vindum og loks teknir í hús aftur þar sem þeir eru þurrkaðir í svokallaðri eftirþurrkun. Það sem ekki nýtist til manneldis af hráefninu sem Svalþúfa kaupir, eins og t.d. roð og feitur fiskur endar hjá Skinnfiski í Sandgerði þar sem framleitt er úr því gæludýrafóður.

  • Milli 35-40 manns vinna að jafnaði hjá fjölskyldufyrirtækinu Svalþúfu.

Svalþúfa hélt upp á 25 ára afmæli sitt í fyrra. Framan af var áherslan meiri á þurrkaðar afurðir en í áranna rás hefur þetta snúist við og er meirihluti teknanna af söltuðum afurðum. Núna er nálægt 70% framleiðslunnar saltaðar afurðir og 30% þurrkaðar afurðir.

„Öll þessi ár hefur Nígería reynst okkur mjög góður markaður. Afurðirnar eru fyrirframgreiddar og engir hnökrar verið á greiðslum en þessi markaður tekur reglulega dýfur. Þær stjórnast mikið af heimsmarkaðsverði á olíu, gengi nígerísku nærunnar og stjórnmálaástandi. 2016 urðu til dæmis miklir erfiðleikar í þessum viðskiptum vegna hruns á olíuverði og skorts á dollurum í Nígeríu sem notaðir eru í viðskiptunum. En undanfarin ár hefur allt önnur og betri staða verið uppi,” segir Magnús að lokum.