föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vísitala þorsks lækkar þriðja árið í röð

22. desember 2020 kl. 19:46

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Væntingar um góða nýliðun á næstu árum. Fyrsta mæling á yngsta árgangi þorsksins er sú hæsta frá upphafi mælinga 1996.

Stofnvísitala þorsks samkvæmt haustmælingu hefur lækkað töluvert frá árinu 2017 þegar hún mældist sú hæsta frá upphafi haustmælingarinnar. Er hún nú svipuð því sem hún var árin 2008-2009.

Lækkunina í ár má rekja til þess að fjöldavísitala 40-80 sentímetra fisks var undir meðaltali rannsóknartímabilsins.

Árgangur þorsks frá 2019 mældist hins vegar vel yfir meðalstærð og fyrsta mæling á yngsta árgangi þorsksins er sú hæsta frá upphafi mælinga 1996.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Stofnvísitala ýsu hefur haldist svipuð frá árinu 2017. Árgangur ýsu frá 2019 mældist yfir meðalstærð og fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2020 gefa til kynna að hann sé einn af þeim stærstu síðan mælingar hófust 1996.

Vísitala annarra nytjastofna sýndu svipaða þróun og í fyrra þ.e. vísitala ufsa hefur farið lækkandi frá árinu 2018 og vísitölur gullkarfa og löngu lækkuðu enn frekar miðað við nokkur fyrri ár. Vísitölur djúpkarfa, grálúðu, blálöngu og gulllax breyttust lítið eða lækkuðu miðað við nokkur fyrri ár og eru undir meðaltali tímabilsins. Stofnar hlýra, tindaskötu, sandkola, þykkvalúru og skrápflúru eru í sögulegu lágmarki.

Nýliðun gullkarfa, djúpkarfa og blálöngu hefur verið mjög léleg undanfarin ár. Vísitala nýliðunar hjá grálúðu, sem hefur lækkað hratt frá hámarkinu árin 2009-2013, sýndi merki um jákvæða þróun í ár.

Magn flestra brjóskfiska jókst eða hélst í stað frá fyrra ári. Stofn geirnytar hefur ekki mælst jafn stór frá upphafi mælinga 1996. Vísitölur margra djúpfiskategunda sem er að mestu að finna í hlýja sjónum suðvestur og vestur af landinu stóðu í stað eða hækkuðu miðað við nokkur fyrri ár. Undantekning á þessu eru stofnar slétthala og ingólfshala sem hafa ekki mælst jafn litlir síðan 1996. Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár.

Leiðangurinn fór fram dagana 9. október til 2. nóvember 2020 sl. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1996.