þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vonandi klár til veiða í haust

Guðsteinn Bjarnason
29. apríl 2022 kl. 15:00

Ottó N. Þorláksson á toginu í bræluskít. MYND/Bergþór Gunnlaugsson

Athugað með viðgerð á Ottó N. Þorlákssyni

Áhöfnin á Ottó N. Þorlákssyni hefur verið í afleysingum frá því aðalvélin bilaði en fer svo á makríl á Álseynni í sumar. Dala-Rafn fór að róa strax á annan í páskum eftir vel heppnaða viðgerð.

Togarar Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, Ottó N. Þorláksson og Dala-Rafn, voru báðir nýbyrjaðir á bolfiskveiðum eftir langt hlé vegna loðnuveiða þegar bilana varð vart snemma í apríl.

Dala-Rafn komst fljótlega aftur á veiðar en alvarleg vélarbilun varð í Ottó N. og er nú verið að kanna fýsileika þess að gera við skipið. Vonir standa til þess að hann geti komist aftur til veiða næsta haust.

„Það er ekki alveg tímabært að afskrifa hann,“ segir Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins. „Við erum að skoða leiðir til þess að gera hann upp og taka saman áætlun um það. Það er ekkert 100% öruggt en við vitum að það er hægt að fá varahluti í hann, og að það er mögulegt fyrir upphæðir sem eru innan einhverra marka.“

Á meðan beðið er eftir skipinu hefur þurft að finna áhöfninni önnur verkefni.

„Þeir eru í afleysingum hér og hvar og fara svo á Álseyna í sumar, á makrílinn, þannig í rauninni leysist þetta alveg gagnvart áhöfninni. Svo þegar makríllinn er búinn þá væri Ottó væntanlega klár þegar uppsjávarveiðarnar eru búnar í haust. Við erum að vonast til þess að geta verið með hann klárann þá.“

Bæði skipin, Ottó og Dala-Rafn, voru nýbyrjuð að róa í byrjun apríl eftir að hafa legið í höfn frá því rétt fyrir jól þegar þau biluðu nánast á sama tíma. Dala-Rafn komst svo aftur til veiða strax á annan í páskum.

„Hann hefur verið hérna inn og út nánast frá því hann byrjaði aftur, á tveggja daga fresti. Þannig að það hefur gengið mjög vel,“ segir Eyþór.

Ottó N. Þorláksson er elsta skip Ísfélagsins, smíðaður hjá Stálskipum í Garðabæ fyrir um 40 árum, 50 metra langur og 880 tonn. Dala-Rafn er smíðaður í Póllandi árið 2007, 29 metra langur og 485 brúttótonn.

Bæði skipin hafa verið á bolfiskveiðum, en Ísfélagið gerir einnig út fjögur uppsjávarskip, þar á meðal Álsey VE 2 sem félagið keypti frá Noregi árið 2021.