mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vonir um markvissari deilistofnaviðræður

Guðsteinn Bjarnason
9. janúar 2021 kl. 13:00

Brexitsinnar gerðu sér miklar vonir um tímamót í breskri útgerð. MYND/EPA

Brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu

Hefðbundinn útflutningur sjávarafurða mun áfram eiga greiða leið inn á breska markaðinn. Flækjurnar verða meiri þegar íslenskur fiskur er unninn í Bretlandi til markaða í ESB, eða öfugt.

Brexit-samkomulagið milli Bretlands og Evrópusambandsins, sem náðist á aðfangadag eftir langar og strangar samningaviðræður, mun hafa margvísleg áhrif á hagsmuni í íslenskum sjávarútvegi.

Að sögn utanríkisráðuneytisins mun hefðbundinn útflutningur til Bretlands áfram eiga greiða leið inn á breska markaðinn, svo sem rækja, þorskur, ufsi og ýsa og aðrar helstu útflutningsafurðir.

„Um áramótin tók gildi bráðabirgðafríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands sem tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við Bretland, þ.m.t. sjávarafurðir,“ segir í skriflegu svari ráðuneytisins til Fiskifrétta.

„Í því fellst að þau kjör sem Ísland hefur notið inn á Bretlandsmarkað í gegnum EES-samninginn og tengda samninga haldast áfram.“

Noregur á jafnframt aðild að þessum samningi, en fríverslunarviðræður Íslands og hinna EFTA-ríkjanna við Bretland standa nú yfir.

„Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn hafa viðræður gengið vel og eru langt komnar,“ segir ráðuneytið.

Deilistofnaviðræður markvissari?

Spurningu um áhrifin á samingaviðræður strandríkjanna um deilistofna í Norðaustur-Atlantshafi segir ráðuneytið að það einfaldi ekki stöðuna að með útgöngu Breta úr ESB fjölgi strandríkjunum um eitt. Óvissan um framtíðarsamkomulag Bretlands og ESB um sjávarútvegsmál hafi jafnframt haft neikvæð áhrif undanfarin ár.

Hins vegar muni línurnar skýrast með samkomulagi Bretlands og ESB „og vonir standa til að viðræður strandríkjanna verði markvissari í kjölfarið.“

Flækir stöðuna

Hvað útflutning varðar flækir það síðan stöðuna töluvert að Bretland fellur ekki lengur undir reglur EES um matvælaheilbrigði. Bretar hafa þó upplýst að þeir muni innleiða í þrepum sitt eigið eftirlitskerfi með reglum sem verða sambærilegar því sem EES-ríkin beita gagnvart ríkjum utan EES.

„Í tilviki sjávarafurða þýðir þetta að tilkynna mun þurfa um sendingar áður en þær koma til Bretlands, þeim þarf að fylgja heilbrigðisvottorð og sendingar þurfa að koma inn til Bretlands í gegnum sérstakar landamærastöðvar.“

Ráðuneytið segir stjórnvöld fylgjast grannt með þessum þætti og þau muni greiða fyrir útflutningi eins og frekast er unnt.

Flutningsleiðum breytt

Hvað umflutning um Bretland varðar, en umflutningur nefnist það þegar vörur eru fluttar til eins lands og þaðan áfram til annarra landa, þá lýtur hann öðrum og breyttum reglum.

Nú í byrjun árs geta orðið tafir á vöruflutningi þegar vara fer í gegnum Bretland án tollagreiðslu, því taka þarf við henni á landamærastöð með skjalaeftirliti í ESB-ríki þar sem innleiða þarf nýja verkferla.

Flækjustigið verður meira þegar vara frá Íslandi er unnin í Bretlandi og send áfram þaðan til ESB-ríkis, eða ef sendingu er skipt upp í Bretlandi og fer að hluta áfram til ESB-ríkis.

Ráðuneytið segir að þarna þurfi að gæta sérstakrar varúðar, en að sama skapi geti þetta „skapað tækifæri til þess að endurskoða vinnslu og flutningsleiðir. Í því sambandi hafa einhver íslensku fraktfyrirtækin þegar aðlagað flutningsleiðir sínar að breyttum veruleika.“

Sambærileg vandamál geti síðan komið upp þegar vinna á íslenskar sjávarafurðir innan ESB og flytja út þaðan til Bretlands. „Þar þarf einnig að passa upp á upprunareglur og að vörur njóti fríðindameðferð við innflutning til Bretlands,“ segir ráðuneytið. „Þetta kann að hafa áhrif á hvar hagkvæmast er að vinna vörur fyrir hvaða markað. Þannig getur þurft að færa vinnslu fyrir breska markaðinn til Íslands eða Bretlands og sama á við um vinnslu fyrir ESB-markaðinn.“

Evrópusambandið gaf lítið eftir

Brexit-samningurinn felur í sér, hvað sjávarútveg snertir, að ríki Evrópusambandsins fá að halda eftir 85 prósentum af þeim veiðiheimildum sem þau hafa haft innan breskrar lögsögu, og fá þar að auki fimm og hálfs árs aðlögunartíma þar sem hlutdeildin minnkar smám saman niður í 85 prósent.

Eftir þann tíma þurfa Bretar og Evrópusambandið að semja árlega um skiptinguna. Bretar geta því, ef þeim sýnist svo, lokað landhelginni þegar aðlögunartíminn er útrunninn, en mega þá reikna með háum refsitollum á útflutning sjávarafurða frá Bretlandi.

Franskir sjómenn anda því léttar en breskir sjómenn eru fullir vonbrigða. Þeir frönsku fá að veiða áfram innan breskrar lögsögu megnið af því sem þeir hafa áður mátt veiða.

Furða sig á útkomunni

Samtök breskra útvegsmanna, NFFO, furða sig á útkomunni: „Hvernig stendur á því að þegar Bretland hafði öll spil á hendi varðandi fiskveiðiréttindi, að þá sitjum við uppi með svona smánarlega niðurstöðu úr samningaviðræðum Bretlands og Evrópusambandsins um framtíðartengsl?“

Sjávarútvegur hefur lítið vægi í bresku hagkerfi. Einungis 0,1 prósent af þjóðarframleiðslunni má rekja til fiskveiða, þannig að NFFO segir það ekki endilega koma á óvart að bresk stjórnvöld hafi á endasprettinum ákveðið að fórna þessum hagsmunum. Þrátt fyrir öll stóru orðin.

Í samningaviðræðunum stóðu Bretar lengi vel fast á því að Evrópusambandið gæfi frá sér 80 prósent þeirra veiðiheimilda sem ríki þess hafa haft í breskri lögsögu, en niðurstaðan varð sem fyrr segir 25 prósent. Það hlutfall er þó meðaltal, því hlutföllin eru afar breytileg eftir tegundum og veiðisvæðum.

Eitt af því sem Bretar missa við útgönguna er svo möguleikinn á því að skipta á kvóta við nágrannaríkin, og sömuleiðis er reiknað með því að leiga á kvóta verði mun dýrari. NFFO segir að samningaviðræður um þessi atriði og önnur sem valda breskum sjómönnum vandkvæðum séu nú þegar að hefjast, en „hvernig stjórnvöld ákveða að taka á þessum málum mun hafa mikilvægar afleiðingar á komandi árum.“