Í efnahagsáföllum er hin svokallaða hagstjórn virkari en ella. Yfirvöld beita þunga ríkisfjármálanna tímabundið til að leysa sérstæðan vanda. Ýmis viðbrögð stjórnvalda við heimsfaraldrinum hafa eðlilega verið gagnrýnd og mikilvægt er að við drögum lærdóm af aðgerðunum. Óháðar alþjóðastofnanir á borð við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) hafa hingað til látið jákvæða dóma falla og talið viðbrögðin hafa verið viðeigandi í ljósi aðstæðna.

Frambjóðendur til alþingiskosninga munu þó vonandi hafa eitthvað bitastæðara fram að færa en gagnrýni á útfærslu stuðningsaðgerða við einstaklinga og fyrirtæki í faraldrinum. Ekki er ástæða til annars en að ætla að eðlilegt líf geti nú hafist að nýju og að stöðugar umbætur, í stað krísustjórnunar, verði verkefni næstu ríkisstjórnar.

Tillögur til umbóta liggja fyrir

Í nýrri skýrslu um Ísland ber OECD upp ýmsar tillögur til umbóta sem aukið gætu hagvöxt og gæði ríkisútgjalda til framtíðar. Margar þeirra fela í sér að hið opinbera dragi úr samkeppnishamlandi regluverki sem oft er meira íþyngjandi en í samanburðarlöndunum. Þar má nefna kröfur varðandi stofnun nýrra fyrirtækja og hömlur á beina erlenda fjárfestingu, sem hefur verið afar dræm á undanförnum árum þrátt fyrir afnám gjaldeyrishafta og almennan uppgang í hagkerfinu.
OECD lagði einnig áherslu á umbætur á vinnumarkaðslíkaninu, enda þyrfti launaþróun að endurspegla framleiðni vinnuafls betur.

Í skýrslunni er vísað til breytinga sem Finnar réðust í árið 2016. Í kjölfar tímabils efnahagslegar stöðnunar og skuldasöfnunar ríkissjóðs var markmiðið í Finnlandi að auka samkeppnishæfni landsins með því að lækka launakostnað, sem var orðinn nægilega mikill til að vera dragbítur á efnahagslífinu. Ekki komst skriður á samningsvilja milli aðila vinnumarkaðar fyrr en yfirvöld hótuðu aðgerðum. Þær áttu meðal annars að felast í því að draga úr yfirvinnu og gera tvo almenna frídaga og fyrstu veikindadaga ólaunaða samhliða því að dregið yrði úr veikindaréttindum. Í kjölfar mikilla mótmæla hvatti forsætisráðherra Finnlands til þess að aðilar vinnumarkaðar kæmust að sameiginlegri niðurstöðu sín á milli. Hún náðist að endingu og var sú að frysta laun í eitt ár, lækka laun opinberra starfsmanna og lengja vinnuvikuna án launahækkana.

Við stefnum í öfuga átt

Hver er staðan hérlendis? Launahækkanir eru miklar, hið opinbera leiðir enn á ný þróunina og vinnuvikan styttist samhliða launahækkunum í skörpum efnahagssamdrætti. Frá aldamótum hafa laun hér á landi vaxið þrefalt meira, verðbólga verið fjórfalt meiri og vaxtastig fimmfalt hærra en í hinum Norðurlandaríkjunum. Eftir tímabil hóflegrar verðbólgu og lækkandi vaxta er verðbólgan nú farin að gera vart við sig á ný og vaxtahækkunarferlið er þegar hafið. Þó að launaþróunin sé þar ekki ein að verki er launakostnaður sá þáttur sem hefur mest áhrif til hækkunar verðlags um þessar mundir að sögn atvinnurekenda.

Ómögulegt virðist, óháð efnahagsástandi á hverjum tíma, að leiða alla aðila vinnumarkaðar í sameiginlegan skilning um mikilvægi þess að laun endurspegli afköst og að launahækkanir umfram efnahagslegt tilefni geti ekki aukið kaupmátt til lengdar. Í nágrannaþjóðum okkar hefur hins vegar myndast sameiginlegur skilningur á því að útflutningsgreinar leiði launaþróun og hafa embætti ríkissáttasemjara í þeim löndum verið veittar nægilegar heimildir til að framfylgja þeirri sýn, með góðum árangri.

Stefnur móta mikilvæga hvata

Í skýrslunni er einnig að finna tillögur sem snúa að því að auka atvinnuþátttöku. Skattkerfi okkar er hannað til að vera tekjujafnandi og styður þannig við tekjulægri heimili. Hin hlið peningsins er sú að jaðarskattar eru afar háir, sem er atvinnuletjandi. Örorkukerfið óx úr 4,8% í 7,4% af opinberum útgjöldum á einungis 15 árum og nær nú til um 9% fólks á vinnualdri. Tímabil atvinnuleysisbóta er langt en áunnin réttindi vinnast á skömmum tíma. Langtímaatvinnuleysi hefur færst í aukana. Hönnun kerfisins er til þess fallin að draga úr þátttöku á vinnumarkaði og mælist OECD til þess að gerðar verði umbætur á þessum sviðum til að auka hvata til atvinnuþátttöku vinnufærs fólks.

Nú þegar margar þjóðir reisa sig við samtímis eftir faraldurinn er alþjóðleg samkeppnishæfni mikilvægari en oft áður. Við fögnum góðu gengi okkar öfluga íþróttafólks á stórmótum en gott gengi íslenskra fyrirtækja á hinum alþjóðlega vettvangi viðskiptanna er ekki síður mikilvægt, því það hefur áhrif á lífskjör allra. Hagstjórnarhlutverk næstu ríkisstjórnar verður að taka á þeim atriðum sem aftra okkur að óþörfu í þeirri samkeppni.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.