Heimsfaraldurinn og sóttvarnaaðgerðir leggjast þyngst á ferðaþjónustu. Í alþjóðlegum samanburði eru fá ríki sem treysta eins mikið á ferðaþjónustu og Ísland. Nóg er að líta yfir íslenskar hagtölur til að átta sig á hversu alvarleg staðan er. Samdráttur í landsframleiðslu mælist nú meiri en í bankahruninu, atvinnuleysi hefur aldrei mælst hærra og nú stefnir í að 30 þúsund manns verði án atvinnu um áramótin.

Áhrif kreppunnar hér heima eru þung í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Því skýtur skökku við að laun á Íslandi séu ekki aðeins ein þau hæstu í heimi heldur séu launahækkanir mun hærri en þær sem við sjáum meðal flestra vestrænna ríkja.

Á öðrum ársfjórðungi hækkuðu laun hér á landi um 6,5% milli ára en til samanburðar hækkuðu laun að meðaltali um 1,9% á hinum Norðurlöndunum. Á sama tíma er atvinnuleysi hér eitt það hæsta í Evrópu. Ekki alls kostar ósvipað þeim atvinnuleysistölum sem við sjáum í syðri hluta álfunnar. Fyrir vinnuaflsfreka atvinnugrein eins og ferðaþjónustu kemur hár launakostnaður beint niður á áfangastaðnum Íslandi, sem er í beinni samkeppni um ferðamenn við önnur lönd.

Við vonum öll að sterkur efnahagsbati taki við þegar faraldurinn er á enda. Við vitum hins vegar að slíkur bati gerist ekki án vaxtar ferðaþjónustu. Þó að íslensk náttúra sé sú fallegasta í heimi, þá má finna náttúruperlur víða. Samkeppnin er hörð. Fleiri ríki ætla að treysta á uppgang ferðaþjónustu þegar faraldurinn líður undir lok.

Þegar rætt er um mikilvægi þess að standa vörð um störf, er það ekki úr lausu lofti gripið. Aðgerðir í þá veru munu skila okkur betri lífskjörum og tryggja fleirum vinnu, fyrr en ella. Það er ekki eftirsóknarverð staða að vera hálaunaríki með eitt hæsta stig atvinnuleysis meðal vestrænna ríkja. Hvernig sjáum við fyrir okkur að snúa þeirri stöðu við?

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.