þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

1.200 tonn á fyrstu vikum apríl

Guðjón Guðmundsson
30. apríl 2022 kl. 09:00

Höfnin í Þorlákshöfn er ekki aðeins lífleg fiskihöfn heldur miðstöð flutninga einnig. Mynd/Þorgeir Baldursson

Mikil umsvif hafa verið á Fiskmarkaði Íslands í Þorlákshöfn í aprílmánuði.

Vertíðin fór seint af stað vegna mikillar ótíðar en á fyrstu vikum aprílmánaðar og fram að páskastoppi fóru rúmlega 1.200 tonn í gegnum markaðinn. Á sama tímabili í fyrra voru þetta 400 tonn.

„Vertíðin byrjaði mjög seint núna því tíðin var alveg skelfileg framan af. En svo byrjaði þetta með miklum látum. En ef litið er til alls ársins og það borið saman við sama tíma í fyrra er magnið engu að síður svipað eða örlítið meira það sem af er ári,“ segir Ingigerður Eyglóardóttir, útibússtjóri Fiskmarkaðarins í Þorlákshöfn.

Ingigerður hefur starfað hjá markaðnum í um 20 ár bæði á skrifstofunni og sem gæðastjóri fyrirtækisins. Hún tók við sem útibússtjóri af Vilhjálmi Garðarssyni 1. mars síðastliðinn. Á síðasta ári fóru í gegnum fiskmarkaðinn í Þorlákshöfn rúmlega 6 þúsund tonn sem er það mesta í sögu markaðarins. Það stefnir í svipað magn á þessu ári og það þrátt fyrir að vertíðin hafi farið seint af stað út af stöðugri ótíð.

  • Ingigerður Eyglóardóttir, útibússtjóri Fiskmarkaðar Íslands í Þorlákshöfn. Mynd/gugu

Ingigerður segir að menn muni ekki eftir öðru eins magni og farið hefur í gegnum markaðinn núna í apríl. Dag eftir dag hafi um 150-200 tonn farið í gegnum markaðinn. Ingigerður segir að stór hluti aflans hafi verið ufsi sem veiðist vel um þessar mundir og hátt verð fáist fyrir hann. Það megi reyndar segja um allan bolfisk. Meðalverð á ufsa í fyrra var rúmlega 150 krónur á kílóið en það er núna í 239 krónum. Meðalverð á þorski fyrstu fjóra mánuðina á þessu ári er 447 krónur en var 333 krónur á sama tímabili í fyrra.

1.000 tonn af ufsa

„Eftir okkar vitneskju mun fiskverð ekki lækka í bráð. Líklega má rekja þetta háa verð til minna aðstreymis af fiski frá öðrum þjóðum, til dæmis Rússum, og minni kvóta í Barentshafi. Verðin hafa verið góð það sem af er,," segir Ingigerður.

Svipaður fjöldi stórra báta hefur selt á markaðnum núna, og talsvert magn hefur borist með aðkomubátum. Núna er vertíð fyrir sunnan land og bátarnir hafa margir verið að mokfiska þar. Margar útgerðanna vinna þorskinn sjálfar en aðrar tegundir, eins og ufsi og karfi fer gjarnan á markaðinn. Það sem af er ári hafa tæplega 1.000 tonn af ufsa farið í gegnum markaðinn sem er talsverð aukning frá því á sama tímabili í fyrra þegar þetta voru rúmlega 700 tonn.

  • Fiskmarkaðurinn er í nýju húsi við höfnina. Mynd/gugu

Auk Ingigerðar eru þrír fastir starfsmenn hjá fiskmarkaðnum og hún getur kallað til starfsmanna frá öðrum útibúum fiskmarkaðsins, einnig hefur hún 3 íhlaupamenn.  Kuldaboli annast landanir úr bátunum. Kaupendahópurinn er stór og breiður og talsvert fer beint erlendis með skipum Smyril-line sem eru í reglubundnum siglingum frá Þorlákshöfn til Evópuhafna.

Fiskmarkaðurinn er í nýju húsi og var starfsemin flutt þangað í febrúar. Aðstaðan hefur breyst til hins betra í talsvert stærra húsi á um 600 fermetrum og með stóru malbikuðu og snyrtilegu plani.  Hráefnið er að stærstum hluta keyrt beint af bryggjunni og inn í hús fiskmarkaðarins. Mikil hagkvæmni felst í því að vera komin nær hafnarsvæðinu en þegar veiðin er mikil og umsvifin hvað mest er styttra að koma með aflann í hús frá bryggju. Mun betra flæði er á hráefninu. Háannatíminn er auðvitað yfir vertíðarmánuðina en svo taka strandveiðarnar við og umsvifin dragast mikið saman. Haustin eru róleg en vertíðin hefst svo í febrúarbyrjun með tilheyrandi álagspunktum.