sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aftur á byrjunarreit í slönguspili Alþingis

Guðsteinn Bjarnason
4. febrúar 2021 kl. 11:00

Sjávarútvegsráðherra sagði markmið strandveiða vera að styrkja byggð og búsetu um land allt. Mynd/HAG

Við umræður á Alþingi um byggðapottafrumvarpið sagði formaður atvinnuveganefndar mjög brýnt að auka aflaheimildir í strandveiðar. Það sé í raun og veru það eina sem stendur út af. Frumvarpið er nú hjá atvinnuveganefnd.

„Ég sé það núna að við eigum í raun og veru eftir að binda endahnútinn á þetta með það að tryggja afla í 48 daga. Það er í raun og veru það eina sem stendur út af,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, í fyrstu umræðu á alþingi um byggðapottafrumvarpið 20. janúar síðastliðinn.

„Þetta er eins og að vera í einhverju slönguspilinu og allt í einu fer maður bara niður allan stigann og er kominn á byrjunarreit.“

Eftir fyrstu umræðu var málið sent áfram til atvinnuveganefndar, þar sem væntanlega verða gerðar breytingar á frumvarpinu áður en það fer til annarrar umræðu. Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á flestum þáttum byggðapottanna svonefndu, þeirra 5,3% aflaheimilda sem nýttar hafa verið til að styrkja sjávarbyggðir í landinu.

Miðað við þessi ummæli formanns nefndarinnar má búast við því að sérstaklega verði horft á strandveiðikerfið í vinnu nefndarinnar.

Þverpólitísk vinna

Lilja Rafney lagði áherslu á að „vinnan við strandveiðarnar“ hafi verið þverpólitísk.

„Ég vil ekki að þessi mikla vinna, þvert á flokka og með tengingu við alla landshluta, verði til einskis unnin. Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt, eins og ég hef verið að segja, að auka aflaheimildir í strandveiðar.“

Hún tók undir það, sem fram kom í umræðunum, „að það sé leið til að skapa miklu meiri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið að þessir litlu aðilar og nýliðar og minni sjávarpláss hafi möguleika á að hefja útgerð, þótt smá sé, hafi þessa möguleika í stöðunni. Það er ekkert sjálfgefið ef við förum að gera þetta allt miklu erfiðara og opnum á, eins og er í þessu frumvarpi, bara alla daga. Þá held ég að fyrst fari að koma svokallaðir hobbísjómenn um helgar sem vinna kannski einhverja aðra vinnu. Það er margt í þessu sem mér finnst að megi ekki verða að veruleika.“

Skýtur skökku við

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem mælti fyrir frumvarpinu, sagði að vissulega væri verið að „gera mjög stórar og miklar og þungar breytingar“, en þær snúist „fyrst og fremst um það að í dag er fyrirsjáanleikinn í þessum pottum sáralítill sem enginn. Við erum að skapa ákveðinn ramma utan um þennan þátt fiskveiðistjórnarkerfisins sem er gríðarlega mikilvægur.“

Hann tók fram að það sé „markmið strandveiða að styrkja byggð og búsetu um allt land, klárlega,“ en þá skjóti það skökku við „að breytingarnar sem við gerðum, um að gera þetta að einum potti yfir allt landið, leiða til þess að á sumum svæðum hefur orðið samdráttur í veiðum þrátt fyrir auknar veiðiheimildir.“

Það hafi hreint ekki verið tilgangurinn með strandveiðikerfinu „að færa áherslurnar í atvinnu í þessum sjávarbyggðum til á milli landshluta og ég er að kalla eftir því að það verði yfirfarið.“