laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Afurðaverð hefur lækkað vegna lægra olíuverðs

Guðjón Guðmundsson
25. október 2020 kl. 13:00

Um 45% af lönduðum afla í frystihúsin eru hausar og hryggir sem fara í þurrkun. Mynd/Þorgeir Baldursson

Samherji framleiðir um 3.000 tonn af þurrkuðum afurðum

Lækkun hefur orðið á afurðaverði á þurrkuðum hausum og hryggjum sem seldir eru til skreiðarkaupenda í Nígeríu. Lækkunin nemur um 15% á einu ári. Gestur Geirsson, yfirmaður Landvinnslu hjá Samherja, segir verð á þurrkuðum afurðum fylgja heimsmarkaðsverði á olíu og sem kunnugt er hefur það verið með lægsta móti undanfarin misseri sem endurspeglast í minni kaupmætti í Nígeríu.

Samherji/ÚA rekur fiskþurrkun á Laugum í Reykjadal og aðra á Dalvík. Við þetta starfa um 35 manns á ársgrundvelli. Um 45% af lönduðum afla í frystihúsin eru hausar og hryggir sem fara í þurrkun.  Á ársgundvelli eru þetta um 15.000 tonn af hráefni fara í þurrkun á báðum stöðum.  Vinnslan gengur út að að nýta heitt vatn til að ná 80% af þyngdinni (vatninu) í burtu og eftir sitja um 3.000 tonn af hágæða próteini sem selt er til Nígeríu.

Aðeins Nígería kaupir

Eini markaðurinn fyrir þessar afurðir er Nígería. Gestur segir að kaupgeta skreiðarkaupmanna í Nígeríu sé ekki með mesta móti þessa dagana og hefur lágt heimsmarkaðsverð á olíu og áhrif vegna Covid-19 faraldursins hefur líka sett strik í reikninginn. Gengi nígerísku nærunnar gagnvart bandaríkjadollar hefur lækkað umtalsvert en viðskiptin fara öll fram í dollurum.

„Þetta hefur gengið ágætlega undanfarið og vel síðustu ár. Við höfum ekki safnað birgðum og allt er selt gegn fyrirframgreiðslu áður en varan fer úr landi. Það er minna að hafa út úr þessu í dag en var fyrir ári en vinnslan á hráefninu gengur vel og við erum þekkt á markaðnum þarna fyrir gæðavöru,” segir Gestur.

Gestur segir að allur fiskur sem Samherjaskipin koma með að landi sé fullnýttur.  Flök og bitar selt ferskt eða frosið, hausar og hryggir eru þurrkaðir, lifur fer í niðursuðu og roðið hefur verið selt til kaupenda erlendis sem hafa nýtt það í framleiðslu á annars vegar kollageni sem notað er í heilsuvörur og hins vegar gelatín sem nýtt er í matarlím.  Fyrirséð er að breytingar verði á því vegna þess að nú er hefjast framleiðsla á gelatíni og kollageni úr fiskroði hjá Marine Collagen í Grindavík sem er að hluta til í eigu Samherja.

Gestur segir veiðar hafa gengið vel. Þó hafi þær gengið hálf brösuglega í haust. Undanfarið hafi ræst úr fiskiríinu. Samherji er með það stór skip og mikla veiðigetu að fyrirtækið getur jafnan brugðist við þótt ekki mokfiskist öllum stundum. Stöðugri vinnslu er haldið uppi í húsum fyrirtækisins allt árið um kring.

Hann segir að heimsfaraldurinn hafi breytt landslaginu fyrir fiskútflytjendur. Veitingamarkaðurinn hafi nánast þurrkast út á stórum svæðum en smásölumarkaðurinn vaxið. Útflutningur Samherja frá vinnslunum í Eyjafirði sé nokkurn veginn sá sami og fyrir ári en framleiðslusamsetningin hefur breyst. Verð hafi þó heldur gefið eftir.