þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Atvinnulífið sýnir verkefninu velvilja

Guðjón Guðmundsson
23. janúar 2022 kl. 13:00

Nýju skipin eru glæsileg og hlaðin búnaði sem gera þau afar öflug björgunartæki. Aðsend mynd

Búið er að leggja kjöl að nýju björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar hjá KewaTec skipasmíðastöðinni í Finnlandi, því fyrsta af alls þrettán sem Landsbjörg stefnir að því að láta smíða á næstu árum.

Afhending skipsins er áætluð á goslokahátíð í Vestmannaeyjum sumarið 2022 þar sem heimahöfn þess verður. Næstu tvö skip verða með heimahafnir í Siglufirði og Reykjavík og verða þau afhent seint á þessu ári og á næsta ári.

Hvert þessara nýju skipa kosta 285 milljónir króna og hefur ríkið skuldbundið sig til að greiða helming þeirrar upphæðar fyrir fyrstu þrjú skipin. Nýlega tilkynnti svo tryggingafélagið Sjóvá, sem er einn af aðalstyrktaraðilum Landsbjargar, að það hefði styrkt þetta verkefni Landsbjargar um 142,5 milljónir króna sem dugar sem mótlag á móti ríkinu fyrir fyrsta skipinu. Landsbjörg hefur undanfarin misseri unnið að fjármögnun síns hluta og segir Örn Smárason, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörg, að enn vanti þó um 130 milljónir króna til þess að ljúka smíði fyrstu þriggja skipanna.

Saman kosta fyrstu þrjú skipin 885 milljónir króna og framlag ríkisins er helmingur þeirra upphæðar.

„Við höfum viljayfirlýsingu frá ríkinu um kostnaðarþáttöku vegna björgunarskipa frá fjögur til tíu fyrir samtals sjö björgunarskip en við höfum ekkert í hendi fyrir síðustu þrjú skipin. Við erum í verkefni sem hljóðar upp á þrettán skip og höldum okkur við það þar til það klárast, hvort sem það tekur 7, 10 eða 13 ár. Við erum þó fullir bjartsýni um að ríkið koma til liðs við okkur líka hvað þrjú síðustu skipin varðar,” segir Örn.

  • Örn Smárason, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörg. Mynd/Landsbjörg

Hann segir að samtökin finni fyrir velvilja úr öllum áttum, jafnt frá ríki, einkafyrirtækjum og almenningi.

„Sjóvá hefur sýnt það hvernig straumarnir eru úti í atvinnulífinu. Við höfum ekki fundið dæmi um hærri styrk en þann sem okkur barst frá Sjóvá til leitar- og  björgunarmála í sögulegu samhengi. Þessi mikla velvild Sjóvár smitar út til annarra fyrirtækja og við finnum fyrir enn meiri velvilja frá atvinnulífinu í kjölfar styrksins. Stór íslensk fyrirtæki og stór íslensk/alþjóðleg fyrirtæki þekkja orðið verkefnið mjög vel.”

Risavaxið verkefni

Örn segir að viðbrögð frá stóru íslensku útgerðarfélögunum séu einnig á mjög jákvæðum nótum. Starfandi er ráðgjafahópur í kringum fjármögnunina sem skipuð er fulltrúum úr atvinnulífinu og þar á meðal úr sjávarútveginum. Hann segir mikið sótt að þessum fyrirtækjum um styrki til margvíslegra verkefna og það eitt og sér að ná samtalinu sé skref fram á við. Ljóst sé að þeir sem komi úr sjávarútveg og öðrum greinum atvinnulífsins skilji mætavel mikilvægi verkefnisins. Í flestum tilvikum sé þetta fremur spurningin um það hvenær fyrirtækin komi að fjármögnuninni fremur en hvort þau geri það. Engu að síður er ljóst að Landsbjörg stendur frammi fyrir risavöxnu verkefni hvað varðar fjármögnun björgunarskipanna.

  • Örn Smárason, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörg. Mynd/Landsbjörg

Norðmenn eru að endurnýja björgunarskipaflota sinn og eru nú að ljúka smíði fjórða skipsins í nýjum 22 metra klassa sem heitir einfaldlega Ulstein-klassi eftir samnefndri norskri fyrirtækjasamstæðu sem er þekkt fyrir skipahönnun og skipasmíðar. Ulstein fjármagnar að öllu leyti smíði fyrsta skipsins sem og hönnunar- og flokkunarvinnu. Fyrsta skipið mun bera nafn fyrirtækisins.

„Við myndum gjarnan geta farið sömu leið en höfum líka skilning á því að hér vilja fyrirtæki koma að málum á annan hátt og við erum þakklátir fyrir allan stuðning.”

Stærstur hluti núverandi björgunarskipaflota var smíðaður á árunum 1982-1990. Skipin fengust fyrir því sem næst gjafverð frá Konunglega breska björgunarbátafélaginu og komu hingað til lands á árunum 1996-2007. Unnið hefur verið að undirbúningi endurnýjunar björgunarskipaflota Landsbjargar allt frá árinu 2016. Þá strax gerði hver björgunarsveit þarfagreiningu fyrir sig og menn komust að niðurstöðu í hvaða röð ætti að endurnýja skipin vítt og breitt um landið. Upp úr þessari vinnu sjálfboðaliðanna voru unnin drög að útboðslýsingu. Sett var á laggirnar nýsmíðanefnd innan Landsbjargar og með liðsinni skipaverkfræðings var útboðslýsingin fullunnin og auglýst á evrópska efnahagssvæðinu. Finnska skipasmíðastöðin KewaTec varð hlutskörpust en fyrirtækið hefur smíðað á þriðja tug björgunarskipa fyrir finnsku björgunarsamtökin auk annars. Björgunarskipið sem fer til Vestmannaeyja næsta sumar er með nýsmíðanúmer 803 hjá KewaTec.

Úr 13 í 32 sjómílur

Ástæða þess að fyrsta skipið fer til Vestmannaeyja er sú að við verkefni Björgunarfélags Vestmannaeyja hafa bæst sjúkraflutningar til Landeyjahafnar til viðbótar við önnur verkefni og  verðmætabjörgun og sjúkraflutningar í úteyjarnar. Með tilliti til verkefna þótti Þór, björgunarskip Vestmanneyinga, tæknilega úreltast af öllum flotanum. Einnig var haft til hliðsjónar mat á fjölda verkefna á hverjum stað fyrir sig. Niðurstaðan varð sú að fyrsti báturinn fer til Vestmannaeyja og annar og þriðji báturinn til Siglufjarðar og Reykjavíkur í þessari röð.  Óhætt ætti að vera að segja að öryggi sæfarenda úti fyrir Norðurlandi ætti að stóraukast við komu nýs björgunarskips því Siglufjörður er auðvitað einnig heimahöfn varðskipsins Freyju. Örn segir að skemmst sé að minnast þegar eldur kom upp í vélarrými rækjutogarans Sóleyju Sigurjóns GK um 90 sjómílur norður af Siglufirði 2019. Þótt mannbjörg hafi orðið hefði miklu munað upp á öryggisþáttinn að komast út að skipinu á björgunarskipi með 32 sjómílna ganghraða, eins og nýju björgunarskipin bjóða upp á,  í stað 13 sjómílna sem er ganghraði núverandi björgunarskipaflota.

Örn segir að í flestum tilvikum ætti að vera hægt að stytta viðbragðstímann um helming með nýju bátunum. Í því felist gríðarleg öryggisbót sjófarenda allt í kringum landið. Nýju bátarnir verða með sex strokka Scania vélar sem eru mun sparneytnari á olíu en vélar gömlu bátanna sem lækkar rekstrarkostnaðinn umtalsvert.

Liðin 20 ár frá fyrsta útkalli

„Í nýsmíðanefndinni eru félagsmenn og áhafnir af bátunum sem eru vélfræðingar, skipstjórar eða með aðra sérþekkingu á þessum málum. Við höfum fjármagnað stóran hluta af nýsmíðaverkefni björgunarskipanna með sjálfboðaliðavinnu þessu fólks í okkar samtökum,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, nýr formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Otti Rafn er borinn og barnfæddur Grindvíkingur og félagi í Björgunarsveitinni Þorbirni. Hann hefur setið í stjórn Landsbjargar frá árinu 2017 og tók við af Þór Þorsteinssyni sem formaður haustið 2021. Hann byrjaði 14 ára gamall í unglingadeildinni Hafbjörg í Grindavík og hóf svo störf fyrir björgunarsveitina 17 ára gamall, fyrir 20 árum. Það getur verið langur vinnudagurinn hjá björgunarsveitarmönnum sem flestir sinna auk þess hefðbundinni launavinnu. Þetta á ekki síst við um Otta Rafn en eins og alþjóð veit átti engin björgunarsveit jafn annasama daga á síðasta ári og Björgunarsveitin Þorbjörn eftir að fór að gjósa í Geldingadal. Hann er framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins HP flutningar sem er stöndugt fjölskyldufyrirtæki í Grindavík með um 20 manns í vinnu.

„Vinnudagurinn getur orðið ansi langur þessa dagana. Það er sjálf vinnan og svo áhugamálið sem er að starfa í björgunarsveit og sinna því. Svo bætist nú við formannsstarfið og allt sem fylgir því innan félagsins. Það er samt ekki fullt starf að vera formaður Landsbjargar en það er nóg af verkefnum. Félagið er þannig upp sett að hérna er framkvæmdastjóri og starfsfólk sem er launað. Svo er hér stjórn og þar er ég formaður. Ég sinni ekki daglegum rekstri en björgunarsveitirnar okkar byggja á sjálfboðaliðum og félagsstarfi og það þarf að sinna verkefnum sem þeim tengjast alla daga ársins,“ segir Otti Rafn.

Brennandi áhugi

Stjórn félagsins og formaður bera ábyrgð á fjárhag þess og því að rekstur samtakanna sé í lagi. Á fyrstu dögum nýs árs fer mikill tími í uppgjör á flugeldasölunni sem er ein helsta tekjulind samtakanna. Landsbjörg sé um innkaup, innflutning og dreifingu á flugeldum fyrir allar björgunarsveitir samtakanna. Landsbjörg er í raun heildsali á flugeldum sem björgunarsveitirnar beina viðskiptum sínum til. Flugeldarnir eru seldir á kostnaðarverði og með lágmarks álagningu til björgunarsveitanna sem sjálfar halda ágóðanum af sinni flugeldasölu sem nýttur er til rekstrar deildanna. Otti Rafn segir að almennt ríki ánægja með árangurinn af flugeldasölunni fyrir þessi áramót.

Verkefni björgunarsveitanna hafa aukist á undanförnum árum og þar með rekstrarkostnaðurinn. Þetta eru þau verkefni sem stjórn og formaður Landsbjargar glíma við frá degi til dags. „Samtökin eru byggð upp af félagsfólki sem hefur áhuga á því að sinna leit og björgun. Við vildum auðvitað að minni tími færi í það að afla fjár til rekstrarins og meiri tími í fræðslu og þjálfun nýrra félagsmanna, svo dæmi sé tekið. En þetta er sá veruleiki sem við búum við og sættum okkur alveg við,“ segir Otti Rafn.

Samfélagsleg skylda

Hann segir það mjög misjafnt eftir landsvæðum hvernig nýliðun innan samtakanna gangi. Sums staðar úti á landi er fremur litið á það sem samfélagslega skyldu að vera í björgunarsveit en það sé eittvað sérstaklega eftirsóknarvert. Annars staðar er offramboð af nýjum félögum og setja þarf upp nýliðaval til þess að sigta út þá sem brenna virkilega af áhuga fyrir verkefnunum. Heilt yfir gangi þó mönnunin vel.

Þeir sem gangi til liðs við björgunarsveitir í sjálfboðaliðastarfi brenni fyrir því að geta hjálpað fólki í neyð og að eiga þess kost að fást við oft á tíðum ævintýraleg verkefni sem eru ólík því sem flestir eiga að venjast.