miðvikudagur, 28. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Byrjunarörðugleikar í úthafseldi

Svavar Hávarðsson
26. september 2020 kl. 09:00

Ocean Farm 1 er 69 metrar á hæð og 110 metrar að ummáli, og er hér á mynd. Kvíin er talin mikilvæg í þróun nýrrar og öruggari tækni til eldis í sjó. Smart Fishfarm er hins vegar miklu stærri. Mynd/SalMar

Í tvígang hefur lax sloppið úr fyrstu úthafseldiskví SalMar.

Yfirlýst markmið stórrar úthafseldiskvíar eldisrisans SalMar var frá fyrsta degi að koma í veg fyrir að fiskur slyppi úr kvíunum. Þvert á þær vonir norskra eldismanna hefur í tvígang tapast fiskur úr eldiskví fyrirtækisins sem ber heitið Ocean Farm 1. Fyrst og síðast er litið á þetta sem byrjunarörðugleika og stefnir fyrirtækið á að notast við enn stærri úthafskvíar í framtíðinni.

Eldisstöðvar djúpt úti fyrir ströndum Noregs virðast hugsaðar sem upphafið að næsta skrefi í norsku laxeldi – nýtingu úthafsins til eldis og margföldunar á framleiðslu á eldislaxi. Ein ástæðan fyrir þróun þessarar tækni eru takmarkanir á frekari leyfisveitingum til sjóeldis á laxi við norsku ströndina, en þau eru seld í takmörkuðu upplagi fyrir milljarðatugi.

Vandamálin tækluð

Eldi í úthafinu er talið gefa möguleika til mikillar framleiðsluaukningar. Tækninni er jafnframt ætlað að leysa mörg þeirra vandamála sem norsk eldisfyrirtæki kljást við; takmarkað eldisrými og staðsetning eldisins, ókostir vegna nálægðar við önnur eldissvæði, óhagstætt hitastig á eldissvæðum og erfiðir straumar.

Við fyrstu sýn virðast þessar nýju eldisstöðvar eiga fátt sameiginlegt með hefðbundinni eldistækni – um risastór mannvirki er að ræða þar sem SalMar metur framleiðslugetu Ocean Farm 1 vera 1,6 milljónir tonna á líftíma hennar sem metinn er 25 ár. Eldisfyrirtæki sem horfa til úthafseldis hafa engin áform um að færa eldið – hætta strandeldi fyrir úthafseldi. Um klára viðbót verður að ræða, enda er yfirlýst stefna norskra yfirvalda að þróa eigi fiskeldi áfram á komandi áratugum. Hugmynd stjórnvalda er að fimmfalda framleiðsluna, að framleiða fimm milljónir tonna af eldislaxi, en þó aldrei áður en helstu vandamál eldisins eru að fullu leyst – laxalúsin og slysasleppingar eru þar framarlega í röðinni.

Tvær slysasleppingar

Fyrir skemmstu greindu norskir fjölmiðlar frá því að lax hefði sloppið frá Ocean Fram 1 í annað skiptið á jafnmörgum árum. Þótti mönnum þetta grátbölvað þar sem smíðin var grundvölluð á þróunarleyfi sem var fengið út á það megin markmið að slysasleppingar væru útilokaðar í skjóli þessarar nýju eldistækni. Slysaslepping sem varð árið 2018 hefur verið rakin til mannlegra mistaka starfsmanns í kvínni. Hin síðari virðist hafa orðið þegar gat kom á net í sérstöku hólfi sem nýtt er til að færa sláturhæfan fisk úr kvínni.

Olav-Andreas Ervik, einn af framkvæmdastjórum SalMar, viðurkenndi að slysasleppingarnar væru vandræðalegar uppákomur í ljósi þess hverju nýja tæknin átti að skila. Sagði hann að báðar sleppingarnar kæmu til vegna atvika sem ekki sáust fyrir við hönnun kvíarinnar.

Stór, stærri, stærst

Upphaflega áttu úthafskvíarnar sem hönnun Ocean Farm 1 að verða sex alls. Horfið hefur verið frá því þar sem engin eldisleyfi voru fáanleg til reksturs þeirra. Hins vegar er á teikniborði SalMar miklum mun stærri úthafskví, eins og Atle Eide, stjórnarformaður SalMar, kynnti í mars síðastliðnum. Úthafseldisstöðin, sem kallast Smart Fishfarm, verður næstum tvisvar sinnum stærri en Ocean Farm 1 sem nú er starfrækt úti fyrir ströndum Þrændalaga.

„Ocean Farm 1 þolir allt að 11 metra ölduhæð en Smart Fishfarm verður sett niður í 30-40 kílómetra fjarlægð frá landi og þoli allt að 31 metra ölduhæð,“ var haft eftir Eide. Smart Fishfarm verður 70 metrar á hæð og í stöðinni geta verið 3-4 milljónir laxa. Ráðgert er að framleiðslugetan verði 17-20 þúsund tonn af laxi í stöðinni árlega.

Erfitt er að ráða í hvort þessi áform verða að veruleika, enda fjárfestingin ævintýraleg. Eide telur að á næstu þremur áratugum muni fjárfesting í úthafslaxeldi Norðmanna nema um 200 milljörðum norskra króna eða 2.670 milljörðum.