þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Deilistofnarnir enn í uppnámi

Guðsteinn Bjarnason
20. nóvember 2020 kl. 15:00

Makrílviðræðurnar á strandríkjafundunum mörkuðust af því að samningur Evrópusambandsins, Færeyja og Noregs rennur út um áramótin. Mynd/Viðar

Að loknum strandríkjaviðræðum og NEAFC-fundi.

Strandríkjunum við Norðaustur-Atlantshafs tókst ekki, frekar en undanfarin ár, að ná heildarsamkomulagi um veiðar sínar á síld, kolmunna og makríl.

Ekkert samkomulag hefur enn tekist um sameiginlegar veiðar strandríkjanna úr deilistofnunum á Norðaustur-Atlantshafi, makríl, kolmunna og síld.

Strandríkjafundirnir í október skiluðu engum samningum og á fundi Norðaustur-Atlantshafsráðsins (NEAFC) í síðustu viku náðist ekki heldur samkomulag um makrílinn, en samkomulag tókst þó um síld og kolmunna.

Gefnar voru út reglugerðir um bæði síld og kolmunna en „þær fela ekkert í sér nema það að strandríkin ákveða að nota ráðgjöf ICES samkvæmt aflareglum þegar þau ákveða kvóta næsta árs,“ segir Kristján Freyr Helgason, aðalsamningamaður Íslands. „Þetta er bara eins og undanfarin ár, svo fer hver aðili heim til sín og ákveður.“

Samkomulag tókst þó um ýmsar ráðstafanir varðandi langhala, ýsu á Rockall-banka, karfa í Síldarsmugunni, ýmsa háfa og nokkra aðra fiskistofna.

Engar karfaveiðar

Kristján segir stærstu tíðindin af NEAFC-fundinum raunar vera breytta stöðu hvað varðar úthafskarfa: „Nú er búið að samþykkja að það verði engar veiðar.“

Á síðasta ári var samþykkt að veiðarnar yrðu í lágmarki en nú var skrefið tekið til fulls og tillaga Íslands og Danmerkur, fyrir hönd Færeyja og Grænlands hlaut einnig stuðning frá Noregi og Bretlandi. Kristján bendir á að Evrópusambandið hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna.

„Við vitum náttúrlega ekki hvaða ákvörðun þeir taka í lok árs, hvort þeir mótmæli og setji út kvóta. Það verður bara að koma í ljós, en auðvitað vonum við að það gerist ekki. Rússar munu hins vegar sitja fastir við sinn keip og stunda stórfelldar veiðar.“

Kristján segir það hafa breytt ýmsu að Bretar hafa nú fengið stöðu strandríkis á NEAFC-fundum, enda þótt rödd Breta hafi vissulega heyrst áður innan sendinefndar Evrópusambandsins.

„Brexit hangir enn yfir en aðild Breta að NEAFC þetta breytir náttúrlega dýnamikinni. Atkvæðin eru nú sex í stað fimm, og það breytti því að núna var hægt að samþykkja veiðibann á úthafskarfa. Það breytti því líka að það var samþykkt veiðibann á búrfisk.“

Viðvarandi ofveiði

Makrílviðræðurnar á strandríkjafundunum mörkuðust af því að samningur Evrópusambandsins, Færeyja og Noregs rennur út um áramótin. Þar sem engin niðurstaða fékkst var ákveðið að hafa framhaldsfund sem haldinn verður í næstu viku.

Sömuleiðis var ákveðið að hafa framhaldsfund um síldina í byrjun næsta árs.

Ofveiði hefur verið úr öllum deilistofnunum í mörg ár þar sem ríkin hafa hvert í sínu lagi ákveðið veiðar sínar, þannig að heildarveiðin verður umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Aðilar að strandríkjaviðræðunum hafa verið Grænland, Færeyjar, Noregur, Evrópusambandið og Rússland, auk Íslands. Brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu verður síðan til þess að Bretar fá stöðu strandríkis, en Bretland hefur nú þegar fengið aðild að NEAFC sem sjálfstætt ríki. NEAFC fer með stjórn veiða utan lögsögu einstakra ríkja.