þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eitt fengsælasta skip flotans kveður

Guðjón Guðmundsson
10. janúar 2021 kl. 09:00

Gnúpur á leið út frá Grindavík í síðasta sinn rétt fyrir jólin. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Gnúpur GK, áður Guðbjörg ÍS, til nýrra eigenda í Rússlandi.

Tímamót verða þegar Gnúpi GK, áður Guðbjörgu ÍS, verður siglt til Rússlands til nýrra eigenda í byrjun árs. Skipið er eitt hið fengsælasta í íslenskri skipasögu. Það var smíðað í Flekkefjord í Noregi 1981 fyrir útgerðarfélagið Hrönn hf. á Ísafirði. Það var lengt árið 1988 og komst í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík árið 1995 og hefur verið fengsælt alla sína tíð.

Fiskifréttir greindu frá því í október 2018 að Þorbjörn hefði keypt frystitogarann Sisimiut af grænlenska fyrirtækinu Royal Greenland. Það heitir nú Tómas Þorvaldsson GK og kemur í stað Gnúps.

Gnúpur fór í slipp í Hafnarfirði undir lok ársins í síðasta tékk áður en því verður siglt austur. Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjörns, segir að því sé ekki að neita að Gnúpur sé um margt mjög merkilegt skip og mikil saga í kringum það. Skipið kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir Þorbjörn í september á síðasta ári. Aflaverðmæti í þeim túr var tæplega 400 milljónir króna.

Sjóhæfni og vélarrytmi

„Þetta skip kom ítrekað með mikil verðmæti í land  og saga skipsins er í raun ótrúleg. Fyrstu tólf árin skilaði það miklum verðmætum líka og þá undir nafninu Guðbjörg ÍS. Þá var það aðallega við þorskveiðar sem hleypti verðmætunum að sjálfsögðu upp. Eftir að við tókum við Gnúp hefur hann verið í blandaðri veiði, jafnt þorski og karfa og eiginlega öllum tegundum. Engu að síður skilaði það alltaf góðum árangri og á þessum 26 árum sem við gerðum skipi út er framreiknað aflaverðmæti komið í rúma 46 milljarða króna“ segir Gunnar.

Þegar Gunnar er spurður hvað valdi því að svo góður árangur náist á einu skipi frekar en öðru segir hann marga hafa velt þessu fyrir sér. Fyrst og fremst ber að þakka góðan árangur skipstjóra og áhöfn skipsins. Einn þessara þátta eru óumdeilt sjóhæfni skipsins. Hún hafi batnað enn frekar við lengingu 1988. Við það varð það „tveggja öldu skip“ og fyrir vikið hægt að beita því enn frekar. Það var líka aflmikið og fór létt með að toga trollið.

Þorbjörn seldi einnig nýlega frá sér Sturlu GK, áður Guðmund VE og Guðmund RE. Það skip skilaði líka toppafla að landi flesta daga.

„Það hefur líka verið talað um að rytminn í vélunum á þessum aflaskipum sem eru á nót og línu hafi mikið að segja að því leyti að skipin fæla síður fiskinn undan sér. Sérstaklega var á þetta bent á sínum tíma varðandi Guðmund VE. Það skiptir líka máli hvernig skip ryðja sjónum frá sér án þess að ég treysti mér þó frekar út í þá sálma,“ segir Gunnar.

Slegist um vinnsluskip

Þorbjörn keypti Gnúp af skipasmíðastöðinni í Flekkefjord í Noregi árið 1994. Skipasmíðastöðin hafði tekið skipið upp í kaup Hrannar á nýrri Guðbjörgu ÍS, „gulu Guggunni“. Á þessum árum voru mörg útgerðarfélög á Íslandi að leita sér að vinnsluskipum. Talsverð samkeppni var um þau skip sem í boði voru.

„Það fór hópur manna héðan haustið 1994, ég þar á meðal, til Færeyja til að taka þátt í uppboði á færeysku vinnsluskipi. Við stóðum þarna íslensku útgerðarmennirnir á flughlaðinu í Vogum og horfðum hver á annan. Niðurstaðan varð sú að við vorum nógu margir til að leigja okkur saman fjórtán manna rútubíl til þess að koma okkur til Þórshafnar.“

Aðeins ein útgerð hreppti hnossið. Togarinn hét Beinir og var í eigu Framherja í Færeyjum, sem Samherji var hluthafi í. Kaupandinn var Samherji. Þorbjörn hafði hins vegar haft spurnir af því að Guggan eldri væri föl úti í Noregi hjá Flekkefjord skipasmíðastöðinni. Þá héldu nokkrir starfsmenn frá Þorbirni  rakleiðis til Haugasunds og fyrirtækið eignaðist skipið mánuði síðar.

Gunnar segir að vissulega sé eftirsjá að svona skipi. „Á síðustu áratugum hefur tækninni fleygt fram og aðbúnaður sjómanna batnað verulega um borð í nýrri skipum. Við þurfum því að endurnýja skipin okkar eftir bestu getu.“

„En auðvitað gerir maður sér líka grein fyrir því að skip eru ekki eilíf. Gnúpur er líka með freon-frystikerfi og við stóðum frammi fyrir því að þurfa að breyta skipinu fyrir ammóníak-kerfi eða selja það ella. Það er einfalt reikningsdæmi að kostnaðurinn af uppsetningu á nýju frystikerfi er of hár fyrir þetta gamalt skip,“ segir Gunnar.

Þorbjörn ákvað að gera Gnúp út einu ári lengur en áður hafði verið áætlað. Tíminn var notaður til aðlaga nýja skipið, Tómas Þorvaldsson GK, að rekstrinum. Ennfremur var ákveðið beina því í aðrar tegundir en Gnúpur hafði mest verið í sem og Hrafn Sveinbjarnarson. Gunnar segir að þá sé einkum horft til veiða á grálúðu. Þá kemur sér vel að Tómas Þorvaldsson GK er tveggja trolla skip sem hefur mikið að segja fyrir útgerðarmynstrið.

Tómas Þorvaldsson GK byrjar frábærlega

„Það má segja að Tómas Þorvaldsson GK hafi nú þegar skapað sér góðan orðstír bæði við Grænland og í Barentshafinu sem Sisimiut og þann stutta tíma sem við höfum gert skipið út á Íslandsmiðum. Þessir fyrstu mánuðir hjá okkur eru alveg samkvæmt áætlun og meira að segja rúmlega það. Þriðji og fimmti túrinn eftir að hann kom til okkar reyndust báðir mettúrar og aðrir túrar verið mjög gjöfulir.“

Gunnar segir að það hafi vissulega verið áskorun að gera út skip til veiða og halda uppi landvinnslu og sölu á afurðum erlendis á farsóttartímum. Allt hafi þetta þó gengið blessunarlega vel. Verð hafi gefið aðeins eftir á erlendum mörkuðum en sala á öllum afurðum hafi gengið vel. Matvælaverð hafi almennt lækkað á heimsvísu og sérstaklega á matvælum sem beint var inn á veitingahús og hótel. Þorbjörn hafði einbeitt sér mikið að þessum markaði enda skilar hann hærri verðum en aðrir markaðir. Þess vegna átti fyrirtækið talsvert undir þegar farið var að grípa til sóttvarnaráðstafana út um allan heim. Sala inn til stórverslanakeðja jókst og í mörgum tilfellum tókst að koma þar afurðum í sölu sem höfðu verið ætlaðar inn á veitingahúsamarkaðinn.

„Á endanum er staðan þannig að við erum með mjög sambærilega birgðastöðu um áramótin og hún var fyrir einu ári. Það segir eiginlega alla söguna af því hvernig þetta ár hefur gengið. Ég ímynda mér að þegar eðlilegt ástand ríkir á ný megi búast við vöruskorti, sérstaklega í veitingahúsa- og ferðamannageiranum. Um leið og það gerist getum við aukið sóknina á ný,“ segir Gunnar.