mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engin loðnuveiði á næstu vertíð

16. október 2020 kl. 14:25

Hafrannsóknastofnun hefur birt niðurstöður loðnumælinga haustsins og nýja ráðgjöf.

Hafrannsóknastofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði leyfðar á næstu vertíð, þriðja árið í röð. Ráðgjöfin verði þó endurmetin þegar niðurstöður mælinga á stærð veiðistofnsins í byrjun næsta árs liggja fyrir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun um niðurstöður loðnumælinga í haust og nýrri ráðgjöf sem birt hefur verið á vef stofnunarinnar.

„Hafrannsóknastofnun mun að vanda mæla veiðistofn loðnu í janúar/febrúar 2021 og endurskoða ráðgjöfina í ljósi þeirra mælinga,” segir í tilkynningunni.

„Niðurstöður leiðangursins byggja á umfangsmikilli yfirferð en tafir vegna veðurs ollu minni yfirferð á jaðarsvæðum. Hafís á norðanverðu rannsóknarsvæðinu hindraði að hluta áætlaða yfirferð þar, en í sumum tilfellum var loðnu að finna í námunda við hafísinn. Því gæti verið um að ræða vanmat á magni kynþroska stofnhlutans, en ekki er unnt að meta umfang þess.”

Ennfremur segir:

„Þessi ráðgjöf fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 kemur í stað ráðgjafar frá 30. nóvember 2019 sem hljóðaði upp á 170 þúsund tonna upphafsaflamark. Sú ráðgjöf byggði á ungloðnumælingum haustið 2019. Þótt sú mæling hafi verið nægjanlega há til að gefa aflamark var óvissan á þeirri mælingu mikil.”