fimmtudagur, 3. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engin veiði ráðlögð á næsta ári

23. október 2020 kl. 15:00

Eins og hér við land er loðnubrestur í Barentshafi. Mynd/Þorgeir Baldursson

Loðnubrestur í Barentshafi.

Alþjóðahafrannsóknaráðið telur ekki ráðlegt að veiða loðnu í Barentshafi á næsta ári, frekar en flest síðustu ár. Síðast var loðnuveiði leyfð þar árið 2018 og þar áður árið 2015.

Í ráðgjöfinni er tekið fram að loðnuleiðangurinn í ár hafi ekki náð til alls svæðisins. Um 20 prósent hafi vantað upp á og því sé líklegt að lífmassi loðnu sé vanmetinn í ráðgjöfinni. Það breyti þó engu um ráðgjöfina vegna þess að jafnvel þótt lífmassinn sé 20 prósent meiri en mældist þá dugi það ekki til.

Loðnuveiði í Barentshafi hefur verið mjög sveiflukennd undanfarna áratugi. Á áttunda áratug síðustu aldar og fram á miðjan níunda áratuginn veiddust þar yfirleitt vel yfir milljón tonn árlega, sum árin meira en tvær milljónir tonna og eitt árið nærri þrjár milljónir tonna.

Eftir það hafa skipst á tímabil þar sem engin veiði hefur verið í nokkur ár og tímabil með veiði upp á nokkur hundruð þúsund tonn í nokkur ár.