sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Farandverkamenn komast hvorki lönd né strönd

Guðjón Guðmundsson
6. febrúar 2021 kl. 14:00

Ólafur Einarsson, útgerðarmaður og skipstjóri. Myndir/gugu

Sjómenn og landvinnslan í Noregi gætu staðið frammi fyrir talsverðum vanda nú þegar stjórnvöld þar í landi hafa því sem næst lokað landamærum landsins í sóttvarnaskyni.

Nú er sá tími upprunninn sem hrygningaþorskur gengur inn á norska firði úr Barentshafinu og í venjulegu árferði veiða Norðmenn yfir 80% alls þorsks í febrúar, mars og apríl. Landvinnslan reiðir sig á erlenda farandverkamenn og þar sem lokun landamæranna stendur yfir í að minnsta kosti tvær vikur og við bætist tíu daga sóttkví þegar þau opna á ný þykir líklegt að norskir sjómenn þurfi að draga úr veiðum til að vera í takt við afkastagetu landvinnslunnar.

Ólafur Einarsson, sem gerir út Einar frá Myre frá samnefndum stað rétt norðan Lófóten í Noregi, segir reyndar flesta starfsmenn í kringum landvinnsluna þar sem hann leggur upp hafi verið á staðnum áður en strangari reglur tóku gildi.

Norðmenn fást ekki til starfa

„Vandamálið er aðallega í kringum landvinnsluna sem byggir að stærstum hluta á farandverkamönnum frá Rúmeníu. Þeir hafa komið hingað ár eftir ár og er þess vant og sérhæft starfsfólk. Hérna á svæðinu er 20% atvinnuleysi en það fást engir Norðmenn í þessi störf og það er dálítil kergja í mönnum vegna þessa. En Norðmenn eru bara þannig gerðir að þeir láta ekki bjóða sér að vinna í 18 tíma og fá fjögurra tíma hvíld á sólarhring og það á jafnaðarkaupi. Þetta er mikil törn. Hún stendur stutt yfir og það berst mikill afli á land á stuttum tíma. Nýju reglurnar koma sér einkar illa fyrir þær vinnslur sem höfðu fengið enn til sín starfsmenn sína,“ segir Ólafur.

Hann telur mjög líklegt að reglugerðin nú sem gildi í tvær vikur taki breytingum að þeim tíma liðnum og liðkað verði til með ferðir til landsins. Ólafur fékk síðla árs 2019 Einar frá Myre sem var þá stærsti tefjabátur sem bátasmiðjan Trefjar hafði smíðað, tæplega 15 metra langur og 5,60 metrar á breidd. Hann hefur lagt upp hjá fiskvinnslu sem heitir Holmöy Fiskmottak sem hefur mannskap til að gera að fiskinum.

Algjör mokstur

„Þorskvertíðin er að byrja núna og stendur út febrúar, mars og apríl. Það er ævintýri þegar þorskurinn kemur úr Barentshafinu og flæðir hingað suður eftir til að hrygna og algjör mokstur hjá flotanum. Sumar vinnslurnar eru að taka allt upp í 850 tonn á dag af slægðu. Fiskurinn er einungis slægður, hausaður og flokkaður. Svo er hann sendur áfram í frauðplastkössum þangað sem ódýrara er að vinna hann frekar, til dæmis í Eystrasaltsríkjunum. Magnið er svo mikið á stuttum tíma að hafa verður hraðar hendur á að vinna þetta og koma hráefninu til kaupenda. Svo er talsvert líka saltað hérna til að mynda mest öllum netafiskinum.“

Sjálfur er Ólafur í þeirri stöðu að þurfa að flýja þorskinn eins og hann getur því hann hefur ekki nægan  þorskkvóta. Meðan á vertíðinni stendur er moksturinn slíkur að menn eru að fá tonn á rekka. Ólafur fer því með bátinn á meira dýpi og veiðir ýsu á línu.

Fréttin birtist upphaflega 4. febrúar sl.