mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæti hvatt fleiri fyrirtæki til skráningar

Svavar Hávarðsson
20. febrúar 2021 kl. 09:00

Síldarvinnslan var stofnuð árið 1957 og höfuðstöðvar félagsins í Neskaupstað. Starfsemi félagsins er fjölþætt og þar starfa um 360 manns. Mynd/Þorgeir Baldursson

Skráning Síldarvinnslunnar í Kauphöll í farvatninu.

Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tilkynntu fyrir fáeinum dögum þá ákvörðun sína að hefja skráningu félagsins í Kauphöll. Gangi allur undirbúningur eftir er stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs. Tilkynningin sætir töluverðum tíðindum þar sem að um langt árabil hefur aðeins Brim verið skráð á markað en önnur öflug útgerðarfyrirtæki hafa staðið þar utan.

Þegar allt er talið hafa 25 fyrirtæki er tengjast sjávarútvegi verið skráð í Kauphöll Íslands á einhverjum tímapunkti. Mest urðu þau 24 alls en þar af 19 fyrirtæki í útgerð. Segja má að hæst hafi skráningar sjávarútvegsfyrirtækja risið á árunum 1999-2000 þegar 24 sjávarútvegsfyrirtæki, og flest þau stærstu, voru skráð í kauphöll samtímis. Bent hefur verið á að sjávarútvegurinn hafi farið með stórt hlutverk við að byggja upp íslenska kauphöll á sínum tíma. Má í stuttu máli segja að áratugurinn 1995 til 2004 hafi verið tími sjávarútvegsfyrirtækjanna á Íslandi en fljótlega eftir árið 2000 fækkaði skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum hratt og voru ástæður þess margar og misjafnar.

Öflugt félag

Engum dylst að Síldarvinnslan er eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Fjárfestingar undanfarinna ára í skipakosti, aflaheimildum og tæknilausnum, sem og þær sem framundan eru, sýna það svo ekki verður um villst. Ef aðeins eru nefndar þær fjárfestingar sem eru í farvatninu nú og á allra næstu árum þá er væntanlegt til heimahafnar í Neskaupstað eitt glæsilegasta uppsjávarveiðiskip íslenskrar útgerðarsögu; nýr Börkur. Þá var tilkynnt um það á dögunum að fiskimjölsverksmiðja fyrirtækisins í Neskaupstað verður bylt svo að eftir mun standa langstærsta og fullkomnasta verksmiðja þeirrar tegundar hérlendis. Þá hafa fjárfestingar síðustu ára miðað að því styrkja fyrirtækið í aflaheimildum í bolfiski en það er fyrir stærsti framleiðandi uppsjávarafurða á Íslandi. Lauslega áætlað gæti virði fyrirtækisins verið á bilinu 80 til 100 milljarðar króna, samkvæmt þeim sem fjallað hafa um væntanlega skráningu félagsins eftir að hún var tilkynnt.

Við það tækifæri sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, að skráning í Kauphöll væri hugsuð til að efla félagið og opna Síldarvinnsluna fyrir fjárfestum.

„Með skráningu félagsins á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er framsækin atvinnugrein þar sem stöðugt er unnið að aukinni verðmætasköpun auðlindarinnar samhliða áskorunum í að draga úr kolefnisspori og umhverfisáhrifum greinarinnar,“ sagði Gunnþór.

Af hverju núna?

En hvað hefur breyst, eða er að breytast í umhverfi markaðarins sem hvetur til skráningar sjávarútvegsfyrirtækja núna?

Sérfræðingar Íslandsbanka sem starfa á fjármálamarkaði sem Fiskifréttir leituðu til, telja að samhliða lækkandi vaxtastigi í landinu sé meiri áskorun fyrir fjárfesta að fá ásættanlega ávöxtun á sitt fjármagn. Við slíkar aðstæður eykst eftirspurn eftir hlutabréfum og þá sérstaklega skráðum hlutabréfum. Að öðru óbreyttu hefur það jákvæð áhrif á hlutabréfaverð skráðra hlutafélaga í Kauphöll eins og hefur sést á síðustu misserum.

„Fjárfestar verðleggja jafnan skráð hlutabréf hærra en óskráð hlutabréf meðal annars þar sem upplýsingagjöf hjá skráðum félögum er umtalsvert meiri og einfalt að eiga viðskipti með skráð hlutabréf. Hluthafar óskráðra félaga kunna því í auknu mæli að skoða skráningu í Kauphöll og meta hvort kostirnir séu umfram þá ókosti sem helst hafa verið nefndir, svo sem ákveðinn kostnaður auk þess tíma sem æðstu stjórnendur þurfa að verja til upplýsingagjafar við hluthafa og markaðsaðila,“ segir í svari greinenda Íslandsbanka.

Getur vakið eigendur

Í ljósi sögunnar vaknar jafnframt sú spurning hvort skráning stórs fyrirtækis eins og Síldarvinnslunnar gæti hvatt önnur sjávarútvegsfyrirtæki til að fylgja á eftir.

„Farsæl skráning öflugs fyrirtækis eins og Síldarvinnslunnar í Kauphöll getur vakið eigendur annarra sjávarútvegsfyrirtækja til umhugsunar hvort skráning á verðbréfamarkað geti einnig hentað þeirra félögum. Á undanförnum árum hefur Brim verið eina sjávarútvegsfélag landsins sem er skráð í Kauphöll ef sölufélagið Iceland Seafood er frá talið. Skráning Brims hefur reynst félaginu og hluthöfum þess vel eins og nýlegar eigendabreytingar og gengisþróun hlutabréfa félagsins ber glögglega vott um. Til viðbótar má nefna að skráning fleiri sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöll getur skapað breiðari sátt og stöðugleika um það regluverk og umhverfi sem atvinnugreinin býr við,“ segja greinendur.

Hleypir lífi í markaðinn

Það er jafnframt mat sérfræðinga Íslandsbanka að þar sem Síldarvinnslan er eitt af sterkustu fyrirtækjum landsins „sé það því í eðli sínu áhugaverð viðbót við hlutabréfamarkaðinn þar sem valkostum sparifjáreigenda fjölgar. Ef hlutafjárútboðið, sem væntanlega verður haldið í aðdraganda skráningar félagsins, heppnast vel með breiðri þátttöku þá er skráningin líkleg til þess hleypa enn frekara lífi í markaðinn sem hefur tekið mjög vel við sér á síðustu misserum. Almenningur og stærri fjárfestar, svo sem lífeyrissjóðir, hafa um langa hríð ekki átt stóran eignahlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Fyrirhuguð skráning Síldarvinnslunnar eykur því möguleika fjárfesta á að byggja upp eignasöfn sín hérlendis svo þau endurspegli betur samsetningu efnahags landsins í heild.“

Kostir skráningar

Kostir skráningar geta verið margvíslegir og nefna sérfræðingar Íslandsbanka aukinn sýnileika í formi upplýsingagjafar bæði til hluthafa sem og annarra; birgja, viðskiptavina og starfsfólks. Upplýsingagjöfin sé þó ekki einungis fjárhagsleg heldur hefur áhersla verið að aukast á umhverfis-, félagslega- og samfélagslega ábyrgð. Annar kostur sé aukið aðgengi að fjármagni hjá þegar skráðum hlutafélögum í Kauphöll en breyting hefur orðið á regluverki um lýsingar þar sem að félögum er gert einfaldara fyrir að sækja nýtt hlutafé í síðari útgáfum á markaði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er nefnt í þriðja lagi að skráning hlutafjár getur verið til þess fallin að styrkja samskipti við t.d. banka og eftirlitsaðila, og virki þannig sem ákveðinn gæðastimpill á starfsemi félagsins.

 

Af hverju flúðu fyrirtækin Kauphöllina?

Sem fjárfestingakostur lentu sjávarútvegsfélögin í skugga annarra félaga, sérstaklega lyfja- og fjármálafyrirtækja.

Minnkandi áhugi fjárfesta.

Hagræðing og tæknilegar framfarir fengu ekki verðskuldaða athygli fjárfesta.

Ónógur stuðningur almennra fjárfesta við greinina á tímum erfiðra ákvarðana um hagræðingu.

Lakari ávöxtun hlutabréfa sjávarútvegsfyrirtækja samanborið við ávöxtun annarra félaga, sérstaklega lyfja- og fjármálafyrirtækja.

Pólitísk óvissa viðvarandi í kringum kvótakerfið

Lítið framboð, þröngt eignarhald og fá viðskipti með hlutabréf sjávarútvegsfyrirtækjanna.

Birting uppgjöra og fjárfestatengsl voru álitin skila litlu fyrir félögin.

Ótti stórra hluthafa og stjórnenda við að missa völd.

Gott aðgengi að fjármagni til að fjármagna yfirtökur.

Heimild: Greiningardeild Arion-banka - desember 2018