þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Glittir í góða árganga

9. janúar 2021 kl. 15:00

Útlitið í vexti og viðgangi helstu nytjastofna er ekkert sérstakt næstu árin en þó eru fyrstu mælingar á árgöngum 2019 og 2020 í þorski og ýsu lofandi. Mynd/Þorgeir Baldursson

Haustrall Hafrannsóknastofnunar 2020.

Fyrsta mæling á yngsta árgangi þorsks er sú hæsta frá upphafi mælinga árið 1996. Árgangur þorsks frá 2019 mælist einnig stór. Ýsan sýnir batamerki en í þessum tveimur verðmætu nytjastofnum er útlitið ekkert sérstakt til skemmri tíma litið. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar eru varkárir þegar spurt er um þýðingu þessa, þó mælingin sé jákvæð.

„Fyrstu mælingar á 2019 og 2020 árgöngum þorsks og ýsu benda til þess að þeir séu stórir, sem er mjög jákvætt. Reynslan hefur þó kennt okkur að það er ekki á vísan að róa með þessar fyrstu mælingar og erfitt að segja til um það hversu stórir þeir verða þegar þeir koma inn í veiðina,“ segir Kristján Kristinsson, fiskifræðingur á botnsjávarsviði hjá Hafrannsóknastofnun, um niðurstöður haustralls stofnunarinnar. Niðurstöður þess voru birtar nokkrum dögum fyrir jól.

Um eða yfir meðalstærð

Hér er vísað til þess að árgangur þorsks frá 2019 mældist að þessu sinni vel yfir meðalstærð og fyrsta mæling á yngsta árgangi þorsksins er sú hæsta frá upphafi mælinga 1996.

Almennt segir Kristján að þeir árgangar sem mælast litlir sem seiði séu undir meðalstærð en árgangar sem mælast í upphafi stórir verði um eða yfir meðalstærð.

„Það er lítið vitað hvers vegna 2019 og 2020 árgangar þorsk mælast svona stórir í mælingunni í ár. Stærri hrygningarstofn eykur þó líkur af hærri og stöðugri nýliðun.“

Þessar jákvæðu fréttir ber að skoða í því ljósi að stofnvísitala þorsks samkvæmt haustmælingu hefur lækkað töluvert frá árinu 2017, þegar hún mældist sú hæsta frá upphafi þessara mælinga. Er hún nú svipuð því sem hún var árin 2008-2009.

Svipaða sögu er að segja um ýsuna. Stofnvísitalan hefur haldist svipuð frá árinu 2017. Árgangur ýsu frá 2019 mældist yfir meðalstærð og fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2020 gefa til kynna að hann sé einn af þeim stærstu síðan mælingar hófust 1996

Léleg nýliðun

Þegar litið er yfir sviðið í heild þá má segja að lífmassavísitölur flestra tegunda standi í stað eða lækki miðað við undanfarnar mælingar. Að sögn Kristjáns virðist meginástæðan vera léleg nýliðun hjá mörgum þessara tegunda síðustu árin.

„Það er talsvert áhyggjuefni. Hvað varðar t.d. gullkarfa og djúpkarfa þá er nýliðun mjög gloppótt. Þannig koma óreglulega inn risastórir árgangar, samanber 1985 og 1990 árgangarnir hjá gullkarfa, en þess á milli er langur tími þar sem nýliðun er lítil sem engin. Þetta er þekkt hjá öðrum karfastofnum en ástæður lítt þekktar. Því má búast við að stofnar þessara tegunda haldi áfram að minnka á komandi árum,“ segir Kristján.