fimmtudagur, 25. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa fengið yfir 500 krabbagildrur í einum túr

11. september 2020 kl. 18:00

Dekkið á Reval Viking þakið rusli. Mynd/Eiríkur Sigurðsson

Eiríkur Sigurðsson, skipstjóri á togaranum Reval Viking, hefur séð óhemju magn af rusli koma upp á rækjuveiðum í Smugunni. Helst eru það krabbagildrur sem skildar voru eftir.

Alllengi hafa íslenskir togarar fært allt að landi sem komið hefur í veiðarfærin; allt frá veiðarfæraleifum til hluta úr sokknum skipum. Þegar í land er komið er öllu síðan fargað eftir þeim reglum sem gilda. Það er löngu liðin tíð að öllu sé dembt í hafið í anda gamla máltækisins „lengi tekur sjórinn við“.

Myndasíða Þorgeirs Baldurssonar, sjómanns og ljósmyndara á Akureyri, birtir frétt með spjalli við Eirík Sigurðsson, skipstjóra á togaranum Reval Viking sem hefur stundað rækjuveiðar í Smugunni í hátt í 20 ár.

Hann tjáði heimasíðunni að mikið magn af krabbagildrum hafi verið í Smugunni og hafa skipin sem þar hafa stundað veiðar verið að hreinsa þetta upp í mörg ár en ásamt gildrunum kemur upp mikið magn af tógi.

Ekki síst voru það skip frá fyrrum Sovétríkjunum sem drituðu gildrunum niður og síðan fóru útgerðirnar i þrot og enginn hirti um að sækja þær og þær halda áfram að fiska, að sögn Eiríks en hreinsunarstarfið hefur gengið vel. Hafa þeir verið að koma með allt að 500 gildrum eftir túrinn, hvorki meira né minna.

Tekið skal fram að Ísland á aðild að svonefndum MARPOL-samningi sem er alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum, þar með talinni sorpmengun, olíumengun og loftmengun. Samningurinn er upphaflega frá árinu 1973 en á seinni tímum hafa ýmsir viðaukar og séríslensk ákvæði tekið gildi. Um þessar mundir er hafin flokkun á öllu sorpi og úrgangsefnum um borð í íslenskum skipum og fer förgun síðan fram í landi.