fimmtudagur, 6. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrefnukvótinn í Noregi 1.278 dýr

20. apríl 2021 kl. 07:00

Frá hrefnuveiðum í Faxaflóa. Mynd/HAG.

Í fyrra var einnig leyft að veiða 1.278 dýr og voru 13 bátar gerðir út til veiðanna. Afraksturinn var 503 dýr en var 429 dýr 2019.

Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út óbreyttan hrefnukvóta fyrir yfirstandandi ár frá fyrra ári, alls 1.278 dýr. Í greinargerð frá ráðuneytinu segir að hvalveiðar Norðmanna snúist um réttinn til að nýta náttúruauðlindir landsins. Við veiðarnar sé tekið mið af vísindalegri þekkingu. Auk þess sé hvalkjöt hollur og góður matur og „Norðmenn vilja hrefnukjöt á sinn disk,“ segir Odd Emil Ingebrigtsen sjávarútvegsráðherra.

Yfir 100.000 hrefnur eru úti fyrir ströndum Noregs. Í fyrra var einnig leyft að veiða 1.278 dýr og voru 13 bátar gerðir út til veiðanna. Afraksturinn var 503 dýr en var 429 dýr 2019. Sami kvóti, 1.278 dýr, hefur verið síðastliðin fjögur ár. Veiðin á árunum 2018-2020 er 1.386 dýr.

Ekki eftirspurn

Á tímabili stöðvuðu norsk stjórnvöld hrefnuveiðar einfaldlega vegna þess að ekki var nægileg eftirspurn eftir kjötinu. Nú er staðan hins vegar sú að aukin eftirspurn hefur verið eftir hrefnukjöti í Noregi síðustu misseri og talsvert hefur verið flutt út af afurðunum, meðal annars til Íslands.

„Ég vonast til þess og hef trú á því að þessi aukna eftirspurn eftir hvalkjöti haldi áfram á þessu ári. Í hrefnuveiðum felst sjálfbær nýting sjávarauðlinda okkar,“ segir Ingebrigtsen.

Hrefnuveiðar hafa ekki verið stundaðar við Ísland síðastliðin tvö ár. Þáverandi sjávarútvegsráðherra lokaði veiðisvæðum í Faxaflóa fyrir sumarið 2017 þar sem 82% af öllum hrefnum hafa veiðst undanfarin ár. Rökin voru meðal annars þau að hvalveiðar og hvalskoðunarferðir ættu ekki samleið. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til árlegar veiðar á í kringum 220 dýrum en hrefnuveiðar hafa undanfarin ár verið langt innan ráðlagðs hámarksfjölda Hafrannsóknastofnunar. Vegna lokunar veiðisvæða í Faxaflóa fóru engar hrefnuveiðar fram í fyrra.