þriðjudagur, 1. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísfisktogara bætt inn í uppsjávarskip

Guðjón Guðmundsson
12. nóvember 2020 kl. 16:20

Chieftain, senn Oddeyri EA, verður lengd um 10 metra og breytt fyrir bolfiskvinnslu hjá Karstensens. Aðsend mynd

Samherji fyrstur til að koma með lifandi þorsk að landi.

Samherji ætlar að verða fyrst sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi til þess að reyna fyrir sér í veiðum og geymslu á lifandi þorski. Megintilgangurinn er sá að jafna sveiflur í veiðum, sem óhjákvæmilega verða vegna veðurfars og gæfta, og sveiflur á markaði vegna breytinga sem verða í eftirspurn. 

Hjörvar Kristjánsson, skipaverkfræðingur og verkefnisstjóri á útgerðarsviði Samherja, segir vonir bundnar við það að skipið, sem fær heitið Oddeyri, verði komið heim í apríl og veiðar og geymsla á lifandi afla geti hafist næsta sumar.

Samherji hefur í þessu augnamiði keypt uppsjávarskipið Chieftain af írskri útgerð. Verið er að lengja það úr 45 metrum í 55 metra í skipasmíðastöðinni Karstensens á Jótlandi og breyta því fyrir bolfiskveiðar. Chieftain er hefðbundið uppsjávarskip með tönkum. Það er fremur lítið notað og í mjög góðu standi. Með lengingu skipsins er bætt við hefðbundinni fiskilest og vinnsludekki eins og í ísfisktogurum.

Aðferðin er sú að veiða fisk í hefðbundna botnvörpu. Í stað þess að taka pokann inn á dekk og sturta úr honum er hann tekinn á síðuna og aflanum dælt um borð með sogdælukerfi. Þar fer hann í sérútbúna tanka og haldið þar lifandi. Í framhaldinu er fiskurinn unninn um borð eða komið með hann lifandi að landi.

Jafnar sveiflur í veiðum og á markaði

„Við höfum séð hvern Norðmenn hafa notað þessa aðferð til þess að jafna í raun mun stærri sveiflur í veiðum en við þurfum að glíma við. Hér er þorskveiðin mun jafnari yfir allt árið en þó verða sveiflur, til að mynda út af veðri. En svo eru sveiflur í hinn endann, það er að segja í eftirspurn úti á markaðnum. Að geyma fiskinn lifandi skapar tækifæri til að jafna sveiflur jafnt í veiðum og á markaði,“ segir Hjörvar.

Norðmenn hafa geymt aðrar tegundir lifandi með þessum hætti, eins og til dæmis ýsu og ufsa, en Samherjamenn ætla fyrsta kastið að einbeita sér að geymslu á lifandi þorski. Hjörvar undirstrikar að um tilraun sé að ræða. Hver hin endanlega aðferðafræði verður ræðst af þeirri reynslu sem fæst af veiðunum. Samherji sé þess þó fullviss að framtíð bolfiskveiða sé á þessum nótum. Fyrirtækið er að leggja töluverða fjármuni undir sem undirstrikar þá trú sem það hefur á verkefninu. Ennfremur liggi fyrir að regluverk í kringum svona veiðar hljóti að verða uppfært.

Aukið vinnuhagræði

„Við erum dálítið föst í sömu skorðum hvað varðar reglur um löndun og vigtun og regluverkið þarf að taka mið af því að hægt sé að gera þetta á fleiri en einn máta. Við horfum til þess að geta breytt þessu hefðbundna mynstri sem hefur verið nánast óbreytt frá upphafi. Við sjáum það fyrir okkur að ísfisktogarar okkar verði búnir tönkum fyrir lifandi fisk. Við teljum að norskar reglur um veiðar af þessu myndu passa vel inn í umhverfið hér á landi.“

Hjörvar segir að með því að ganga frá afla lifandi í tanka, eða blóðgaðan/slægðan í RSW tanka, verði til mikið vinnuhagræði fyrir áhöfn.  Mikil vinna er við hefðbundin frágang á afla í lest sem við þetta hverfur alfarið fyrir þann hluta aflans sem fer í tanka.  Eins er breytt fyrirkomulag á löndun, þar sem afla er einfaldlega dælt í land.