föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kláruðu alla túra þrátt fyrir faraldurinn

27. nóvember 2020 kl. 14:20

Mynd/Svanhildur Egilsdóttir

Rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni var haldið úti í 144 daga og Árna Friðrikssyni í 218 daga.

Þrátt fyrir mjög krefjandi ytri aðstæður vegna Covid faraldursins hafa rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar komist í alla rannsóknaleiðangra ársins og ekki misst úr einn einasta túr. Áhafnir og rannsóknarmenn hafa gengist undir skimanir fyrir alla lengri leiðangra og hefur vel verið gætt að sóttvörnum um borð.

Þetta kemur fram í frétt frá stofnuninni.

Bjarni Sæmundsson kom til hafnar í Hafnarfirði úr síðasta túr ársins nú í vikunni eftir stuttan humarleiðangur þar sem sótt voru hljóðdufl sem komið hafði verið fyrir til að hlusta eftir atferli humra í Faxaflóa.

Samanlagðir úthaldsdagar skipanna voru talsvert fleiri í ár en á síðasta ári eða alls 362 samanborið við 326 árið 2019. Rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni var haldið úti í 144 daga og Árna Friðrikssyni í 218 daga.

Árni Friðriksson kom í land 2. nóvember úr haustralli sem var síðasti leiðangur skipsins á þessu ári. Skipið liggur nú við bryggju í Hafnarfirði þar sem m.a. er unnið að fyrirbyggjandi viðhaldi á rafölum þess.