fimmtudagur, 25. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verið líflegt á loðnumiðunum

Guðjón Guðmundsson
18. febrúar 2021 kl. 07:00

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Kap VE kom á mánudagskvöld með fyrsta loðnufarminn sem landað hefur verið í Vestmannaeyjum í tvö ár.

Aflinn fékkst í tveimur köstum í Meðallandsbugt vestur af Ingólfshöfða. Þar hafa uppsjávarskip Síldarvinnslunnar og Brims líka fengið góðan afla. Jón Atli Gunnarsson skipstjóri kveðst bjartsýnn á góða loðnuvertíð.

Kap staldraði stutt við á miðunum og keyrði til lands með einungis um 260 tonn sem hugsuð voru til þess að koma vinnslunni í gang hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Norðmenn hafa ekki landað loðnu í Eyjum á yfirstandandi vertíð. Því var þetta fyrsti farmurinn sem þangað berst í tvö ár. Verið var að landa úr Kap þegar rætt var við Jón Atla sem sagði að það yrði farið af stað á ný strax að lokinni löndun. Næst væri stefnt á stærri skammta.

Ekki kastað nót í 3 ár

„Það var tiltölulega lítil áta í þessu og hrognafyllingin um 16%. Aflinn hentar því vel í heilfrystingu fyrir Japansmarkað. Þegar hrognafyllingin verður komin yfir 21% fara verksmiðjurnar að að kreista hrognin úr henni og frysta. Við fengum þennan afla í tveimur köstum. Við komum fyrst inn í þessa veiði við Skaftárósa og vorum aðeins vestan við Austfjarðabátana. Þetta var ekki beinlínis í formi þarna um morguninn en skánaði mikið þegar leið á daginn,“ segir Jón Atli.

Stímið úr Meðallandsbugt til Eyja er 7-8 klukkustundir. „Við höfum náttúrulega ekki kastað nót í þrjú ár. Það þarf allt að snúast rétt og menn að viðhafa rétt handtök. Ég eiginlega fagnaði því bara að ná að kasta tvö köst án þess að nokkuð færi úrskeiðis. Það þarf að slípa hlutina til og koma öllu í gang. Þá streyma líka inn krónur í kassann og ríkiskassann líka,” segir Jón Atli.

900 tonn í 2 köstum

Kap er ekki einn á miðunum. Beitir NK landaði á þriðjudagsmorgun 900 tonnum sem fékkst í fjórum köstum í Meðallandsbugtinni. Tómas Kárason skipstjóri segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar að talsvert mikið hafi verið að sjá af loðnu sem hafi hlaupið upp í fjöruna í álandsvindi. 40% aflans var átulítil hrygna með 13-14% hrognafyllingu. Venus NS kom svo með fyrstu loðnuna til Vopnafjarðar í tvö ár, alls um 560 tonn sem fékkst í tveimur köstum í Meðallandsbugt. Heimstímið þaðan tekur um 20 klukkustundir. Samkvæmt sýnum var hrognafyllingin komin í 16,2% sem hentar vel til heilfrystingar fyrir Japansmarkað. Á sama tíma eru 9 norsk uppsjávarskip í loðnu suðaustur af Papey svo ljóst er að loðna er á víðáttumiklu svæði úti fyrir Suðaustur- og Suðurlandi.

Norðmenn að klára

Norðmenn áttu á þriðjudag eftir óveidd 4.300 tonn af 41.800 tonna kvóta sem þeir fá samkvæmt samningum Íslands og Noregs.

„Það getur verið loðna mjög víða og það hefur meira að segja frést núna af loðnu í fiski hérna við Vestmannaeyjar. Þetta stemmir við það sem gerðist á árum áður þegar loðna var komin í fisk við Eyjar þegar veiðar voru að hefjast í Meðallandsbugt,“ segir Jón Atli.

Hann telur að innan tíðar sé líklegt að gangan þéttist uppi í fjörunni og verði veður hagstætt til veiða ætti að vera gott að eiga við loðnuna uppi í fjöru. „Ég hef ekki trú á öðru en á næstu dögum verði fínasta veiði en kvótinn er ekki stór. Þess vegna verður reynt að vinna hvert einasta kíló eins og hægt er svo lítið sem ekkert fari í bræðslu. Útlendingar eru nú með 45% af kvótanum en þegar ég var að byrja í þessu um miðjan tíunda áratuginn vorum við með um 78% af kvótanum. En hlutföllin riðlast þegar loðnukvótinn er svona lítill og við erum í skuld við Norðmenn vegna gerðra samninga,“ segir Jón Atli.