laugardagur, 16. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með tvo bræðrabáta í drift

Guðjón Guðmundsson
17. september 2021 kl. 09:00

Elís Pétur Elísson, útgerðarmaður, fiskverkandi, harðfisk- og bjórframleiðandi. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Elís Pétur Elísson á Breiðdalsvík skiptir á bátum við GPG á Húsavík.

„Ég er reyndar norður í Öxarfirði á hestbaki og á leiðinni að smala fé,” sagði Elís Pétur Elísson, útgerðarmaður, fiskverkandi, harðfisk- og bjórframleiðandi sem nýlega hafði bátaskipti við GPG á Húsavík. Þar með bættist Einar Hálfdáns ÍS, áður Óli á Stað, í flota GPG en Elís fékk í staðinn Halldór NS sem senn breytir um nafn og verður Áki í Brekku SU 760.

Elís hafði keypt Einar Hálfdáns fyrr í sumar frá Bolungarvík, aðallega í þeim tilgangi að komast yfir dálítinn kvóta. Honum fylgdi nefnilega um 180 tonna steinbítskvóti, 12 tonn af ýsu og 50 tonn af ufsa. Elís hafði líka keypt Jóa ÍS og með honum fylgdi 20 tonna þorskkvóti.

„Áki í Brekku er Gáski 1280, nákvæmlega eins bátur og Elli P SU sem við gerum líka út. Það hefur verið takmark mitt í töluverðan tíma að ná mér í annan Gáska. Strákarnir sem eru að róa hjá mér og ég líka, erum mjög ánægðir með þessa báta. Þeir eru einfaldir, eyðslugrannir og hagkvæmir í rekstri. Auk þess eru þetta frábærir sjóbátar og henta mjög vel í það sem við erum að gera,” segir Elís.

Með 36 manns í vinnu

Bátarnir eru báðir smíðaðir árið 2006 og báðir með beitingavél og 17 þúsund krókum. Þrír til fjórir eru í áhöfn hvors báts. Auk þess gerir Gullrún ehf., annað útgerðarfélag Elíss, út snurvoðarbátinn Silfurborg SU, áður Njál RE.

Elís rekur vinnslu á Breiðdalsvík og heldur úti atvinnu fyrir um 36 manns. Þar hjálpar mikið til 400 tonna byggðakvóti og auk eigin kvóta hefur Elís þurft að leigja kvóta til að halda bátunum í drift. Hann kveðst stefna að því á hverju ári að auka við sig kvóta því afkoman sé ekki mikil af rekstrinum þurfi að leigja mikinn kvóta, nema þá með botnlausri vinnu og útsjónarsemi.

Stefnir á saltfiskverkun

Elís rekur einnig Kaupfélagið, sem er verslun, kaffihús og veitingastaður á Breiðdalsvík og á í félagi við aðra brugghúsið Beljanda. Þá starfrækir hann vélsmiðju sem þjónustar hans eigin útgerð, annast löndunarþjónustu og fiskmarkaðinn á staðnum. Þá er fyrirtæki hans með flutningastarfsemi með tveimur flutningabílum sem m.a. flytja steinbít suður til Nesfisks í Garði.

„Við erum í raun mest í hraðri forvinnslu. Við hausum, slægjum og flökum, mest okkar eigið hráefni hérna á Breiðdalsvík, og erum í samstarfi við Búlandstind. Hráefnið er flutt á Djúpavog til Búlandstinds sem klárar vinnsluna í léttsaltaðar eða ferskar afurðir. Svo seljum við líka eitthvað af heilum fiski og við slægjum líka mikið fyrir aðra, eins og til dæmis Samherja, ÚA, Icefresh og ýmis útflutningsfyrirtæki,” segir Elís.

Fiskurinn er flakaður í flökunarvélum og þá er í skoðun að bæta við flatningarvél fyrir saltfiskframleiðslu úr ufsa fyrir Portúgal.

Þá er þó ekki allt upptalið því um síðustu áramót bættist við harðfiskvinnsla sem hefur farið ágætlega af stað. Keypt voru tæki frá Akranesi sem gerir fyrirtækinu kleift að framleiða staðlaða vöru og það ætlar sér stærri landvinninga á þessu sviði.