föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Messagutti sem varð skipherra

Guðjón Guðmundsson
26. desember 2020 kl. 09:00

Halldór Nellet

Halldór Benoný Nellett, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, hefur staðið vaktina nánast sleitulaust í 48 ár. Hann er nú kominn í land eftir viðburðaríkan og farsælan feril.

Halldór lætur af störfum að eigin ósk nú þegar hann er að verða 65 ára gamall og finnst vera nóg komið. Nú hefur hann í hyggju að njóta annarra lystisemda sem lífið hefur upp á að bjóða. Vinnan hafi alltaf verið sett í fyrsta sæti. Nú gefist betri tími til að sinna fjölskyldunni og öðrum hugðarefnum.

Halldór hefur verið samferðamaður þjóðarinnar í gegnum tvö þorskastríð og unnið með áhöfnum sínum að björgun mannslífa á Íslandi og í Miðjarðarhafinu.

Kominn víða að

Halldór skipherra á ættir að rekja í móðurlegg í Skagafjörðinn til langafa síns Jakobs Gunnarssonar sem var af svokallaðri Skíðastaðaætt.

„En ég á líka ættir að rekja til Suðurlands, Bandaríkjanna og Frakklands ef út í það er farið. Ég er því dálítið blandaður. Langalangafi minn var franskur sjómaður sem skolaði hingað upp á strendur Íslands í apríl 1818 þegar franska fiskiskútan Morgunroðinn (L‘Aurore) strandaði í Skálafjöru í Meðallandi í suðaustanstormi rigningu og þoku. Skömmu fyrir strandið hafði skipið laskast, er brotsjór féll á það, afturmastur brotnaði og féll fyrir borð og stýri skemmdist.

Skipið var um um 50 smálestir að stærð og skipshöfn fámenn; ellefu manns. Hún bjargaðist öll. Volkaðir skipverjarnir voru háttaðir ofan í rúm hjá heimilisfólki á næstu bæjum. Þessi forfaðir minn, sem hét  Louis Henry Joseph Vanderoruys  31 árs að aldri var drifinn kaldur og slæptur upp í rúm hjá vinnukonu sem hét Valgerður. Henni tókst heldur betur að koma lífi í hann. Einhverjum níu mánuðum seinna fæddist langafi minn, Benoný Hinriksson. Nú er kominn stór ættbogi út frá Henry sem dreifist víða undir Eyjafjöllum og nær meira segja til Vestmannaeyja. Binni í Gröf sá mikli aflaskipstjóri og móðir mín eru systkinabörn og afkomendur skipbrotsmannsins frá Dunkerque. Faðir minn hét William Nellett og var hér með bandaríska varnarliðinu árið 1955. Einhvers staðar fann hann móður mína og svo fæddist ég 14. febrúar 1956. Ég á því ættir að rekja norður í Skagafjörð, á Suðurlandið, til Frakklands og Bandaríkjanna. Það þarf genablöndun, annars er stórhætta á úrkynjun, eins og allir vita. Þessir frönsku og spænsku sjómenn sem hafa komið hingað upp eftir hafa kannski bjargað íslenska kynstofninum þótt hann sé nú reyndar ágætur eins langt og hann nær,“ segir Halldór og kímir.

Draumurinn um sveitina

Afi Halldórs, Benoný Benonýsson sem fæddist að Tjörnum undir Eyjafjöllum og var síðan lengst af  kaupmaður í Reykjavík.  Það lá því beint við að Halldór og systkini hans færu þangað í sveit til ættingjanna sem börn. Þangað fór líka Benoný Ásgrímsson, sem er  þjóðkunnur flugstjóri hjá Gæslunni. Benoný og Halldór eru systkinabörn. Benoný var á sumrin á  Núpi og Halldór á Eystri-Skógum allt árið, alveg frá 8 ára aldri fram til 16 ára aldurs. Hann gekk í barnaskólann á Skógum og síðan í Héraðsskólann.

„Ég átti orðið heilan hest og tvær kindur. Mér leið mjög vel í sveitinni og draumurinn var alltaf að gerast bóndi. Þegar ég fór fyrst til sjós 16 ára gamall var það með því hugarfari að safna í sjóð til að komast í Bændaskólann. Ég komst að á varðskipunum en planið var alltaf að fara í nám á Hvanneyri eða Hólum. Ég ætlaði að gerast bóndi.“

Halldór tók sér frí frá námi veturinn 1972. Til stóð að vinna og safna digrum sjóð til að geta hafið nám í landbúnaðarfræðum. Hann flutti til borgarinnar og fékk vinnu á trésmíðaverkstæðinu Víði á horni Laugavegs og Nóatúns. Guðmundur Guðmundsson forstjóri átti og rak fyrirtækið. Hann var iðulega nefndur Guðmundur blindi því barnungur hafði hann misst sjónina í slysi. Guðmundur var landsþekktur fyrir gæðaframleiðslu á húsgögnum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Halldór segir að það hafi verið stórmerkileg reynsla að vinna við hlið Guðmundar. Hann hafi gengið til allra verka og unnið vandasöm störf á hinum ýmsum vélum eins og væri hann með fulla sjón.

Fyrsta sinn í flugvél og á sjó

Haustið 1972, þegar Halldór var 16 ára, fékk hann pláss á varðskipinu Ægi. Skipið var þá í höfn á Akureyri. Halldór steig þá í fyrsta sinn um borð í flugvél og flaug norður. Þá var nýbúið að færa landhelgina út í 50 mílur og annað Þorskastríðið hafið. Guðmundur Kærnested var skipherra og Halldór messagutti. Hann hafði ekki áður á skipsfjöl stigið. Nokkrum dögum áður en Halldór sigldi í fyrsta sinn hafði Ægir klippt trollið aftan úr togaranum Peter Scott. Það var hiti að færast í leikinn. En Halldór þurfti fyrst að taka út manndómskírnina; sjóveikina hvimleiðu.

„Ég hef sagt að það sé ekki besti staður til að byrja til sjós að vera innilokaður í eldhúsi í steikjarbrælu á varðskipi sem eltir togara út um allan sjó. Ég var rænulaus af sjóveiki fyrstu dagana. En það var engin miskunn hjá Hauki heitnum Jónssyni bryta þeim ágæta manni að hleypa mér í koju, áfram skyldi unnið.  Við vorum tveir messar í 24 manna áhöfn. Á þessum árum varð að bera allt á borð fyrir áhöfnina og það voru hvítir dúkar á borðum og allt handuppvaskað. Ég held að það hafi ekki einu sinni verið búið að finna upp orðið „uppþvottavél“.  Svona var tíðarandinn. Þegar Ægir kom nýr til landsins 1968 var einn stór matsalur þar sem allir borðuðu saman. Yfirmennirnir stjórnborðsmegin og hásetarnir bakborðsmegin. Sumir yfirmenn af gamla skólanum voru ósáttir við fyrirkomulagið. Þeir náðu því fram að sett var upp þil sem aðskildi þá frá óbreyttum. Í dag er þetta með allt öðrum hætti. Við erum með kaffiteríu og hver maður nær sjálfur í sinn mat og allir borða saman.  Svo þegar ég varð yfirmaður þurfti ég fljótlega að ná í minn mat sjálfur segir Halldór kíminn.

Háseti á varðskipinu Hval-Týr

Sjóveikin rjátlaðist af unga messaguttanum en þó ekki fyrr en að þremur mánuðum liðnum þegar hann hafði unnið sig upp í viðvaninginn og komst upp á dekk. Halldór var á Ægi frá haustinu 1972 og fram á árið 1973. Honum er minnistætt frá þessum tíma, eins og þjóðinni allri, þegar eldgosið í Heimaey hófst 23. janúar 1973. Ægir var hafður til taks á svæðinu skyldi eitthvað koma upp á. Hann var líka mikið í flutningum milli Þorlákshafnar og Eyja með sjálfboðaliða og járnplötur til að loka húsagluggum og annan búnað.

„Það var sett stopp á Þorskastríðið meðan á þessu stóð og við áttum ekkert við Bretann á meðan. Hann fékk að veiða óáreittur alveg frá því að gosið hófst og fram í miðjan mars.“

Þegar aftur var tekið til við að hrekja tjallana út úr landhelginni var Halldór kominn á Óðinn. Staldraði þó stutt við og fór skömmu síðar á Hval 9. Gæslan hafði tekið hvalinn á leigu og gert að varðskipi. Þar var okkar maður háseti frá mars og fram í maí.

„Það var hægt að þræla Hvalnum alveg upp í 16 mílur. Hvalur fékk á þessum tíma nafnið Týr og var alltaf kallaður Hval-Týr. Hann var líka afskaplega lipur og nánast hægt að snúa honum á punktinum. Mig minnir að fyrirtækið Hvalur hf. hafi ekki verið tilleiðanlegt að leigja hann til Gæslunnar. Stjórnvöld hafi því þurft að taka hann eignarnámi.  Ég hefði reyndar ekki viljað hugsa þá hugsun til enda hefði einhver keyrt á okkur. Vélarrúmið var örugglega 60-70% af skipinu. Það hefði varla þurft að spyrja að leikslokum hefði komið gat á það. En alltaf slapp þetta og alltaf tókst okkur að skáskjóta okkur á milli togara sem reyndu að keyra okkur niður öllum stundum þegar við vorum önnum kafnir við að reyna að klippa aftan úr þeim eða halda þeim frá veiðum með stanslausri áreitni. Við skutum líka með fallbyssunni á nokkra togara man ég. Helgi Hallvarðsson hafði verið skipherra rétt áður en ég kom um borð en Bjarni Helgason var tekinn við. Eitt sinn klipptum við aftan úr einhverjum togaranum og fengum í kjölfarið heila togarastrollu á eftir okkur og einhverja dráttarbáta líka. Allir í hefndarhug. Þeir ætluðu að sigla okkur niður og taka okkur endanlega úr leik. Bjarni ákvað á flóttanum að snúa við á punktinum og sigla beint á móti þeim. Byssurnar voru mannaðar og Bjarni hótaði að skjóta. Þegar Tjallinn svaraði engu fyrirskipaði Bjarni að skotið yrði viðvörunarskoti. Það lenti í sjónum svo það reis upp myndarleg súla. Bretarnir sáu þá að okkur var alvara. Þeim brá og það myndaðist geil í skipaþvögunni. Hana nýttum við til að forða okkur. Þarna sluppum við með skrekkinn og komumst inn fyrir tólf mílurnar þangað sem Bretarnir hættu sér sjaldnast. Það mikilvægasta var að þeir gátu ekki almennilega stundað veiðarnar með okkur litlu púkana hangandi alltaf yfir sér. Oft þorðu þeir ekki að kasta ef þeir vissu að við vorum á næsta leiti. Þeim var meinilla við að missa troll í sjóinn því þá var túrinn auðvitað bara búinn með tilheyrandi peningatapi. Sumir voru reyndar með varatroll og víra og gátu reddað sér en ekki allir. Þetta voru skrautlegir tímar fyrir ungan mann að taka þátt í þessu.“

Allt samkvæmt fyrirmælum skipherra

Sumarið ´73 munstraði Halldór sig á varðskipið Albert og í framhaldinu á Þór og Árvakur. Hann safnaði dýrmætri reynslu í sarpinn þegar hann var á Árvakri. Verkefnin fólust m.a. í því að þjónusta baujur og vita hringinn í kringum landið. Draumurinn um að verða bóndi lifði enn. Halldór var þó orðinn tvístígandi varðandi framtíðaráformin þegar hann  varð háseti á Baldri árið 1976. Þá var búið að færa landhelgina út í 200 mílur. Höskuldur Skarphéðinsson skipherra og hann hataði Tjallann eins og pestina. Hann laskaði marga freigátuna með því að beita afturenda Baldur gegn freigátunum þegar árekstur var yfirvofandi.

„Höskuldur var lúnkinn í því að beita Baldri þannig að setja afturhornin í síðu freigátanna og rista þær upp eins og sardínudósir. Áður vorum við búnir að styrkja afturhornin sérstaklega með níðsterkum beittum járnplötum.  Þær þurftu margar frá að hverfa freigáturnar eftir þessa meðferð. Við vorum alltaf tveir fastir á stýrinu hjá Höskuldi og aðrir hásetar í öðrum hlutverkum. Einhver var á togvíraklippunum en ég var alltaf á stýrinu og því ábyrgur fyrir mörgum ristunum, en allt samkvæmt fyrirmælum skipherra.“

Eftir veru sína á Baldri lagði Halldór endanlega á hilluna þau áform að gerast bóndi. Hann innritaðist í Stýrimannaskólann og kláraði þriðja stigið 1980. Öll sumrin var hann á varðskipum Landhelgisgæslunnar. Á þessum árum var Pétur Sigurðsson forstjóri en Halldór hafði ekki mikil persónuleg kynni af honum. Pétur var forstjóri frá því Landhelgisgæslan var gerð að sjálfstæðri stofnun árið 1951 til ársins 1981 þegar hann lét af störfum fyrir aldurssakir. Eftirmaður hans var Gunnar Bergsveinsson sem lét af störfum 1993 og við keflinu tók Hafsteinn Hafsteinsson sem gegndi starfinu til ársloka 2004. Georg Kr. Lárusson var skipaður forstjóri Landhelgisgæslunnar 22. desember það ár og gegnir stöðunni enn.  Halldór hefur því starfað undir fjórum forstjórum á þeim tæpu fimm áratugum sem hann hefur verið hjá Gæslunni.

Sigmaður og spilmaður

Þegar Halldór útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum 1980 var staða stýrimanns hjá Gæslunni ekki laus og ekkert útlit fyrir það á næstunni. Hann réði sig í farmennsku hjá Eimskipafélaginu og var stýrimaður bæði á Bæjarfossi og Stuðlafossi og fleiri skipum. Hann sigldi bæði til Evrópu og Bandaríkjanna og segir þessi þrjú ár hafa verið lærdómsrík og skemmtileg. Sumarið ´82 tók hann sér frí frá Eimskip og var á togbátnum Barðanum GK sem strandaði svo á Hólahólum við Snæfellsnes aðeins fimm árum síðar. Þar vann áhöfn björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, TF SIF, frækilegt björgunarafrek þegar henni tókst að koma áhöfn Barðans, alls níu manns, um borð í þyrluna við erfiðar aðstæður.

„Á Barðanum var skipstjóri Halldór Halldórsson eða Dóri sterki eins og hann var kallaður. Það var fínt að vera með nafna og þegar ég kom um borð man ég að mér fannst heldur fátæklegt af sjókortum, sirklum og öðrum græjum sem vanalega eru í brú skipa og bætti ég úr því. Ég tók síðan eftir því þegar við vorum að toga undan Reykjanesinu að Dóri var ekkert mikið að nota græjurnar í brúnni, hann var alltaf að horfa til einhverra miða í landi og notaði það mikið og fiskaði vel.“

Sumarið 1983 var Halldór í afleysingum á varðskipunum Tý og Ægi og var í framhaldinu fastráðinn stýrimaður um haustið. Eitt sumarið var hann í sjómælingum og 1986 var falast eftir kröftum hans í þyrludeild Gæslunnar. Mörg áföll höfðu dunið yfir og skemmst var að minnast þess þegar TF RÁN fórst í Jökulfjörðum þann 8. nóvember 1983 með fjögurra manna áhöfn. Margir voru á því að Landhelgisgæslan skyldi hætta þyrlurekstri í ljósi tíðra áfalla. Aðrir sáu mikilvægi þess að þyrlur væru hluti af leitar- og björgunartækjum stofnunarinnar. Þeir sem beittu sér hvað mest í málinu voru Benoný Ásgrímsson og Páll Halldórsson flugstjórar og Sigurður heitinn Steinar Ketilsson skipherra.

Eins og aðrir stýrimenn hjá Landhelgisgæslunni hlaut Halldór þjálfun í því að vera spilmaður og sigmaður um borð í þyrlunum. Þjálfunin fólst ekki síst í því að fínpússa samspil milli spilmanna og flugstjóra. Fenginn var sérfræðingur erlendis frá, Brian Johnstone frá Helicopter Service á Englandi, til að byggja upp þessa kunnáttu. Halldór segir Gæsluna enn búa að því og þeim handbókum sem gerðar voru eftir námskeiðið 1986.

„Á þessum árum sinntu stýrimenn hlutverki sigmanns og spilmanns. Mér fannst það gott fyrirkomulag að geta gripið í það að hanga í vírnum og að stjórna spilinu því þá fékk maður betri yfirsýn og tilfinningu hvernig samspil þessara tveggja væri best háttað. Núna eru flugvirkjar spilmenn og stýrimenn eru sigmenn.“

„Karlinn“

Halldór var viðloðandi flugdeild Gæslunnar í um tíu ár, sem spil- og sigmaður á þyrlunum og siglingafræðingur á eftirlitsflugvélinni TF-SYN sem nú er á flugminjasafninu á  Akureyri. Hann segir þetta hafa verið lærdómsríkan tíma. Eins og gefur að skilja voru verkefnin misjöfn og aðstæður oft hörmulegar á vettvangi slysa. Á þessum árum var ekki farið að veita þeim áfallahjálp sem unnu við slíkar aðstæður. Menn unnu úr reynslunni með sjálfum sér. Þær stundir voru líka gefandi og ánægjulegar þegar vel tókst til með björgun manna úr bráðum háska. Þann tíma sem Halldór var í flugdeildinni fór hann reglulega líka á varðskipin til að viðhalda þeirri kunnáttu. 1992 leysti hann af sem skipherra á Óðni, sem nú liggur bundinn aftan við Kaffivagninn á Granda, þar sem blaðamaður ræðir við Halldór. Hann var þá 36 ára gamall og ekki elsti maðurinn um borð. Hann minnist þess hve skrítið honum fannst þegar menn í áhöfninni á sextugs- og sjötugsaldri kölluðu sig „karlinn“.

Vaknað undir glerplötu

1996 varð Halldór fastráðinn skipherra á Ægi, þá fertugur. Eitt af fyrstu verkefnunum var að sigla langt suður í höf og vera þar við veðurathugunir í tvo mánuði á vegum Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar. Fjögur skip tóku þátt í verkefninu, bandarískt, franskt og úkraínskt auk Ægis. Þeim var raðað frá 1.000 sjómílum suður af Íslandi og langleiðina að Azoreyjum. Skipin mældu vetrarlægðirnar sem komu vestan frá Nýfundnalandi og geystust austur yfir hafið.

„Við vorum nyrstir á Ægi, á minnsta skipinu þar sem versta veðrið var alltaf. Skipin færðu sig svo suður og norður eftir því hvernig lægðirnar gengu. Við vorum því alltaf í verstu veðrunum og slepptum upp loftbelgjum á þriggja stunda fresti fyrir háloftaathuganir. Það kom þó fyrir að það var ekki framkvæmanlegt vegna veðurhamsins. Okkur var sagt að verkefnið hefði tekist alveg frábærlega og fengum við sérstakt hól fyrir að senda frá okkur veðurskeyti allan tímann verandi í versta veðrinu. Það var tekið fram að úrvinnsla gagnanna myndi duga næstu 20 árin til þess að bæta veðurspárnar.“

Þessa tvo mánuði gengu tæplega 60 lægðir yfir hafsvæðið og fengu þær hver sína númerarunu. Einn daginn barst skeyti til Halldórs frá stjórnendum verkefnisins í Toulose í Frakklandi. Þar sagði að svo virtist sem Lægð númer 43, sem var yfirvofandi og stefndi í að verða mjög djúp með tilheyrandi fárviðri yrði „einstaklega skemmtilegt viðfangsefni“ (e. Low no. 43 seems to be a very nice case). Halldór kveðst hafa bölvað í hljóði og gert sér grein fyrir því að með sínum augum lítur hver silfrið.

„Menn vöndust þessu þó furðufljótt. Ægir var afburðagott sjóskip. Við lónuðum bara upp í óveðrið og ég lét nú alltaf setja hlera fyrir gluggana í brúnni, fyrr en seinna. Það var auðvelt að setja þá fyrir gluggana, þeir voru sérstaklega hannaðir til þess og klárir innanfrá. Það hefði ekki verið neitt grín af fá inn glugga með brotsjó. Stærstu sjóir voru þarna yfir 20 metra háir.  Það hefði getað stórslasað menn og við misst út öll tækin meira eða minna. Eina nóttina vaknaði ég við það að einhver fjandi var kominn upp í koju til mín. Það hafði losnað glerplata af skrifborðinu mínu við eitt brotið og flogið upp í koju til mín. Samt hafði platan verið skrúfuð niður með járnvinklum. Ég vaknaði undir glerplötunni og heppinn að hún brotnaði ekki.“

Björgun mannslífa

Segja má að Halldór hafi komið víða við á starfsferli sínum hjá Gæslunni. Hann fór í land árið 2006 og var framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs í um sex ár. Þó fór hann af og til sem skipherra í Miðjarðarhafið í verkefni á vegum Frontex, evrópsku landamærastofnunarinnar. Verkefnið fólst í því að leita að og bjarga flóttamönnum sem lagt höfðu leið sína frá Afríkulöndum á smábátum til að leita betra lífs í Evrópu. Eitt sinn á Týr dró hann vélarvana skip til hafnar á Ítalíu með 360 flóttamönnum og í annað sinn var svipuðum fjölda bjargað í Tý úr sökkvandi bát. Í heildina stóð hann með áhöfn sinni fyrir björgum á yfir eitt þúsund flóttamönnum í Miðjarðarhafinu. Sem framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs var hann í sex vikur fulltrúi Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð Frontex í Madríd.

Varðskipið Þór kom nýtt til landsins 2011 og var Sigurður Steinar Ketilsson heitinn skipherra. Tveimur árum seinna var Halldór farinn að leysa af Sigurð Steinar og stuttu seinna voru þeir tveir skipherrar á Þór. Þegar Sigurður Steinar lét af störfum í apríl 2018 tók Halldór við sem eini skipherra varðskipsins. Löngum og farsælum ferli Halldórs hjá Landhelgisgæslunni lauk svo þegar Þór lagðist að bryggju 9. desember síðastliðinn.