sunnudagur, 11. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikið af mengandi efnum í hluta háhyrningsstofnsins

30. mars 2021 kl. 10:00

Háhyrningur við Vestmannaeyjar. MYND/Sara Tavares

Í ljós kom að níu sinnum meira af mengandi efnum fannst í háhyrningum sem voru með blandað fæðu en þeim hópi sem aðeins át fisk.

Margfalt meira magn þrávirkra mengandi efna finnst í háhyrningum sem nærast bæði á fiski og spendýrum við Íslandsstrendur en þeim sem aðeins nærast á fiski. Magnið er svo mikið að það er hættulegt heilsu dýranna. 

Þetta sýnir ný rannsókn alþjóðlegs hóps vísindamanna, þar á meðal við Háskóla Íslands, sem var að birtast í vísindatímaritinu Environmental Science and Technology. Fjallað er ítarlega um rannsóknina á vef Háskóla Íslands.

Þar segir að markmið rannsóknarinnar var að skoða magn svokallaðra þrávirkra lífrænna efna, með sérstaka áherslu á svokölluð PCB-efni, í háhyrningum við Ísland. Slík efni berast út í umhverfið og lífríkið vegna athafna manna, m.a. í iðnaði. Þaðan berast þau í vefi dýra í gegnum fæðu þeirra. Efnin safnast upp í fæðuvefjum og með svokallaðri lífmögnun eykst magn þeirra eftir því sem ofar er komið í fæðukeðjunni en háhyrningar tróna einmitt á toppi hennar í hafinu. Þessi mengandi efni geta bæði haft áhrif á ónæmiskerfi dýranna og minnkað frjósemi þeirra og þannig haft áhrif á vöxt háhyrningastofna, segir í umfjöllun HÍ.

Rannsóknin sem um ræðir var unnin undir forystu vísindamanna við McGill-háskóla í Kanada en að henni komu einnig vísindamenn við Carleton-háskóla í Kanada, Árósaháskóla í Danmörku, Hafrannsóknastofnun og við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum sem lýtur forystu Filipu Samarra.

Filipa og samstarfsfólk hafa undanfarin ár unnið að rannsóknum á háhyrningum í verkefni sem kallast Icelandic Orca Project en þær hafa m.a. leitt í ljós að fæðuval og hegðun háhyrninga við Ísland er mismunandi. Hluti stofnsins dvelur hér allt árið og eltir síldarstofninn á ferð hans í kringum landið og nærist fyrst og fremst á honum. Hinn hluti hópsins lifir hins vegar bæði á síld og spendýrum, eins og selum, og dvelur m.a. við Skotland hluta úr ári.

Níu sinnum meira 

Með því að taka sýni úr húð háhyrninga, sem aflað var með sérstökum örvum sem skotið var í dýrin, gat hópurinn rýnt í fitulag húðarinnar þar sem mengandi efnin safnast upp. Sýnin veita m.a. erfðaupplýsingar um dýrin, fæðu þeirra og heilsu og ýmsar aðrar mikilvægar upplýsingar um hvert og eitt dýr. Með hjálp gagnagrunns, sem hefur að geyma myndir af háhyrningum sem sést hafa við Ísland á árunum 2006-2015, og upplýsingar um fæðu þeirra og ferðir gátu vísindamennirnir tengt saman sýni við einstaklinga. Þannig gátu þeir jafnframt flokkað dýrin í tvo hópa, þá sem voru á „blönduðu fæði“, þ.e. átu bæði fisk og spendýr, og þá sem virtust eingöngu borða fisk.

Í ljós kom að níu sinnum meira af mengandi efnum fannst í háhyrningum sem voru með blandað fæðu en þeim hópi sem aðeins át fisk. Þá sýndu niðurstöðurnar einnig að í öllum tilvikum reyndist magn mengandi efna í háhyrningum með blandað fæði yfir mörkum sem teljast skaðleg heilsu dýranna. Það bendir til þess ógn við heilsu þess hóps sé meiri en við heilsu þeirra háhyrninga sem eingöngu éta fisk.

„Þetta eru mjög mikilvægar niðurstöður því þær leiða í ljós að lifnaðarhættir þessa stofns eru flóknir og ólíkir hlutar hans glíma mögulega við mismunandi ógnir. Nýleg líkanarannsókn sýndi að almennt býr íslenski háhyrningastofninn ekki við ógn við heilsu sína. Þar var hins vegar ekki tekið tillit til þessarar ólíku fæðuhegðunar innan stofnsins sem sýna að ólíkir hópar geta glímt við mismunandi ógnir. Rannsóknin sýnir að ekki er hægt að taka meðaltal í heilum stofni heldur verður að rannsaka áfram einstaka hópa innan hans til að öðlast betri skilning á því hvernig þeim og einstaklingum reiðir af. Taka verður tillit til þessa breytileika innan stofna þegar kemur að því að taka ákvarðanir um verndun og stýringu stofnstærðar til framtíðar,“ segir Filipa Samarra, einn höfunda greinarinnar og sérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum, um þýðingu niðurstaðnanna.