sunnudagur, 25. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minni frátafir frá veiðum og betra tóm til þrifa

Guðjón Guðmundsson
6. október 2020 kl. 13:49

Undir tönkunum er dæluhús og þar er búnaður sem dælir loðnunni um neðanjarðarrás inn í hrognavinnsluna. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Fjórir 2.000 rúmmetra tankar risnir í Vestmannaeyjahöfn.

Fjórir hráefnistankar, sem hver um sig tekur um 500 rúmmetra, hafa verið reistir við fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Skiptar skoðanir eru meðal bæjarbúa um framkvæmdina sem mörgum þykir hún talsvert lýti á umhverfi hafnarinnar. Aðrir telja hana framfaraspor sem stuðli að meiri skilvirkni í nýtingu þeirra takmörkuðu auðlinda sem hafið gefur af sér.

Björn Brimar Hákonarson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu, segir að tönkunum sé ætlað að flýta fyrir löndun á loðnuvertíð svo skip komist sem fyrst aftur til veiða eftir löndun.

Einn skipsfarmur

„Þetta eru fjórir ryðfríir tankar sem voru smíðaðir í Hollandi. Við ætlum að landa loðnu í tankana til þess að koma skipunum fyrr út meðan á hrognavertíð stendur. Tankarnir taka um 500 rúmmetra hver og því um 2.000 rúmmetra alls. Það er svipað og einn farmur til dæmis úr Heimaey VE,“ segir Björn Brimar.

Með tönkunum verða frátafir frá veiðum minni auk þess sem betra tóm gefst til þrifa í vinnslunni. Loðna mun aldrei standa lengi í tönkunum og hlutverk þeirra er fremur að sveiflujafna vinnsluna en að vera lager. Fyrir hverja vertíð verður sett upp ofanjarðarrás sem skipin tengjast og um hana fer loðnan í tankana. Undir tönkunum er dæluhús og þar er búnaður sem dælir loðnunni um neðanjarðarrás inn í hrognavinnsluna. Ofanjarðarrásin verður svo tekin niður að vertíð lokinni.

Talsverð fjárfesting

Björn Brimar segir þetta talsverða fjárfestingu sem hlaupi á nokkur hundruð milljónum króna. Tankarnir eru fjórtán metra háir. Hann segir að mannvirkin eigi vissulega eftir að setja svip á umhverfið. Menn skiptist í tvær fylkingar í Eyjum. Annars vegar þeir sem sjái eftir útsýni yfir höfnina frá ákveðnu sjónarhorni og hins vegar þeir sem sjái framkvæmdina sem framfarir í atvinnulífinu sem verði til framdráttar fyrir bæinn og fyrirtækið.

Tankarnir komu til landsins um miðjan september. Ísfélagið hafði áður látið reisa dæluhúsið og undirstöður áður en þeir komu til landsins. Skamman tíma tók að setja tankana sjálfa upp. Umsjón með verkinu hafði Skipalyftan í Vestmannaeyjum og lét smíða þá í Hollandi.