miðvikudagur, 12. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði en tregða á mörkuðum

Guðsteinn Bjarnason
23. apríl 2021 kl. 11:00

Strákarnir á Ásdísi ÞH við að draga grásleppunetin og afli er góður. Mynd/Þorgeir Baldursson

Óvenjuleg grásleppuvertíð í alla staði.

Hilmar Þór Guðmundsson segir það ólýsanlegt ævintýri að vera á grásleppuveiðum  uppi í landsteinum þegar lífið er að vakna á vorin.

„Það er æðislegt að vera hérna upp við landið á svona dögum þegar lífið er að vakna í fjörunni, fuglinn að koma og klakinn að bráðna úr klettunum. Það er eitthvað við þetta og eiginlega ekki hægt að lýsa þessu,“ segir Hilmar Þór Guðmundsson. „Maður er nánast uppi í fjöru undir klettunum og hlustar á fuglinn og sér klakann bráðna. Maður þarf bara að upplifa þetta.“

Hilmar hefur undanfarið verið á grásleppuveiðum frá Húsavík á bátnum Ásdísi ÞH, en þetta er þó aðeins þriðja árið hans á grásleppu. Að aðalstarfi er hann annar stýrimaður á Baldvini Njálssyni GK, frystitogara Nesfisks í Garði.

„Ég er svo sem ekki með mikla reynslu í þessu. Ég er bara í mánaðarfríi og var sjanghæjaður um borð í Ásdísi til þess að vera með hana á grásleppu, en þetta er ákveðin tilbreyting frá togaranum að vera í svona miklu návígi við náttúruna.“

  • Hilmar Þór Guðmundsson, skipstjóri á Ásdísi ÞH, við að merkja tunnurnar í löndun en þeir voru með 16 tunnur af sulli í fyrstu vitjun. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Hann segir veiðina hafa gengið mjög vel sem rímar þó illa við lélegt verð.

„Mér skilst það á öllum að það sé bara ævintýraleg veiði. Mér finnst líka grásleppan núna vera vænni heldur en hún var í fyrra. Þetta er bara eitthvert rugl.“

Framtíðin sé ekkert sérstaklega björt í grásleppuveiðunum þessa stundina þrátt fyrir mokveiði. Óvissa er mikil, ekki síst hvað markaði og verð snertir.

Lítið keypt

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, tekur í sama streng. Ástandið sé óneitanlega erfitt í grásleppunni.

„Við vorum að fá þær fréttir að Fiskkaup er hætt að taka á móti og Ísfélagið tilkynnti fyrir vertíðina að þeir ætluðu ekkert að kaupa,“ segir Arthur. „Þannig að þetta er bara andskoti snúið, bæði varðandi búkinn til Kína og lækkandi verð á hrognum. Á sama tíma er svo mikil grásleppuveiði að það var verið að slá Íslandsmet í þeim efnum.“

Hilmir ST landaði 10,2 tonnum og varð fyrsti báturinn í sögunni til þess að koma með meira en 10 tonn í einni löndun  en í kjölfarið hirti Hlökk ST metið og landaði 12,5 tonnum.

„Það var offramboð af búkum fyrir vertíðina, sem segir allt um ástandið á þeim markaði. Svo er verðið á hrognum miklu lægra en það hefur verið, og maður hefur jafnvel heyrt að það sé á leiðinni niður næstu daga. Þá er ljóst að markaðurinn er ekki að taka við því sem hægt er að skaffa.“

  • Þær eru misstórar en hér er Jóhann Gunnarsson, skipstjóri á Sóley ÞH með grásleppu sem var um fimm kíló að þyngd. Mynd/Þorgeir Baldursson

Uppsafnaðar birgðir og markaðir lokast

„Við höfum ekki markað fyrir meira en við erum búnir að fá hingað til,“ segir Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskkaupa í Reykjavík. „Þannig að við urðum bara að hætta að taka við. Við getum ekki verið að kaupa meira.“

Mest hefur verið að fara til Danmerkur og Þýskalands, en ekkert til Spánar eða Ameríku þótt þangað hafi töluvert verið að seljast áður.

„Sá markaður er bara lokaður núna.“

Vignir G. Jónsson, dótturfyrirtæki Brims hf., hefur eins og undanfarin ár verið að kaupa hrogn í kavíarframleiðslu en verðið hefur verið í lægri kantinum.

Verðmætin gufuðu upp

„Þetta verður ekkert auðvelt,“ segir Jón Helgason framkvæmdastjóri. „Verðmætin í búknum gufuðu upp út af því að ekkert hefur gengið að selja þetta í Kína. Svo hafa örugglega verið grásleppuhrogn í birgðum einhvers staðar. Við áttum einhverjar birgðir þegar vertíðin byrjaði en ég held að það séu engar birgðir hérna á Íslandi frá því í fyrra lengur.“

Endanlegt verð á hrognunum komi þó ekki í ljós fyrr en líða tekur á sumarið, jafnvel ekki fyrr en í júlí.

„Hrognavertíðin núna er faktíst bara að framleiða hráefni. Svo á eftir að koma í ljós hvernig gengur að selja bæði kavíarinn og svo þessar tunnur sem hafa verið saltaðar. Við erum að semja við okkar stærstu kúnna í júlí eða svo.“

Fari svo að góðir samningar takist þá fái seljendur það bætt upp, en Jón óttast að verðið geti jafnvel frekar lækkað þegar á líður. Fréttir hafi að minnsta kosti borist af því að frá Grænlandi hafi hrogn farið á mjög lágu verði.