laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Myndavélavæða fiskveiðiflota sinn

Svavar Hávarðsson
10. október 2020 kl. 09:00

Nýsjálenski flotinn er kominn til ára sinna og í engu samanburðarhæfur við það sem gerist hér um slóðir. Mynd/Sigurgeir

Nýja-Sjáland vill styrkja ímynd fiskveiða sinna

Stjórnvöld í Nýja-Sjálandi tilkynntu um mánaðarmótin áform sín um að settar yrðu eftirlitsmyndavélar um borð í 345 fiskiskip. Verkefnið kostar hátt á fjórða milljarð íslenskra króna.

Það var sjávarútvegsráðherra landsins, Stuart Nash, sem lét þessi boð út ganga í tilkynningu, en myndavélavæðingin nær til þeirra skipa og báta sem veiða næst strönd Nýja-Sjálands. Stjórnvöld ætla að leggja til hluta þess kostnaðar sem fellur til vegna þessa – bæði vegna kaupa og rekstrar. Hvert hlutfallið verður liggur ekki fyrir ennþá.

Samstaða er um þessa leið innan stjórnkerfisins og yfirlýst markmið verkefnisins er að byggja undir orðspor landsins sem framleiðanda á gæða sjávarfangi frá sjálfbærum fiskveiðum. Eins er þetta hugsað sem liður í nývæðingu greinarinnar sem setið hefur eftir í samanburði við mörg önnur lönd. Myndavélakerfin sem verða sett niður eru talin lykillinn að ábyrgari fiskveiðistjórnun og veiti það gegnsæi sem neytendur heima og erlendis krefjast, að því er haft er eftir Nash í miðlinum SeafoodSource.com. Fleira býr þarna undir, en aðgerðin er einnig tengd því að treysta þau samfélög sem reiða sig á fiskveiðar og vinnslu, ekki síst eftir þau áföll sem heimsfaraldurinn hefur þegar valdið þeim og á mörkuðum með nýsjálenskan fisk.

Verði lokið 2024

Stjórnvöld í Nýja-Sjálandi stóðu fyrir verkefni í fyrra þar sem myndavélum var komið fyrir í 20 bátum sem voru á veiðum þar sem mest er af Maui-höfrungi, sem er sá smávaxnasti af öllum þekktum tegundum höfrunga. Hann er metinn í mikilli hættu og finnst hvergi í heiminum en við vesturströnd Nýja-Sjálands. Sú aðgerð kom til viðbótar tilkynningarskyldu og rafrænnar aflaskráningar sem bundin var í lög í fyrra, og náði til 830 fiskiskipa þegar allt er talið. Auk myndavéla í 345 skip og báta á næstunni er frekari skráningarskylda boðuð.

Verkefninu á að vera lokið árið 2024 og skiptist í tvö megin skref. Hverjir fá myndavélar fyrst ræðst af veiðiskapnum og ekki síst þeim fiskimiðum sem hver og einn bátur sækir. Meðafli á hverri veiðislóð ræður því að fyrst verða settar myndavélar í 165 báta, eða þá sem stunda veiðar þar sem viðkvæmustu fiski- og fuglastofnar landsins er að finna; nokkrar tegundir höfrunga, sjaldgæfir sjófuglar eins og Gibson albatrossinn og guleygða mörgæsin sem er í mikilli útrýmingarhættu.

Í síðari hluta verkefnisins verða aðrir 160 bátar búnir myndavélum, en þeir róa á mið þar sem ekki er eins mikil hætta á viðkvæmum meðafla fugla og fiska.

Þá er verkefnið hugsað sem rannsóknarverkefni í nýjustu tækni er lítur að stafrænni eftirlitstækni sem getur nýst víðar en við fiskveiðar.

Nýsköpunarsjóður

Samhliða nefndu verkefni með myndavélavæðingu fiskiskipaflotans er komið á fót styrkjakerfi fyrir nýsjálenskan sjávarútveg. Í orði kveðnu er um styrkjakerfi vegna Covid-19 að ræða, en einstökum styrkjum er ætlað að hjálpa útgerðinni að ná sjálfbærum markmiðum, eins og það er kallað og þá ekki síst í gegnum nýsköpunarverkefni, er haft eftir Nash.