mánudagur, 1. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ofveiði raskaði jafnvæginu

22. febrúar 2021 kl. 09:00

Ígulker geta orðið stórtæk í þaraskógunum. MYND/Aðsend

Ígulkerin skildu eftir sig eyðimörk í hafinu.

Norskir sjómenn tóku um og upp úr 1970 eftir því að mikill fjöldi ígulkera væri tekinn að tæta í sig þaraskóg á stóru svæði við Noreg norðanverðan og suður með ströndinni. Nokkrum árum seinna var þaraskógurinn horfinn á um tvö þúsund ferkílómetra svæði, og með honum allt það líf sem nærst hafði á honum.

Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, telur nokkuð ljóst að ofveiði á næstu áratugunum á undan hafi raskað jafnvæginu í hafinu. Fisktegundir sem átu ígulkerin voru ofveiddar með þeim afleiðingum að ígulkerum fjölgaði gífurlega, og þar sem þarinn er ein aðalfæða ígulkera herjuðu þau grimmt á þarann sem hafði verið mikilvægur fæðuforði og uppvaxtarsvæði seyða.

Ofveiði um að kenna

Fræðimenn stofnunarinnar fóru yfir löndunartölur norskra skipa og báta langt aftur í tímann og báru þær saman við stofnstærðir tegundanna, og sáu þar að ofveiði „leiddi til þess að stóru ránfiskunum sem átu ígulkerin fækkaði. Þar með fengu ígulkerin frið til þess að háma í sig þarastönglana og skilja þannig eftir sig eyðimörk í hafinu,“ hefur stofnunin eftir Kjell Magnus Norderhaug, einum þeirra vísindamanna sem gerðu þessar athuganir.

Grein þeirra kom út síðasta sumar en nú í janúar greinir stofnunin frá fleiri niðurstöðum rannsókna á þeim áhrifum sem ofveiði hefur haft, þar sem athyglinni er sérstaklega beint að Oslóarfirði og Skagerak. Þar kemur í ljós að mikið veiðiálag þar undanfarin 100 ár, hröð tækniþróun frá því upp úr miðri síðustu öld og botnvörpuveiðar í firðinum hafi allt haft þau áhrif að fisktegundir þar hafi látið verulega á sjá.