mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rólegt yfir kolmunnaveiðunum fyrir austan

24. október 2020 kl. 11:56

Venus NS,uppsjávarskip Brims

Venus og Víkingur - skip Brims - að landa á Vopnafirði eftir fyrsta túr á kolmunna.

Venus NS og Víkingur AK eru nú á Vopnafirði með um 2.100 tonn af kolmunna. Þetta er afrakstur fyrstu veiðiferðar skipanna á miðin úti fyrir Austfjörðum.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Brims.

Að sögn Hjalta Einarssonar, skipstjóra á Víkingi, kom skipið til Vopnafjarðar í morgun með um 800 tonna afla eftir viku á veiðum.

„Það er ekki mikið af kolmunna á ferðinni en veiðisvæðið er kanturinn út af Litla-djúpi í suðri og norður að Vopnafjarðrgrunni. Kolmunninn veiðist bara yfir daginn því um leið og það skyggir er eins hann gufi upp. Við höfum náð að toga í tíu tíma á dag en svo er það búið þar til að það birtir aftur,” segir Hjalti en hann segir kolmunnann óvenju stóran og góðan.

Nokkur íslensk skip hafa verið að kolmunnaveiðum að undanförnu. Hjalti býst við því að haldið verði áfram. Þó aflinn mætti vera betri er mjög stutt á miðin frá Vopnafirði. Sama og enginn aukaafli var í þessum fyrsta túr Víkings og Hjalti segir að helst verði að varast síldina sem hefur verið í miklu magni á Austfjarðamiðum í haust.