þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sífellt fleiri vilja ala lax á landi

14. janúar 2022 kl. 15:00

Þrátt fyrir efasemdarraddir þá virðist landeldi á laxi vaxa ásmegin. Aðsend mynd

Nái öll þau landeldisverkefni fram að ganga sem nú eru á teikniborðinu þá er fræðileg eldisgeta eldis á landi 2,5 milljónir tonna.

Þegar fjögur nýjustu verkefnin eru talin í Noregi þá dregur fréttavefurinn SalmonBusiness upp þá mynd að 109 fyrirtæki séu að huga að eða hafi þegar hafið framleiðslu á laxi í landeldisstöðvum. Verkefnin ná til rúmlega tuttugu landa. Nái þessi verkefni öll fram að ganga þá er fræðileg eldisgeta þeirra 2,5 milljónir tonna. Á þessum tímapunkti eru 2,7 milljónir tonna af laxi alin í sjókvíum, sem sýnir hversu metnaðarfull verkefnin eru hvað varðar landeldi en slá skal þann varnagla að afar ólíklegt er að þau verði öll að veruleika. Helsti flöskuhálsinn er fjármögnun.

Í umfjölluninni er tekið fram að þrátt fyrir að Noregur sé stærsti framleiðandi á eldislaxi í sjó er hvergi að finna fleiri eða stærri verkefni í landeldi á laxi. Hugmyndir um slíkt eldi í Noregi eru fjölmargar og um tæplega milljón tonna framleiðslu er um að ræða komist þau öll á lappirnar.

Í Noregi eru skiptar skoðanir á því hvort landeldi sé ákjósanleg landnotkun. Er deilum þar um líkt við eldra þrætuepli sem eru vindmyllur til orkuframleiðslu.

Ísland er enginn eftirbáti hvað þetta varðar og má nefna hugmyndir um landeldi sem voru kynntar á síðasta ári, bæði í Þorlákshöfn og Reykjanesi. Nái hugmyndirnar allar að verða að veruleika er um framleiðslu á 60 til 70.000 tonn að ræða.