þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjá framtíðina í smáþörungum

Guðsteinn Bjarnason
17. apríl 2022 kl. 13:00

Bjarni G. Bjarnason, Karl Gunnarsson og Guðrún Hallgrímsdóttir vinna að vigtun klóblöðku. MYND/Aðsend

Eftir nokkurra ára þróunarvinnu í Grindavík hefur frumkvöðlafyrirtækið Hyndla ehf. komist í Evrópusamstarf um ræktun klóblöðku.

Rauðþörungurinn klóblaðka getur reynst drjúg uppspretta næringarefna, litarefna, hleypiefna og annarra verðmætra afurða. Ekki er þó ótakmarkað magn af honum í hafinu og því hefur frumkvöðlafyrirtækið Hyndla ehf. verið að þróa ræktunarkerfi fyrir klóblöðku á Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík.

„Okkur fannst nauðsynlegt að koma upp góðri skipulagðri sjálfbærri ræktun áður en allt er komið í óefni,“ sagði Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hennar.

„Það er vegna þess í fyrsta lagi að við erum þeirrar skoðunar að þörungarnir eru framtíðin og það muni innan skamms allir dengja sér á fjöruna og þá er ekki um að ræða neitt sjálfbært lífríki. Þörungurinn sem við erum með finnst aðeins í litlu magni og aðeins við Ísland. Hann er neðarlega í fjörunni þannig að oft er lífshættulegt að eltast við hann. Og ef allir myndu uppgötva hann þá yrði ekki mikið eftir af honum,“ segir Guðrún.

Áður óþekkt tegund

Guðrún er stjórnarformaður Hyndlu en ásamt henni stýra þeir Bjarni G. Bjarnason og Gestur Ólafsson fyrirtækinu. Rannsóknirnar hafa þau unnið í samvinnu við Karl Gunnarsson, þörungafræðing á Hafrannsóknastofnun.

Klóblaðka uppgötvaðist fyrst yst á Snæfellsnesi árið 1900 en það var ekki fyrr en 2020 sem Karl staðfesti að þetta væri áður óþekkt tegund rauðþörunga. Tegundin heitir á latínu Schizymenia jonsonii, svo nefnd til minningar um þörungafræðinginn Sigurði Jónsson.

  • Guðrún Hallgrímsdóttir á tilraunastöðinni í Grindavík þar sem þróaðar hafa verið aðferðir við ræktun klóblöðku. MYND/Aðsend

„Það sem er merkilegt við þessa ræktun,“ segir Guðrún, „er að þetta er ræktun innandyra á landi í einstökum ræktunarvökva sem hvergi er til nema á Íslandi, en það er borholusjór sem hefur filtrerast í gegnum hraun, Þegar hann er svo tekinn á 40 metra dýpi þá er hann með stöðugt hitastig, rúmar 7 gráður, stöðugt saltinnihald, 33 ppm eða 3,3%, og nokkuð stöðugt innihald næringarefna yfir allt árið öndvert því sem gerist í sjónum fyrir utan. Þar treysta lífverurnar á ljóstillífun í sólarljósinu að sumrinu þannig að sjórinn fyrir utan er næringarsnauður að sumri til, en þessi sjór inniheldur öll þessi lífnauðsynlegu næringarefni í jöfnu magni árið um kring.“

Hefur tekist vel

Guðrún segir síðustu niðurstöður rannsókna lofa mjög góðu. Náðst hafi gífurlegur vöxtur og því stærra sem byrjunareintakið er því meiri sé vöxturinn.

„Þarna sjáum við fram á að hægt sé að kynbæta þörunginn. Við getum valið stór eintök og bútað niður úr blöðkunum ferhyrnda eða allvega búta og fá þannig hraðari vöxt heldur en ef við værum að byrja með lítil eintök. Heildarniðurstaðan hjá okkur er að þetta er hægt, og þetta er vel hægt. Þetta hefur tekist vel og við erum að reyna að sækja í sjóði til að fá styrki til að þróa áfram ræktunarkerfið.“

Á síðastliðnu ári var fyrirtækinu boðin þátttaka í samevrópsku verkefni, TACO-ALGAE, um rannsóknir, tilraunir og hagkvæmniathuganir við ræktun stórþörunga, uppskeru, vinnslu og nýtingu verðmætra efna úr þeim. Verkefnið er til þriggja ára og er samþykkt af Blue Bio Cofund sjóði Evrópusambandsins. Tækniþróunarsjóður er aðili að Blue Bio Cofund og greiðir þátt Hyndlu í verkefninu. Heildarstyrkur til verkefnisins nemur 194 milljónum króna.

„Þar snýst málið líka um rauðþörung sem vex í litlum flóa innan við Eistland en þetta evrópuverkefni gengur út á að skoða þennan þörung og draga úr honum margvísleg virk efni. Þessir þörungar eru þekktir fyrir að innihalda töluvert mikið af þykknandi efnum eða hleypiefni eins og carrageenan og öðru slíku. Þörungarnir eru ríkir af litarefnum sem hægt er að draga úr þeim en það er líka gríðarleg eftirspurn eftir náttúrulegum litarefnum í matvælaiðnaði. Í þeim eru margvísleg næringarefni, efni fyrir lyfjaiðnaðinn, og lífvirk efni þannig að það er nánast sama hvar við drepum niður fæti, við getum alls staðar fundið eitthvað sem væri spennandi í þeim.“

Guðrún segir að þarna í tengslum við þetta verkefni verði klóblaðkan íslenska og rauðþörungurinn við Eistland bornir saman og rannsakaðir auk þess sem þróaðar verða umhverfisvænar og sjálfbærar aðferðir við að draga hin verðmætu efni úr þörungunum.

Spennt fyrir samstarfi

„Síðan erum við spennt fyrir að með í þessu verkefni eru sex mismunandi fyrirtæki bæði vestan hafs og austan sem eitthvað tengjast nýtingu á þörungum, hvort heldur sem það er í matvælaiðnað, efnaiðnað, lyfjaiðnað, fæðubótaiðnað, snyrtivöruiðnað. Þau ætla jafnhliða því sem þróaðar verða aðferðir til þess að draga þessi efni úr þörungunum að prófa þessi efni í sína framleiðslu,“ segir Guðrún.

  • Klóblaðka er rauðþörungur sem hvergi finnst nema á Íslandi.

„Þannig að það er tvennt sem við gerum okkur vonir um að ná út úr þessu verkefni. Annars vegar aðferðir til þess að nýta margvísleg efni sem klóblaðkan okkar inniheldur, og hins vegar að fá þessi lífsnauðsynlegu tengsl við markaðinn. Því markaðurinn er stór og margvíslegur en það vantar þessa tengingu milli allra þátta í ferlinu.“

Guðrún segir nú stefnt að því að „ná betri tökum á ræktuninni í samvinnu við Hafrannsóknastofnun, Karl Gunnarsson, okkar helsta þörungasérfræðing og þróa áfram ræktunarkerfið í samvinnu við sérfræðinga á Tæknisetri áður Nýsköpunarmiðstöð.“