föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skráður á sjó í 7.040 daga

Guðjón Guðmundsson
19. desember 2020 kl. 09:00

Sindri Brynjar Birgisson og Haukur Guðberg Einarsson, skipstjórar á Auði Vésteins, með viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Mynd/aðsend.

Annar skipstjórinn á Auði Vésteins GK hættir.

Haukur Guðberg Einarsson og Sindri Brynjar Birgisson, skipstjórar á línubátnum Auði Vésteins SU 88, hafa í tíu ár starfað hjá Einhamri ehf. í Grindavík. Haukur Guðberg er á öðrum stórum tímamótum því sjómennsku hans er að ljúka eftir 32 ára feril. Honum telst til að frá því að Samgöngustofa hóf skráningar hafi hann verið 7.040 daga úti á sjó eða í tæplega 20 ár. Þá vantar fjöldann allan af dögum sem Haukur var til sjós fyrir tíma skráninganna.

Haukur Guðberg segir þessi tíu ár hjá Einhamri prýðilegan tíma í alla staði. Einhamar veitti þeim félögum viðurkenningu fyrir farsælan feril og leysti þá út með forláta armbandsúrum.

Hann byrjaði hjá Einhamri haustið 2009 og var þá á Auði Vésteins eldri. Sindri var þá á Gísla Súrssyni GK en leiðir þeirra lágu svo seinna saman á Auði Vésteins yngri með sitt hvora áhöfnina.

„Ég ætla bara að prófa að stíga í land og gera eitthvað annað. Ég er búinn með minn kvóta til sjós,“ segir Haukur Guðberg sem hefur ráðið sig sem vaktstjóra hjá nýju fyrirtæki í Grindavík, Marine Collagen, sem vinnur gelatín og kollagen úr fiskroði.

Allt annað hráefni

„Þetta var fyrsti stóri plastbáturinn sinnar tegundar. Við fengum hann 2014 fullbúinn með beitingarvél frá Mustad, blæðingarkerfi frá Skaganum 3X, krapavél og öðrum nýjungum sem eru komnar í marga báta í dag. Það voru mikil viðbrigði að fara yfir á nýja Auði Vésteins. Við vorum með álkör í þeirri gömlu sem tóku einhver níu eða tíu tonn. Þá var öllum fisk sturtað yfir í önnur kör á bryggjunni. Nú eru fjörtíu 360 lítra kör um borð sem taka um fjórtán tonn og þau eru hífð upp úr bátnum inn í bíl. Meðhöndlunin á fisknum batnaði um 40-50% við þessar breytingar. Það er ekki blóðdropi í honum þegar hann fer ofan í lest. Hann fer beint í blóðgunarkör, blæðir út og byrjar þar í kælingu. Þaðan fer hann í krapa ofan í lest og er þá kominn niður í 0°. Fyrir vikið lengist líftími hráefnisins til muna þegar það er komið til viðskiptavina. Þetta er allt annað hráefni en Auður gamla kom með að landi,“ segir Haukur.

Dregið úr veiðinni

Sama útgerðarmynstur hefur verið á línubátum Einhamars um langt árabil. Bátarnir eru fyrir sunnan á vertíð og þeim síðan siglt austur í sumarbyrjun og gerðir út frá Stöðvarfirði fram að áramótum. Fjórir eru í hvorri áhöfn; skipstjóri, stýrimaður, vélstjóri og kokkur. Einhamar hefur búið áhöfnunum gott heimili í gamla pósthúsinu í Stöðvarfirði sem fyrirtækið keypti. Hauki Guðberg finnst sem fiskiríið hafi þó minnkað fyrir austan hin síðari ár. Fjölgað hefur í flotanum sem stundar veiðar þar og fleiri togarar eru á þessum slóðum að toga öll grunnin í norður og suður. Á árunum 2010-2015 voru örfáir bátar þarna að veiðum og meira fiskirí. Nú er haft meira fyrir þessu og sótt norðar, alveg norður að Vopnafirði. Róðrarnir hafa lengst. Meðalróður er að gefa 6-7 tonn en var áður 8-10 tonn. Það hafi því dregið úr afla á sama tíma og meira þurfi að hafa fyrir veiðinni.