þriðjudagur, 25. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smíðaði um 400 báta

Guðjón Guðmundsson
28. nóvember 2021 kl. 13:00

Ólafur Ástgeirsson, bátasmiður frá Vestmannaeyjum, smíðaði á sinni tíð yfir 400 báta. Ólafur, eða Óli í Bæ, var fimm barna faðir og meðal afkomendanna eru Ási í Bæ og Kristinn R. Ólafssonar útvarpsmaður.

Það var einn góðan veðurdag fyrir rúmum tuttugu árum sem Marinó Sigursteinsson pípulagningameistari í Vestmannaeyjum var á hreindýraveiðum á Héraði og átti svo í framhaldinu leið um Vopnafjörð. Þar sá hann í fjöruborðinu fallegan árabát. Hann tók upp myndavélina og hóf að mynda bátinn. Bar þá að heimamann sem vildi vita hvað vekti áhuga hans.  Marinó svaraði því einu til að sér þætti báturinn fallegur. Spurði heimamaður hann þá hvaðan hann væri. „Ég er frá Vestamannaeyjum," svaraði Marinó. „Þaðan er báturinn líka, smíðaður 1952", sagði þá heimamaður. Þar með varð ekki aftur snúið. Marinó hóf að grennslast betur fyrir um bátinn en það tók sinn tíma að hafa uppi á eigendunum. Hann komst hins vegar að því að þetta var líklega eini báturinn sem enn væri til af þeim fjölmörgu sem Ólafur Ástgeirsson bátasmiður frá Vestmannaeyjum hafði smíðað.

Ólafur, Óli í Bæ, var fimm barna faðir og meðal afkomendanna eru Ási í Bæ og Kristinn R. Ólafssonar útvarpsmaður. Ólafur smíðaði á sinni tíð yfir 400 báta og þar á meðal langflesta skjöktbátana sem notaðar voru til þess að fara út á ból í Friðarhöfn. Marinó, sem fann bátinn á Vopnafirði, og Kristinn eru skólabræður og æskuvinir.

Bátasmíði undir Eyjafjöllum

Báturinn er 5,6 metra langur og gerður fyrir tvo ræðara. Ólafur hafði smíðað bátinn og annan nákvæmlega eins fyrir einstaklinga á Vopnafirði. Annar þeirra brotnaði á legu við fjörðinn á sjöunda áratugnum.  Ólafur fór á sinni tíð einnig upp á land og smíðaði báta á bænum Varmahlíð undir Eyjafjöllum. Marinó segir að næsta verkefni verði að ná tali af Þórði Tómassyni fræðaþul og fyrrverandi safnverði í Skógum undir Eyjafjöllum. Þórður muni söguna betur en flestir þótt hann hafi orðið 100 ára síðastliðið vor.

Fjóræringurinn er kominn á útgerðarsafn Þórðar Rafns Sigurðssonar, fyrrverandi skipstjóra og útgerðarmanns sem jafnan er kenndur við Dala-Rafn. Bátur eða bátar sem Ólafur smíðaði höfðu verið varðveittir í bátaskýli Þjóðminjasafnsins í Vesturvör í Kópavogi sem en urðu þar eldi að bráð vorið 1993. Þar brunnu alls 18 bátar, þar á meðal bátur sem færeyska þjóðin hafði gefið Íslendingum í tilefni 1100 ára byggðar í landinu 1974.

„Ég ætla að vona að báturinn endi ekki á þjóðhátíðarbrennu eins og sumir árabátarnir sem faðir minn smíðaði. Báturinn sem Mari fann af sinni meðfæddu þrjósku er núna kominn í hús á góðan stað. Það væri gaman að geta varðveitt bátsskelina og fundið meira út um sögu bátsins," segir Kristinn R. Ólafsson, sonur bátasmiðsins, sem hefur ritað Björgvini Hreinssyni, sem gaf Marinó bátinn, bréf þar sem hann spyr um eigendasögu og notkun bátsins þar eystra. Björgvin er sonur Hreins Björgvinssonar og þeir feðgar eru landskunnir hákarlaveiðimenn frá Vopnafirði.

„Ég held að pabbi hafi verið byrjaður að smíða báta strax um fermingu með föður sínum og afa mínum, Ástgeiri Guðmundssyni skipasmið," bætir Kristinn við.

Trillan verður til

Á Heimaslóð, sögu-, menningar- og náttúrufarsvef um Vestmanneyjar, er eftirfarandi texta að finna um Ólaf: „Bátasmíðarnar voru nefnilega ekki aðalstarf Óla, hann var sjómaður í nær sextíu ár og stundaði bátasmíðina í hjáverkum, í skammdeginu og yfir haustmánuðina, fram að vertíðarbyrjun, oftast við slæmar aðstæður, undir Skiphellum eða í fiskikróm. Bátarnir, sem Óli í Litlabæ smíðaði, þóttu afbragðs sjóskip. Langt fram eftir síðustu öld voru svonefndir skjögtbátar notaðir til að ferja línubjóð út í báta sem lágu á bóli. Einnig voru skjögtbátarnir notaðir þegar farið var upp í Landeyjasand.“ Á Heimaslóð segir ennfremur: „Óli smíðaði fyrsta trillubátinn sem hér var notaður til fiskveiða, fyrir Stefán í Gerði og gekk frá mótornum um borð. Það var tveggja strokka tvígengisvél og svinghjólið ofan á þeim með tveimur töppum til að snúa í gang. Þá trillaði í henni og er sagt að Stefán hafi kallað bátinn trillu vegna þess. Það nafn festist síðan við þessa gerð báta og er notað enn í dag."

F.v.: Marinó Sigursteinsson, Björgvin Hreinsson frá Vopnafirði sem gaf bátinn, Ágúst Þórarinsson, vinur Marinós sem hjálpaði við flutning á bátnum og Hreinn Björgvinsson hákarlaveiðimaður. Myndina tók Þórður Rafn Sigurðsson, fyrrum skipstjóri og útgerðarmaður sem hefur byggt upp útgerðarsafnið í Vestmannaeyjum.