föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefna á stórfellda framleiðslu á skordýramjöli

Guðjón Guðmundsson
23. desember 2020 kl. 16:00

Lirfan þrefaldar þyngd sína daglega við bestu aðstæður. Hún er aðeins 14 daga að vaxa í sláturstærð. Aðsend mynd

Rækta má skordýr til framleiðslu á verðmætu hráefni.

Bresk stjórnvöld hafa veitt 10 milljóna punda styrk til að flýta fyrir þróun uppbyggingar og tækniþróunar á risavöxnu skordýrabúi, sem á að stuðla að aukinni sjálfbærni fiskeldisfyrirtækja á eyjunum hvað varðar fóðurframleiðslu.

Styrkurinn fer til fyrirtækisins Entocycle sem er ætlað að hanna kerfi sem nýtir lífrænan úrgang til ræktunar skordýra og framleiðslu lífræns áburðar.

Rannsókninni er ætlað að leiða í ljós efnahagslegar forsendur fyrir ræktun svörtu hermannaflugunnar á iðnaðarstigi með lítilli koltvísýringslosun og sýna fram á öryggi þessa í fóðurframleiðslu.

Entocycle er í samstarfi við fiskeldisstofnun Stirling hásóla og Cooke Aquaculture í Skotlandi. Samstarfið á að leiða Bretland til að verða alþjóðleg miðstöð fyrir ræktun og þróun þessarar tækni fyrir árið 2040. Þá á að vera búið að setja upp 100 stöðvar víða um heim og skapa 3.300 störf í Bretlandi.

Íslensk tenging

Tilraun var gerð á vegum Matís á síðasta ári í samstarfi við EIT Food sem er nýsköpunarmiðstöð ESB á sviði matvæla. Fiskifréttir sögðu frá því þegar verkefninu  Metamorphosis, sem fól í sér að breyta lífrænum úrgangi í verðmætt hráefni til vinnslu fiskeldisfóðurs.

Birgir Örn Smárason, umhverfis- og auðlindafræðingur hjá Matís, segir að skortur á próteinríkum fóðurhráefnum kalli eftir nýjum lausnum til að mæta eftirspurn iðnaðarins. Það eigi ekki síst við í öðrum löndum þar sem sojaprótein hefur verið flutt inn langa vegu, jafnvel frá Suður-Ameríku.

Það eru einungis eitt eða tvö fyrirtæki í heiminum sem hafa hafið framleiðslu og sölu á fiskeldisfóðri sem inniheldur skordýramjöl, til dæmis Skretting í Noregi. Frá 2010 hefur þessi lausn verið mikið til umfjöllunar og fyrirtæki á þessu sviði hafa sprottið upp.

„Við vorum í samstarfi við eitt slíkt sem heitir Entomics sem er breskt og þróar skordýramjöl og aðferðir til þess að rækta skordýr,“ segir Birgir.

Þrefaldar þyngd sína

Það tekur 14 daga að ala lirfuna upp í sláturstærð og ræktunin þarf að fara fram við stýrðar aðstæður í miklum raka og um 28 gráðu hita. Lirfan þrefaldar þyngd sína daglega við bestu aðstæður.

Birgir segir jafnframt að tilgangurinn með þróun mjölsins sé að gefa fóðurframleiðendum kost á nýju hráefni.

„Skordýramjölið er umhverfisvænt og sjálfbært því lirfan er alin á lífrænum úrgangi sem nýtast ekki annars. Framleiðslunni er reyndar sniðinn þröngur stakkur hvað varðar æti fyrir lirfuna samkvæmt evrópskum reglugerðum. Helst eru nú nýttir afgangar frá grænmetis- og ávaxtavinnslu eða ræktun, kaffikorgur og brugghrat svo eitthvað sé nefnt. Ekkert af þessu er neitt sérstaklega prótein- eða fituríkt en skordýrið umbreytir þessum úrgangi í hágæða prótein og fitu.“

Birgir telur að hægt verði að hefja framleiðslu á skordýramjöli hér á landi á iðnaðarskala þegar fram líða stundir.