laugardagur, 5. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir í útflutning á 60.000 tonnum

Guðjón Guðmundsson
7. nóvember 2020 kl. 09:00

Lengi hefur verið rætt um kosti og ókosti þess að óunninn fiskur sé fluttur úr landi - og hvort takmarkanir á slíkum útflutningi eigi yfir höfuð rétt á sér. Mynd/Þorgeir Baldursson

Viðmælendur Fiskifrétta segja stefna í að Ísland verði hráefnisuppspretta fyrir fiskvinnslu í Evrópu í mæli sem ekki hefur sést áður.

Metsala hefur verið á íslenskum fiskmörkuðum það sem af er árinu. Magnið sem hefur farið í gegnum markaðina hefur aldrei verið meira og verðmætin aldrei meiri. Hlutfallið af fiski sem fer óunnið úr landi hefur aldrei verið hærra.

Viðmælendur Fiskifrétta segja stefna í að Ísland verði hráefnisuppspretta fyrir fiskvinnslu í Evrópu í mæli sem ekki hefur sést áður. Verðmæti sölu á fiskmörkuðum fyrstu níu mánuði þessa árs er það mesta frá upphafi eða 24 milljarðar króna, er haft eftir Eyjólfi Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Reiknistofu fiskmarkaðanna í Víkurfréttum. Meðalverð, sem var hátt á síðasta ári, hefur hækkað um 3% fyrstu níu mánuði þessa árs. Á sama tíma hefur framboðið inn á markaðinn sjaldan verið meira og stefnir í að árið 2020 verði það stærsta í magni og verðmætum.

Gengið mildað höggið

Eitt af grundvallarhugtökum hagfræðinnar er að aukið framboð leiði til verðlækkana. Þetta lögmál nær ekki til íslensku fiskmarkaðanna. Þar eru önnur öfl sterkari. Fyrstu níu mánuði hefur gengi íslensku krónunnar lækkað um 18% gagnvart evru sem hefði að óbreyttu leitt til hærra afurðaverðs fiskvinnslunnar í landinu í erlendum myntum. Heimsfaraldurinn hefur þó sett strik í reikninginn. Dregið hefur úr afurðaeftirspurn erlendis frá en eftirspurn eftir heilum, óunnum fiski aukist. Vegna minnkandi eftirspurnar eftir afurðum hafa margir framleiðendur mátt lækka verð. Því hefur gengislækkunin í mörgum tilvikum ekki gert mikið annað en að draga úr skaðanum sem alheimsfaraldurinn hefur haft á markaðina.

Breyttur kaupendahópur

Samkvæmt heimildum Fiskifrétta má rekja hækkun fiskverðs á mörkuðum til eins þáttar umfram aðra; breytts kaupendahóps. Stærstu innlendu framleiðendurnir eru ekki lengur í hópi stærstu kaupenda á íslensku fiskmörkuðunum. Eins og fram kom í umfjöllun Fiskifrétta í ágúst 2019 eru íslenskir milliliðir erlendra kaupenda fyrirferðamestir á fiskmörkuðunum. Nefnd voru fyrirtækin Iraco, Atlantic Seafood og Elite Seafood. Samkvæmt heimildum blaðsins er langstærsti einstaki kaupandinn nú Atlantic Seafood. Fyrirtækið starfrækir ekki vinnslu en selur ferskan, óunninn fisk til fiskvinnslufyrirtækja um allan heim. Aðalskrifstofur eru í Hafnarfirði og fyrirtækið er einnig með skrifstofur í Danmörku og Hong Kong. Heimildarmenn segja að Atlantic Seafood hafi komið eins og stormsveipur inn á markaðinn. Þeir telja líklegt að fyrirtækið flytji nú út um 20.000 tonn af óunnum fiski úr landi á ári og sé nú fyrirferðarmeira á markaðnum en næstu fimm kaupendur sem næstir koma eru samanlagt. Þessar tölur er þó erfitt að sannreyna og ber Reiknistofa fiskmarkaðanna við trúnaði gagnvart kaupendum og seljendum.

10 milljarðar forgörðum?

Heimildarmenn Fiskifrétta segja að sala á óunnum fiski fari stöðugt vaxandi. Einn þeirra sagði að Ísland sé að breytast úr því að vera vinnsluland í það að verða hráefnisuppspretta fyrir erlenda fiskvinnslu. Fram til þessa hafi kvótaleyfishafar verið stærsta uppspretta útflutnings á óunnum fiski en nú leiði þennan útflutning íslenskir milliliðir eins og m.a. Atlantic Seafood. Hann óttast að á þessu ári verði flutt út allt að 60 þúsund tonn af óunnum fiski og þar með afleiddum störfum innan fiskvinnslunnar hér á landi. Honum reiknast til yrði þessi fiskur unninn hér á landi yrðu til verðmæti upp á 10 milljarða króna og nokkur hundruð störf.

Fyrstu átta mánuði ársins 2019 voru, samkvæmt tölum frá Fiskistofu, flutt út rúmlega sex þúsund tonn af heilum, ferskum þorski. Á sama tímabili á þessu ári nam útflutningurinn rúmlega níu þúsund tonnum að verðmæti rúmir 3,8 milljarðar króna og hafði aukist á milli ára um 49% í magni og verðmætum. Aukningin í ufsa var 36% og 66% í steinbít. Heildarútflutningurinn á óunnum fiski á þessu átta mánaða tímabili 2019 og 2020 fór úr rúmum 29 þúsund tonnum í tæp 32.500 tonn og verðmætin úr 8,1 milljarði í 10 milljarða.

20% utan uppboðskerfisins

Af þeim 24 milljörðum sem seldir voru í gegnum fiskmarkaðina fyrstu níu mánuði þessa árs stóðu 19 milljarðar fyrir fisk sem boðinn var upp í uppboðskerfi fiskmarkaðanna. Fimm milljarðar fóru með öðrum orðum eingöngu í gegnum bankaábyrgðakerfi Reiknistofu fiskmarkaðanna í beinum viðskiptum seljenda og kaupenda. Þannig voru nærri 20% af öllum þeim afla sem seldur var í gegnum fiskmarkaðina ekki boðinn upp og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Þess má þó geta að hluti þessa afla er til dæmis lifur sem er ávallt í beinum viðskiptum. Fyrstu níu mánuði ársins fengust ellefu milljarðar króna fyrir þorsk á uppboðum en þorskur að andvirði tveggja milljarða króna var aldrei boðinn upp en var seldur í gegnum kerfi fiskmarkaðanna.

Vill sjá niðurstöðu nefndarvinnu 

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur beint ítarlegum spurningum til ráðherra ríkisstjórnarinnar um viðhorf til mikils útflutnings á óunnum fiski. Skipaður var starfshópur til þess að vinna málið áfram en niðurstöður hafa ekki enn borist nefndinni.

„Starfshópurinn er að skila þessu frá sér og ráðuneytin í þann mund að gefa grænt ljós á vinnuna. Ég mun ítreka það núna við ritara atvinnuveganefndar að nú vilji nefndin fara að sjá niðurstöður þessarar vinnu,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar.

Hún segir í samtali við Fiskifréttir að hún hefði ekki farið fram með þessa athugun nema vegna þess að hún hafi miklar áhyggjur af stöðu mála.

„Ég varð engu að síður að hafa eitthvað fyrir framan mig sem ég get fest fingur á hvað varðar afleiðingarnar af þessum mikla útflutningi á óunnum fiski. En ég hef miklar áhyggjur af þessu og svo er um fleiri í atvinnuveganefnd sem fóru af stað með þessa athugun. Okkur sýnist að verið sé að flytja út verðmæti sem gætu orðið að enn meiri verðmætum með vinnslu hér á landi.“