föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppsjávarveiðar gengu vel

6. janúar 2021 kl. 10:45

Landanir á makrílvertíð í Norðfjarðarhöfn. MYND/Smári Geirsson

Síldarvinnslan á Neskaupstað fagnar góðu ári í uppsjávarveiðum þrátt fyrir loðnuleysi

„Þrátt fyrir loðnuleysi telst árið 2020 hafa verið gott ár hvað varðar veiðar á uppsjávartegundum," segir á vef Síldarvinnslunnar hf.

Skip fyrirtækisins öfluðu vel af síld, makríl og kolmunna og þá var verð á uppsjávarafurðum gott "þannig að afkoman af veiðunum var ágæt."

Samtals veiddu skip Síldarvinnslunnar, Beitir NK og Börkur NK, og skip dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf., Bjarni Ólafsson AK, nærri 124 þúsund tonn og heildarverðmætið nam nærri 5,3 milljörðum króna.

Þá tók fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti 46.882 tonnum af makríl og síld til vinnslu á nýliðnu ári. Móttekinn makríll nam 23.098 tonnum og móttekin síld 23.784 tonnum. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku síðan samtals á móti 123 þúsundum tonnum af uppsjávarfiski. Þar af tók verksmiðjan í Neskaupstað á móti 106 þúsund tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði tók á móti 17 þúsund tonnum af kolmunna.