miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Væn og falleg síld og öll í söltun

Guðjón Guðmundsson
25. nóvember 2021 kl. 10:00

Hoffellið að landa í heimahöfn á Fáskrúðsfirði. Mynd/Óðinn Magnason

Hoffellið í síld vestur af Reykjanesi. Þrjú önnur skip á miðunum.

Hoffell SU 80, uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, er við síldveiðar vestur af Reykjanesi, í sínum síðasta túr að sinni. Sigurður Bjarnason skipstjóri sagði ágæta veiði hafa verið í fyrri viku en síðan hefði síldin dreift sér. Hoffell landaði 750 tonnum úr síðasta túr sem fór öll í söltun.

Að undanförnu hefur veiði á íslenskri sumargotssíld vestur af landinu verið heldur róleg. Skipstjórar segja að allan kraft vanta í veiðina. Beitir NK kom til Neskaupstaðar sl. laugardag með 700 tonn og í kjölfar hans kom Vilhelm Þorsteinsson EA með 1.300 tonn. Vinnsla hefur því verið í fullum gangi í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eftir nokkurt hlé.

Sigurður Bjarnason sagði veiðarnar gjarnan byrja vel en svo dragi úr þeim áður en aftur fari að veiðast eitthvað að ráði að nýju. Síldin sem fékkst í síðasta túr sunnan við Breiðafjarðarfláann var falleg, 270-300 grömm að meðalþyngd.

„Hún hlýtur að þétta sig aftur fyrr en varir. Það eru þrjú skip hérna að fyrir utan okkur, Jóna Eðvalds, Börkur og Venus. Og það hefur verið rólegt yfir þessu. Þetta er heilmikið stím hjá okkur eða nálægt um 400 sjómílur frá Fáskrúðsfirði á miðin. Það eru líka miklir umhleypingar núna. Við vorum núna í stífum vindi strax og við komum suður fyrir Papey á leið á miðin og það fór ekkert að lagast fyrr en við vorum út af Kvískerjum. Þetta voru 25-28 metrar á sekúndu og talsverður sjór. Við dóluðum þetta bara á 5-6 mílum.”

47.000 tonn á land

Mikill viðsnúningur hefur orðið í þróun stofnstærðar íslensku sumargotssíldarinnar sem nánast hrundi frá árinu 2008 vegna lélegrar nýliðunar og þrálátrar sýkingar í stofninum. Á yfirstandandi fiskveiðiári er kvóti sumargotssíldar rúm 72 þúsund tonn sem er rúmum helmingi meira en var fyrir fiskveiðiárið 2019/2020. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu hafa borist á land rétt rúmlega 47.000 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.

„Við erum bara með sýnishorn af þessu, tvö þúsund tonn rúm. Þetta eru ekki nema þrír túrar. Hvað tekur við er ekki auðvelt að segja. Vanalega förum við á kolmunna eftir síldina en kvótinn er bara búinn. Það á svolítið eftir að skýrast með loðnuna og við fylgjumst náttúrulega grannt með framvindunni. En það er dálítið óljóst hvað við gerum núna eftir þennan túr. Við eigum bara eftir að veiða um 750 þúsund tonn,” segir Sigurður.

Sigurður hafði ekki frekari spurnir af loðnuveiðum en hver annar. Eitthvað yrði hennar vart en hún stæði djúpt austanvert við Kolbeinseyjarhrygginn.  Menn séu að vonast til þess að hólfið fyrir trollveiðar austan Kolbeinseyjarhryggs verði stækkað því erfitt sé að eiga við veiðarnar með nót þegar loðnan er þetta dreifð og stendur þetta djúpt.