miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðiheimildir verði framseljanlegar

Guðjón Guðmundsson
24. október 2021 kl. 08:00

Sjávarútvegur stendur undir um það bil 92% af vöruútflutningstekjum Grænlands. Aðsend mynd

Meðal tillagna grænlensku fiskveiðinefndarinnar sem hafa verið lagðar fram, eru framseljanlegar heimildir, að nýtingaréttur til allt að 10 ára verði tekinn upp í stað eignarhalds á kvóta og tekið verði upp nýtt kvótaþak.

Hilmar Ögmundsson er ráðgjafi hjá grænlenska fjármálaráðuneytinu og sat í fiskveiðinefnd grænlensku ríkisstjórnarinnar, Fiskerikommissionen, sem undanfarin tvö ár og hálft ár hefur unnið tillögur um allsherjar endurskipulagningu fiskveiðistjórnunarkerfisins í Grænlandi. Nefndin lauk störfum í júlí en skilaði skýrslunni „Fiskerikommissionens betænkning (Juli 2021)” til ríkisstjórnarinnar þann 23. september 2021.  Hann segir tillögurnar að mörgu leyti róttækar og miði að því að draga úr ofveiði og auka sjálfbærni í fiskveiðum í landinu.

Kvótar fylgi ráðgjöf

Lykilatriði tillagnanna er að útgefnir kvótar fylgi ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Grænlands í samstarfi við NAFO og ICES. Það verði gert með stjórnunaráætlun sem verði lögfest. Hilmar segir að tíðkast hafi mörg undanfarin ár á Grænlandi að útgefnir kvótar í strandveiðum á grálúðu og þorsk fari langt umfram ráðgjöf. Síðastliðin tíu ár hefur leyfum til strandveiða fjölgað mikið og með því hefur orðið pólitískur þrýstingur í þá átt að auka kvótana. Þetta hefur leitt til ofveiði á grálúðu, þorski og krabba í strandveiðum í mörg ár. Sama eigi við um úthafsveiðar á þorski. Með því að færa þetta inn í stjórnunaráætlun sem verði lögfest verði það tekið úr höndum stjórnmálamanna að bregðast við þrýstingi með því að auka kvóta.

Nefndin leggur einnig fram tillögur um hvernig kvóta verði útdeilt og að það verði gert með lögformlegum hætti, einnig til að taka valdið úr höndum einstakra stjórnmálamanna. Lagt er til að sett verði á laggirnar undirstofnun undir sjávarútvegsráðuneytinu sem fari með þessi mál.

Miðað við 3 af bestu 5

Nefndin leggur til að allir kvótar verði framseljanlegir. Nú þegar eru rækjukvótar framseljanlegir og að hluta til kvótar í strandveiðum á grálúðu. Að öðru leyti er um kvótaúthlutun til eins árs í senn að ræða sem ekki er framseljanleg. Þegar teknir verða upp framseljanlegir kvótar innan strandveiðanna mælir nefndin með því að tekið verði mið af bestu þremur veiðiárunum af síðustu fimm við úthlutun kvóta. Með þessu er m.a. stefnt að því að auka arðsemi fiskveiðanna með samþjöppun aflaheimilda innan kerfisins sem hefur blásið út undanfarin ár og dregið hefur verulega úr sjálfbærni veiðanna. Mikil og jöfn fjölgun hefur verið síðustu ár í flota strandveiðibáta. Árið 2020 stunduðu 2.044 aðilar strandveiðar við Grænland, eftir öðrum tegundum en rækju, en þeir voru 1.588 árið 2013.

  • Hilmar Ögmundsson ráðgjafi hjá grænlenska fjármálaráðuneytinu og sat í fiskveiðinefnd grænlensku ríkisstjórnarinnar.

„Vandamálið er það að kvótinn er svo langt yfir ráðgjöf núna að það þarf að trappa hann niður að ráðgjöf yfir einhvern árafjölda samhliða því að fækka þeim sem stunda veiðarnar. Verkefnið framundan er því stórt. En ætli Grænland einhvern tíma að komast inn í framtíðina og verða sjálfbært í fiskveiðum þá er þetta byrjunin," segir Hilmar.

Lagt er til að 85% nýtingarskylda verði á úthlutuðum kvótum hvers leyfishafa innan hvers árs. Færa megi 15% yfir til næsta árs og/eða veiða 15% af kvóta næsta árs. Heimilt verði að leigja frá sér 5% kvótans og meira kalli ytri aðstæður á það, og án þess þó að það verði heimilt á hverju ári. Engar hömlur verði settar á sölu á kvótahlutdeild að öðru leyti.

Þak á aflaheimildir

Nefndin leggur til að þak verði sett á aflaheimildir. Í strandveiðum á grálúðu er lagt til að þetta þak verði 0,4-0,6%, 20% í rækjuveiðum og 16,67% í úthafsveiðum á grálúðu. Þá er lagt til þak á samtalseign í grálúðu- og rækjukvóta í úthafsveiðum verði ekki lægra en 19,60%.

  • Grænlenskur sjómaður á grálúðuveiðum, en það er mikilvæg tegund í útgerð Grænlendinga. Aðsend mynd

Framseljanlegar veiðiheimildir eru á rækju núna á Grænlandi. Krafa var uppi um það meðal hagsmunaaðila að tillögur kæmu fram um hvernig dreifa mætti eignarhaldinu á rækjukvóta. Nú er hverju fyrirtæki heimilt að veiða 33% úthafsrækjukvótans og 15% kvótans í strandveiðunum. Ráðandi aðilar á þessu sviði eru Royal Greenland og Polar Seafood með eigin veiðiheimildum en einnig í gegnum eignarhald á öðrum félögum. Ein tillagna nefndarinnar er sú að óbeint eignarhald telji með í tilliti til þaks á hámarksheimildum. Tillagan lýtur að því að eigi fyrirtæki A 10% í fyrirtæki B sem á 10% af kvótanum þá teljist fyrirtæki A eiga 1% af kvótanum.

Nýtingaréttur í stað varanlegra heimilda

Nefndin leggur út frá því, að þar sem auðlindin sé eign þjóðarinnar, verði kvótaúthlutanir ekki varanlegar. Til þess að feta þessa leið þurfi að leggja af núverandi kerfi og fyrirtæki þurfa að aðlaga sig að því þaki á eignarhaldi sem nefndin mælir með. Nefndin leggur til að aðlögunin fari fram á 10-15 árum. Í lok þess tímabils fái fyrirtækin ekki varanlega kvótahlutdeild heldur nýtingarrétt og verði hann til 3-5 ára fyrir minni báta í strandveiðar og tíu ár fyrir stærri skip í senn eftir aðstæðum innan hverrar greinar, sem nefndin telur að þurfa að leggja frekara mat á. Ólíkt varanlegri kvótahlutdeild gengur nýtingarrétturinn ekki í erfðir nema einungis innan þess árafjölda sem ákveðinn verður. Einnig verði heimilt að selja nýtingarréttinn innan tímarammans en hann yrði að sjálfsögðu verðminni eftir því sem lengra liði á tímabil hans.

Nefndin leggur fram fjölmargar aðrar tillögur sem áhugasamir geta kynnt sér hér.

92% af útflutningstekjum

Stóra málið sem nú er innan stjórnsýslunnar á Grænlandi er allsherjar endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

Sjávarútvegur stendur undir um það bil 92% af vöruútflutningstekjum Grænlands sem voru á síðasta ári rúmir 100 milljarðir ÍSK. Sjávarútvegur og tengdar greinar standa undir 25-30% af þjóðarframleiðslunni.

Tekin voru upp veiðigjöld á rækju árið 1983 í Grænlandi. Fram til ársins 2013 var það eina tegundin sem bar veiðigjald. Sem dæmi má nefna að árið 2005 skiluðu veiðigjöld af rækju 50.000 DKK í opinbera sjóði.

Veiðigjöld skiluðu grænlenska ríkinu 405 milljónum DKK árið 2019, tæpum 7,5 milljörðum ÍSK miðað við gengið þess árs. Á síðasta ári voru þau 393,9 milljónir DKK, rúmir 8,2 milljarðar ÍSK. Til samanburðar má nefna að veiðigjöld skiluðu íslenska ríkinu 6,6 milljörðum árið 2019 og 4,8 milljörðum 2020. Veiðigjöldin hérlendis fyrstu átta mánuði ársins eru orðnir rúmlega fimm milljarðar króna.

Veiðigjöld per capita á Grænlandi voru því tæplega ca. 146.000 krónur en ca. 13.000 krónur á Íslandi árið 2020. Það ár voru veiðigjöldin um 5,3% af heildartekjum ríkissjóðs á Grænlandi. Hérlendis voru heildartekjur ríkissjóðs á árinu 872 milljarðar samkvæmt tölum Hagstofunnar og hlutfall veiðigjalds því 0,6% í heildartekjunum.