mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verðum þar sem fiskurinn er

Guðjón Guðmundsson
28. maí 2021 kl. 16:00

Hulda GK er glæsilegur bátur. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Ný og glæsileg Hulda GK kom til eigenda sinna fyrir skemmstu. Báturinn hefur reynst vel í alla staði fyrstu róðranna.

Hulda GK 17 er af gerðinni Cleopatra Fisherman 40BB og er 11,99 metra löng. Mælist 29,5 BT að stærð. Heimahöfn Huldu er Sandgerði.

„Við erum rétt að byrja. Búnir að fara í prufuróðra og þetta lofar góðu,“ segir Sigurður Aðalsteinsson sem stendur að útgerðarfélaginu Blakknesi sem gerir Huldu GK út ásamt sonum sínum Ólafi Má Sigurðssyni og Gylfa Þór Sigurðssyni.

„Mannskapurinn er að læra á bátinn og fá allt til þess að virka rétt. Þessir túrar hafa gengið fínt fram til þess og menn eru að fá sniglana og kælikerfið til að virka og nú er það komið í gott lag,“ segir Sigurður.

Þegar rætt var við Sigurð var Hulda GK að leggja línuna fyrir sunnan Malarrif. Hann segir tilkomu bátsins auðvitað talsverð tímamót fyrir útgerðarfélagið og í honum sé gott pláss fyrir mannskapinn og allt tilheyrandi.

Aðstaðan góð

„Við verðum bara þar sem fiskurinn er og báturinn fer á milli staða og sækir hann þar sem hann heldur sig hverju sinni. Þetta gera allir þessu stóru bátar núorðið. Þeir eru fyrir sunnan, norðan og austan og árstíðabundið hvar þeir halda sig hverju sinni. Vertíðin er hérna við suðvesturhornið og á haustin fara menn norður og austur. Það hefur dregið úr veiðum hérna við suðvesturhornið núna og menn fara að færa sitt eitthvert norður með landinu. Áhöfnin er ánægð með aðstöðuna og heldur til í bátnum þar sem allt er til alls,“ segir Sigurður.

Sigurður er faðir Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem er í hópi þriggja bestu knattspyrnumanna sem þjóðin hefur alið af sér, leikmaður Everton FC á Englandi og íslenska landsliðsins til fjölda ára. Gylfi Þór er þátttakandi í þessari fjárfestingu en Sigurður á síður von á því að hann verði munstraður á Huldu GK.

„Hann hefur gaman af því að veiða samt og gerir talsvert af því á flugustöng og á færi líka. Það má vel vera að hann skreppi á sjó í sumarfríinu. Helmingnum af sumarfríinu ver hann samt yfirleitt í þágu lands og þjóðar í landsleiki og ferðalög. Honum gefst því venjulega lítill tíma til veiða,“ segir Sigurður.

Bátarnir aldrei eins

Það er bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði sem smíðuðu Huldu GK. Þetta er stærsti báturinn sem þaðan hefur komið, þó ekki sá lengsti en sá breiðasti. Hann er skráður undir tólf metrum en er engu að síður 30 brúttótonn. Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Trefja, segir Huldu GK langbreiðasta bátinn sem fyrirtækið hefur smíðað og hann er jafnframt breiðasti báturinn í öllu krókaaflamarkskerfinu.

Trefjar og Ráðgerður skiparáðgjöf unnu teiknivinnuna í samstarfi.

„Útfærslan er síðan samkvæmt okkar stöðlum hvað varðar frágang og kerfi. Báturinn er steyptur í mótum og samsettur. Að mestu leyti smíðuðum við ný mót en önnur mót sem notuð voru áttum við til. Við erum núna að smíða annan samskonar bát fyrir útgerðarfélagið Þórsberg á Tálknafirði,“ segir Högni.

Þórsberg keypti seint á síðasta ári allt hlutafé í útgerðarfélaginu Grábrók af Brimi hf. Þórsberg greiddi fyrir viðskiptin með hlutafé í sjálfu sér og á Brim nú tæplega 41% hlut í Þórsbergi. Grábrók gerði út krókabátinn Steinunni HF og honum fylgdi um 850 tonna krókaaflamark, að mestu í þorski.

Högni vill þó ekki taka svo djúpt í árina að bátslag af þessu tagi verði einhver hilluvara hjá fyrirtækinu. Umfang bátsins er það mikið að ekki borgar sig að eiga slíka smíði á lager. Aukinheldur séu bátarnir aldrei nákvæmlega eins því alltaf koma fram séróskir frá kaupendum. En báturinn sem verið er að smíða fyrir Þórsberg verður i sömu málum og Hulda GK.

Önnur lögmál í Noregi

„En nú er eftirleikurinn auðveldari. Okkur fannst okkur takast vel upp með Huldu GK og við erum ekki að breyta neinu að ráði í nýja bátnum nema til samræmis við séróskir útgerðarinnar um fyrirkomulag á dekki svo dæmi sé tekið.“

Stefnt er að því að bátur Þórsbergs verði afhentur síðla þessa árs. Högni segir of snemmt að segja til um það hvort þetta nýja bátslag verði útflutningsvara hjá Trefjum, sem er hefur náð góðri markaðsstöðu meðal annars í Noregi. Önnur lögmál gildi í Noregi en hér á landi og þar hefur t.a.m. 30 brúttótonn markið enga þýðingu heldur sé miðað við lengd báta. Tilhneigingin í Noregi um þessar mundir sé einnig frekar í þá áttina að dregið verði úr því að hægt sé að sameina heimildir innan minna kerfisins. Það geti leitt til breytinga á eftirspurn eftir bátum í Noregi og líklegt hún verði meiri eftir minni og afkastaminni bátum.