laugardagur, 5. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðurkenning sem getur gagnast í framtíðinni

Guðjón Guðmundsson
8. nóvember 2020 kl. 09:00

Unnið að snyrtingu lifrar fyrir framleiðslu en þorsklifrarpaté með lífrænni sítrónu hefur hlotið viðurkenningu í Frakklandi. Aðsend mynd

Niðursuðuverksmiðjan Akraborg hlaut virt frönsk verðlaun.

Niðursoðin þorsklifur sem niðursuðuverksmiðjan Akraborg framleiðir fyrir franska fyrirtækið Chancerelle undir merkinu Phare d‘Ekmuhl, hlaut fyrstu verðlaun í flokki neyendavöru hjá einu virtasta fagtímariti Frakklands á sviði sjávarafurða.

Tímaritið PDM (Produits de la Mer) veitir árlega verðlaun fyrir nýsköpun í fimm flokkum. Dómnefndin er skipuð matreiðslumeisturum, sérfræðingum og lesendum og hlaut þorsklifrin frá Akraborg hæstu einkunn, 15/20 í sínum flokki. Í umsögn segir meðal annars að „bragðið er fullkomið, víkur ekki frá sönnu bragði lifrar og varan er aðgengilegri neytendum því auðvelt er að smyrja henni.“

Rolf Arnarson, forstjóri Akraborgar, segir útnefninguna vissulega ánægjuleg tíðindi sem geti gagnast fyrirtækinu til framtíðar. Það felist í þessu töluverð viðurkenning fyrir vöruþróun fyrirtækisins. Phare d‘Ekmuhl er það vörumerki Chancerelle sem býður lífrænar og vottaðar vörur.

„Varan er þorsklifrarpaté sem við höfum þróað og framleitt eftir sérstakri uppskrift fyrir Chancerelle. Þetta er eitt stærsta fyrirtækið í Frakklandi á niðursuðuvörumarkaðnum og eiga nokkur vörumerki, þar á meðal Phare d‘Ekmuhl. Varan er þorsklifrarpaté með lífrænni sítrónu,“ segir Rolf.

Nýjar tegundir í þróun

Akraborg framleiðir vöruna í formerktar dósir úr íslenskri þorsklifur en sítrónan kemur að utan. Varan fór á markað á fyrri hluta þessa árs og hefur slegið í gegn. Frakkland er einn stærsti markaðurinn í Evrópu fyrir þorsklifur. Frakkar eru annálaðir sælkerar og þekkt er ást þeirra á gæsalifur, foie gras, en þorsklifur á einnig upp á pallborðið hefur verið kölluð þar foie de la mer, eða lifur hafsins. Framleiðslan fyrir Chancerelle nemur mörgum milljónum dósa á ári. Chancerelle er einungis einn af mörgum viðskiptavinum Akraborgar sem framleiðir hverfandi magn undir eigin merki.

Niðursoðin lifur er þekkt og eftirsótt vara í Frakklandi og Þýskalandi og einnig í Austur-Evrópu og Rússlandi.

„Stærstur hluti framleiðslu okkar er tiltölulega einsleit vara sem er reykt niðursoðin þorsklifur. En við höfum lagt mikla áherslu á vöruþróun hér hjá Akraborg og höfum undanfarin ár sett á markað eina til tvær nýjar bragðtegundir á hverju ári. Nokkrar nýjar tegundir eru í þróun þessa dagana. Þetta er vara sem áratugum saman var óbreytt en við höfum lagt mikið upp úr því að þróa vöruna áfram.“

Akraborg er með lifrarvinnslu á Akranesi og á Ólafsvík og hjá fyrirtækinu starfa um 40 manns. Framleitt er að jafnaði úr 3.000-4.000 tonnum af lifur á ári. Akraborg fær sitt hráefni frá vinnslum og skipum hringinn í kringum landið. Rolf segir að lifur sé mjög viðkvæmt hráefni en meðferð þess hafi tekið stórstígum framförum meðal sjómanna og flutningsaðila á undanförnum árum.